Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. september 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við opnun Hólasandslínu 3

Kæru gestir,

Það er mikið fagnaðarefni að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í tilefni af spennusetningu Hólasandslínu 3. Mannvirkið sem um ræðir er 220 kV (kílóvolta) lína sem liggur um fjögur sveitarfélög, Akureyrarkaupstað, Eyjafjarðarsveit, Þingeyrarsveit og Skútustaðahrepp. Framkvæmdin felur í sér 10 km jarðstreng og 62 km loftlínu ásamt nýju 220 kV (kílóvolta) tengivirki á Hólasandi og á Rangárvöllum við Akureyri.

Mig langar að óska flutningsfyrirtækinu Landsneti innilega til hamingju með framkvæmdina, vandaðan undirbúning og gangsetningu mikilvægs mannvirkis í flutningsnetinu. Það er sömuleiðis við hæfi að óska íbúum Norð-Austurlands og þjóðinni allri til hamingju með framkvæmd sem ber aukna flutningsgetu og þar með talið bætt raforkuöryggi. Línan tryggir stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi og er mikilvægur hlekkur í styrkingu tengsla milli landshluta. Við horfum líka til þess að framkvæmdin mun styðja við markmið og stefnu stjórnvalda.

Góðir gestir,

En hver eru þessi markmið, hvert stefnum við? Rifjum það upp og tökum eftir því hvernig framkvæmd þessi styður okkur á þeirri vegferð.

Ferðalag okkar er í áttina að þeim metnaðarfullu markmiðum sem sett eru í stjórnarsáttmála og orkustefnu. Þau eru að verða kolefnishlutlaus og hætta alfarið notkun jarðefnaeldsneytis fyrir árið 2040. Það er ekki lítið verkefni eins og grænbókin sem ég lét vinna fyrr á árinu leiddi bersýnilega í ljós.

Leiðarljós orkustefnu eru eftirfarandi: orkuöryggi, orkuskipti, orkunýtni, náttúruvernd og samfélag/efnahagur. Sama hvar við drepum niður fæti á þessum áherslusviðum þá komum við aftur að flutningskerfinu og mikilvægi þess. Flutningskerfið verður að ráða að fullu við hlutverk sitt við núverandi aðstæður, ásamt því að verða í stakk búið til að mæta viðbót vegna orkuskipta. Mannvirki þurfa að vera traust og áfallaþolin. Nýjar áskoranir fylgja nýjum sveiflukenndari og dreifðari orkukostum. Við þurfum að leggja okkur fram um að nýta dýrmæta orku sem best. Bætt orkunýting felst í því að mæta sveiflum með sveigjanleika og sterkum tengingum um landið allt og á milli landshluta. Þannig getur flutningskerfið flutt orkuna milli landshluta ef þannig háttar á vegna vatnsstöðu, vindáttar eða annarra veðurfarslega þátta.

Nánari útfærsla stefnunnar birtist einnig í þingsályktun um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í stefnunni er sett markmið um að tengja betur landsvæðin til að gera flutningskerfið færara um að stýra raforkuflutningi með hagkvæmum hætti og sinna raforkunotendum á landsvísu án þess að til endurtekinna flutningstakmarkana eða skerðinga komi. Sömuleiðis er stefnan skýr varðandi hlutverk flutningskerfisins til að geta sinnt aukinni almennri raforkuþörf, m.a. vegna áforma um orkuskipti, og skapa skilyrði fyrir hagkvæma nýtingu umhverfisvænnar raforku. Má þannig nefna að núverandi flutningstakmarkanir skekkja samkeppnisstöðu innlendra endurnýjanlegra orkugjafa gagnvart óumhverfisvænum orkugjöfum, t.d. í rekstri fiskimjölsverksmiðja. Betri tengingar lykilsvæða varða einnig getu flutningskerfisins til að sinna hlutverki sínu ef til stórfelldra náttúruhamfara kemur. Þá eru landsvæði þar sem þörfin er brýnust, sett í forgang og er Eyjafjarðarsvæðið/Norð-Austurland þar á meðal. Landsnet hefur svarað kallinu með myndarlegum hætti eins og við sjáum hér í dag. Það er okkur umhugað að vinna að verkefnum um grunninnviði sem þessum sé í sem mestri sátt við samfélagið og sýnist mér þar hafa vel tekist hér.

Kæru gestir,

Við erum í vari fyrir einni alvarlegustu orkukrísu í áraraðir sem dunið hefur á nágrannaþjóðir allt í kringum okkur. Stríðsrekstur hefur valdið orkuskorti með gríðarhækkunum á orkuverði með alvarlegum afleiðingum fyrir þessar þjóðir. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða sem við getum þakkað okkar innlendu orkugjöfum, raforkunni og varmanum og kerfunum sem veita þeim til heimila og fyrirtækja í landinu. Að búa við slíkt orkusjálfstæði er þjóðaröryggismál sem erfitt er að meta til fjár, mögulega ómetanlegt. Við stöndum þó frammi fyrir áskorunum með þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í loftslagsmálum, eins og ég hef nefnt. Við erum að vinna að orkuskiptum en ekki gleyma því að með okkar innlendu orkugjöfum, verðum við óháð jarðefnaeldsneyti en einnig á sama tíma alfarið óháð öðrum.

Landsmenn búa nú einnig sem fyrr við orkuverð sem er lágt í samanburði við það sem er víðast hvar annars staðar, og enn hagstæðara eftir þróun síðustu missera. Þetta munum við áfram standa vörð um.

Kæru fundarmenn,

Það er á stundu sem þessari vert að líta til baka og horfa til sögunnar, til þeirra sem komu okkur á þann stað sem við sem þjóð búum við í dag, og stöndum í þakkarskuld við. Slík þróun gerist ekki af sjálfu sér, heldur þarf framsýni og einurð til að fylgja málum eftir. Í heimildarmynd sem Landsnet hefur unnið að, er sýnt frá vígslu árið 1977 þar sem hluti byggðalínunnar var tekin í notkun. Þar mælti iðnaðar- og félagsmálaráðherra, Gunnar Thoroddsen: „Góðir áheyrendur við stöndum hér við lok mikils áfanga á þeirri löngu leið að tengja saman héruð landsins með stofnlínum raforkukerfisins, norðurlínan tengist nú höfuðstað Norðurlands og þannig verður að halda áfram að tengja saman hérðuð og landshluta uns hringtenging er á komin um allt land.“

Kæru gestir,

Þó hér sé búið að ná mikilvægum áfanga, þá er áfram víða verk að vinna eins og fyrir fimmtíu árum síðan. Það eru nýjar áskoranir sem kalla á kynslóðaskipti í mannvirkjum raforkukerfisins. Flutningsfyrirtækið Landsnet leikur lykilhlutverk í að færa okkur inn í þessa sjálfbæru orkuframtíð sem við stefnum að. Ég, sem ykkar ráðherra orkumála og loftslagsmála, er ávallt reiðubúinn að taka þátt í komandi verkefnum með ykkur þannig að við sjáum raunverulegar úrbætur á stöðu raforkumála í fleiri landshlutum ásamt orkuskiptunum fram undan.

Takk fyrir


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta