Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. desember 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á ársfundi Úrvinnslusjóðs 2022

Ávarpið var flutt af Stefáni Guðmundssyni ráðuneytisstjóra

Stjórn og starfsfólk Úrvinnslusjóðs. Ágætu gestir.

Kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 er framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands. Í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu eru fimm áherslumálefni sem öll tengjast með einum eða öðrum hætti þessari metnaðarfullu framtíðarsýn. Áherslumálefnin eru loftslagsmál, orkumál, vernd náttúru og menningarminja, innleiðing hringrásarhagkerfis og öryggi gagnvart náttúruvá. Til að geta unnið markvisst að svo umfangsmiklu viðfangsefni sem kolefnishlutleysi er og náð árangri er nauðsynlegt að stjórnsýsla umhverfismála sé nægjanlega vel búin undir þær áskoranir sem því fylgja. Nú um áramótin tekur gildi nýtt skipurit ráðuneytisins og tekur uppbygging þess mið af áðurnefndum áherslumálefnum.

Síðastliðið sumar hófst enn fremur vinna við að greina stofnanaskipulag ráðuneytisins. Meginmarkmið vinnunnar er að greina umbótatækifæri og áskoranir sem felast í núverandi stofnanaskipulagi. Stofnanir ráðuneytisins eru nú þrettán talsins. Verkefni þessara þrettán stofnana eru afar mikilvæg og ég er sannfærður um að tækifæri eru til að efla, styrkja og samræma betur starf þeirra svo þær geti sinnt kjarnahlutverki sínu samhliða því að takast á við þær mörgu áskoranir sem fylgja metnaðarfullri framtíðarsýn.

Góðir gestir.

Á árinu fór fram talsverð rýni á starfsemi Úrvinnslusjóðs. Í ágúst skilaði Ríkisendurskoðun niðurstöðum úr stjórnsýsluúttekt sinni á sjóðnum sem staðið hafði yfir frá fyrra ári. Til viðbótar þeirri úttekt taldi ég mikilvægt að rýna með almennum hætti fyrirkomulagið á framlengdri framleiðendaábyrgð hér á landi. Núverandi fyrirkomulag hefur lengi verið við lýði, fyrst með tilkomu spilliefnanefndar árið 1997 og svo með stofnun Úrvinnslusjóðs árið 2003. Saga núverandi fyrirkomulags spannar því orðið aldarfjórðung, á tímum þar sem umbylting hefur orðið í viðhorfum og umræðu um umhverfismál og mikilvægi þeirra. Í ljósi þess og í ljósi víðtæks hlutverks framlengdrar framleiðendaábyrgðar við innleiðingu hringrásarhagkerfis og kolefnishlutleysis skipaði ég starfshóp í ágúst síðastliðnum til að rýna núverandi fyrirkomulag, meta árangur þess, leggja mat á kosti þess og galla, gera samanburð við aðrar þjóðir og meta hvort fyrirkomulagið hér styðji nægjanlega vel við innleiðingu hringrásarhagkerfis á Íslandi. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum nú í nóvember.

Við fyrrnefnda úttekt Ríkisendurskoðunar á Úrvinnslusjóði komu í ljós tækifæri til að styrkja starfsemi sjóðsins með tilliti til mannauðsstjórnunar, þekkingar, skjala– og gagnastýringar, gæðastarfs og innra eftirlits. Jafnframt komu í ljós tækifæri til að auka gegnsæi í starfsemi sjóðsins, miðlun upplýsinga og skilvirkni í störfum stjórnar. Þá var bent á mikilvægi þess að uppfæra viðauka við lög um úrvinnslugjald, koma á reglubundinni endurskoðun tollskrárnúmera með tilliti til úrvinnslugjalds, frekara eftirliti með innheimtu gjaldsins og eftirliti með endanlegri ráðstöfun úrgangs sem sjóðurinn greiðir fyrir. Ríkisendurskoðun telur enn fremur að Úrvinnslusjóður eigi að beita sér fyrir aukinni endurvinnslu úrgangs innanlands. Ráðuneytið fagnar þeim tillögum til úrbóta sem Ríkisendurskoðun lagði fram og það er ánægjulegt að stjórn Úrvinnslusjóðs hefur samþykkt tímasetta verkáætlun til að mæta þessum ábendingum. Vinna við marga verkþættina er hafin og samkvæmt áætluninni verður öllum úrbótum lokið að ári.

Að mati fyrrgreinds starfshóps hefur Úrvinnslusjóður náð ágætum árangri við umsýslu úrvinnslugjalds, ráðstöfun þess og hefur tekist að koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem er í framlengdri framleiðendaábyrgð. Með mismunandi endurgjaldi fyrir ráðstöfunarleiðir úrgangs er lögbundinni forgangsröðun fylgt, með tilliti til umhverfisáhrifa. Starfshópurinn telur því að kerfið sem sjóðurinn byggir á sé ágætlega til þess fallið að ná árangri við endurvinnslu úrgangs og tryggja fullnægjandi meðhöndlun spilliefna. Ótvíræðir kostir kerfisins séu tengdir einfaldri og skilvirkri innheimtu úrvinnslugjalds sem leiði til þess að undanskot frá greiðslu gjaldsins séu að líkindum mun fátíðari hér en í nágrannaríkjum. Starfshópurinn telur jafnframt fyrirkomulag á útgreiðslu endurgjalds úr sjóðnum fremur einfalt og sveigjanlegt. Fyrirkomulaginu hér á landi fylgi því kostir þótt útfærslan sé fremur sérstæð í samanburði við önnur ríki, með svo ríkri aðkomu hins opinbera.

Líkt og Ríkisendurskoðun þá telur starfshópurinn skorta á gegnsæi í starfsemi Úrvinnslusjóðs og miðlun hans á upplýsingum til almennings og annarra. Starfshópurinn telur það jafnframt galla á núverandi fyrirkomulagi að aðkoma ríkisins geti dregið úr sveigjanleika við ákvörðunartöku og breytingar á úrvinnslugjaldi. Starfshópurinn bendir á að þótt innheimta úrvinnslugjalds sé einföld og skilvirk og hafi því kosti hvað það varðar þá um leið hafi komið í ljós gallar eftir því sem fleiri vöruflokkar bætast við kerfið og álagning verður flóknari þar sem tollskrá býður upp á takmarkað rými og sveigjanleika. Að mati starfshópsins bendir enn fremur fátt til þess að Úrvinnslusjóði hafi tekist að stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfis með því að auka endurnotkun á vörum og draga úr magni úrgangs eða stuðla að nýsköpun. Reynsla annarra ríkja af framlengdri framleiðendaábyrgð mun þó að mestu vera sú sama hvað þetta atriði varðar.

Til að stuðla að úrbótum leggur starfshópurinn fram 14 tillögur sem snúa að gegnsærri starfsemi Úrvinnslusjóðs, ríkari þátttöku Úrvinnslusjóðs í uppbyggingu hringrásarhagkerfis, nýjum leiðum við innheimtu úrvinnslugjalds og hugmyndum um kerfislegar breytingar.

Öllum má vera ljóst að fyrirkomulagi framlengdrar framleiðendaábyrgðar verður ekki umturnað á einni nóttu og allar grundvallarbreytingar þarf að ígrunda vel. Hins vegar er mikilvægt að nýta öll tækifæri til úrbóta ásamt því að horfa til framtíðar og greina hvernig fyrirkomulag getur til lengri tíma litið þjónað best markmiðum um hringrásarhagkerfi og kolefnishlutleysi. Ég hef óskað eftir því við starfshópinn að hann fylgi málinu eftir og eigi samtal um tillögur sínar við helstu leikendur í þessum málum hér á landi.

Góðir gestir.

Ég vil minnast á þá miklu og góðu vinnu sem Úrvinnslusjóður hefur sinnt á árinu við undirbúning að fullri gildistöku nýrra laga um hringrásarhagkerfi. Fyrir ári síðan vorum við hér á ársfundi sjóðsins og ég fór yfir helstu atriði þessara laga og minntist um leið á það skýra leiðarljós sem lögin fela í sér fyrir Úrvinnslusjóð og hlutverk hans við innleiðingu hringrásarhagkerfis á Íslandi. Markmið laga um úrvinnslugjald eru skýr um að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis með vörur og þjónustu og að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun vara og endurnýtingu úrgangs með hliðsjón af umhverfislegum ávinningi. Nýju lögin leiða meðal annars til umfangsmeiri fjármögnunar framleiðenda og innflytjenda á söfnun og meðhöndlun úrgangs, hreinsun á plastrusli á víðavangi og fræðslu. Nú um áramótin verða því grundvallarbreytingar á verkefnum Úrvinnslusjóðs og hlutverk hans vex. Úrvinnslusjóður og ráðuneytið hafa í sameiningu unnið ötullega að innleiðingunni og starfsfólk sjóðsins sýnt mikið og gott frumkvæði. Lagafrumvörp sem ætlað er að tryggja Úrvinnslusjóði fullnægjandi tekjur til að standa undir nýjum skuldbindingum eru nú í þinglegri meðferð og standa vonir til að þau verði samþykkt fyrir jólaleyfi.

Nokkrar hrókeringar urðu í stjórn Úrvinnslusjóðs á árinu og nú hafa tekið sæti aðalmanna í stjórn þær Guðný Hjaltadóttir og Líf Magneudóttir. Þeim vil ég óska velfarnaðar. Um leið þakka ég fráfarandi stjórnarmönnum vel unnin störf.

Stjórn og starfsfólk Úrvinnslusjóðs.

Til hamingju með daginn og gangi ykkur vel í mikilvægum störfum ykkar. Líkt og síðastliðin 20 ár mun Úrvinnslusjóður áfram leika eitt af lykilhlutverkunum við framkvæmd framlengdrar framleiðendaábyrgðar á Íslandi og innleiðingu hringrásarhagkerfis. Hlutverk framlengdrar framleiðendaábyrgðar í samfélaginu fer vaxandi og verður sýnilegra. Mikilvægt er að sú rýni á starfsemi sjóðsins sem fram hefur farið á þessu ári leiði til framfara í starfi sjóðsins og verði til þess að efla hann.

Góðar stundir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta