Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. nóvember 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar

Kæru fundarmenn,

Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum sem eru að verða kolefnishlutlaus og hætta alfarið notkun jarðefnaeldsneytis fyrir árið 2040. Verkefnið er stórt og kallar á samdrátt í losun um 1,3 milljónir tonna CO2 á beinni ábyrgð Íslands fyrir árið 2030. Hert markmið Íslands um samdrátt í losun og markmið um kolefnishlutleysi og full orkuskipti kalla á skýrari sýn og nýja nálgun sem mun byggja á markmiðum fyrir einstaka geira atvinnulífisins, aukinni áherslu á loftslagshagstjórn og forgangsröðun í þágu loftslagsmarkmiða á öllum sviðum samfélagsins.

Það er gríðarlega mikilvægt að vita af áhuga fyrirtækja á því að leysa loftslagsvandann því án þeirra verður vandinn ekki leystur. Ráðuneytið hefur hafið samstarf við atvinnulífið um atvinnugreina nálgun að lausnum í loftslagsmálum. Ný nálgun verður viðhöfð varðandi samstarf ríkisstjórnar, stjórnsýslu, atvinnulífs, sveitarfélaga og annara hagsmunaaðila.
Markmiðið verði að ná betri og öflugri samskiptum og þannig meiri árangri á skemmri tíma. Nauðsynlegt er að stjórnvöld, atvinnulíf og sveitarfélög stígi enn ákveðnar inn í aðgerðaáætlun Íslands með eigin markmiðum og aðgerðum. Samtal við atvinnulífið vegna geiramarkmiða er komið af stað og samvinna við sveitarfélögin og Stjórnarráðið í heild er lykilatriði til að ná árangri. Opinberi geirinn er ekki undanskilinn. Þegar við leggjum af stað í það samstarf er mikilvægt að við getum byggt á þeim grunni sem lagður hefur verið.

Í nóvember 2015 skrifuðu yfir eitt hundrað forstjórar fyrirtækja og stofnana undir yfirlýsingu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta var stór áfangi og ánægjulegt hversu góð þátttakan var, enda vakti verkefnið athygli á alþjóðlegum vettvangi og var kynnt á Parísarráðstefnunni um loftslagsmál (COP21) í lok árs 2015.
Frá þessum tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar. Það má merkja á 27. aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins sem stendur nú yfir í Sharm el Sheikh í Eyptalandi.
Auk fulltrúa einstakra ríkja eru bæði fyrirtæki og sveitarfélög mætt til þátttöku á fundinum. Þar taka þau þátt í að ræða og leita leiða og lausna til að stemma stigu við loftslagsvánni.
Skilningur á umfangi vandans hefur aukist gríðarlega og viðurkenning á því að vandamálið leysist ekki með aðkomu ríkjanna eingöngu.

Þó aðgerðir til samdráttar og kolefnisbindingar séu á endanum númer eitt, tvö og þrjú, þá þurfum við líka að skilja hvernig við lögum okkur að heimi ólíkum þeim sem við nú þekkjum. Rétt eins og að samdráttur í losun er verkefni okkar allra, þá verðum við öll að læra á næstu árum að hugsa um áhrif loftslagsbreytinga þegar við byggjum húsin okkar, skipuleggjum byggðir, hugum að líffræðilegri fjölbreytni og tökum ákvarðanir innan fyrirtækjanna okkar sem móta framtíð atvinnuvega og þjóðarhag.

Ég vil nota tækifærið hér til að tilkynna að ég hef ákveðið að umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið taki þátt í kostnaði vegna loftslagsverkefnis Festu en verkefninu er ætlað að hvetja til loftslagsaðgerða í íslensku atvinnulífi og fræðslu til fyrirtækja þar að lútandi. Styrkur ráðuneytisins er liður í því að efla enn frekar samstarf og samtal við atvinnulífið.

Það er mikilvægt að vita af Festu sem bakhjarli fyrirtækja í þessari vinnu.
Gangi okkur öllum vel.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta