Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. janúar 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á kynningarfundi um sjálfbærnistefnu Félags húsgagna- og innréttingaframleiðenda

Stjórn Félags húsgagna- og innréttingaframleiðenda, félagsmenn og aðrir gestir.

Það er mér mikil og sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér í dag, á kynningu á sjálfbærnistefnu félagsins. Húsgagna– og innréttingasmíði á Íslandi er rótgróin atvinnugrein og félagið á sér yfir 90 ára langa sögu. En greinin hefur átt undir högg að sækja og samkeppnin við innflutta framleiðslu er hörð. Það er ánægjulegt að sjá að félagið hefur komið auga á tækifærin sem felast í sjálfbærni og hringrásarhagkerfinu og hvernig aukin sjálfbærni getur bætt aðgengi framleiðenda að mörkuðum, bætt ímynd, leitt til sparnaðar í rekstri og aukið þannig samkeppnishæfni.

Árið 2021 var gefin út ný stefna ríkisins um opinber innkaup, undir yfirskriftinni Sjálfbær innkaup. Stefnunni fylgdi jafnframt aðgerðaáætlun til þriggja ára, sem inniheldur fjölmargar aðgerðir. Áherslur stefnunnar eru fjórar: Sjálfbær innkaup, hagkvæm innkaup, nýskapandi innkaup og gagnsæ innkaup. Stefnan er í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og miðar að því að tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða við öll innkaup ríkisins, ekki síður en til hagkvæmni. Vistvæn innkaup ríkisaðila eru nú almenn regla og umhverfis– og loftslagssjónarmið eru í forgrunni í stefnu um sjálfbær, opinber innkaup.

Græn skref í ríkisrekstri er jafnframt verkefni sem felur í sér ríkan hvata fyrir ríkisstofnanir að velja rétt við innkaup. Nú eiga allar stofnanir ríkisins að vera þátttakendur í Grænu skrefunum. Það eru yfir 170 stofnanir, á yfir 500 starfsstöðvum. Með þessu er ætlunin að stofnanir dragi úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og eru innkaupin einn af sjö áhersluflokkum í verkefninu.

Oft er einfaldasta leiðin til að innleiða umhverfissjónarmið við innkaup að kaupa vörur og þjónustu sem bera viðurkennt umhverfismerki. Dæmi um slík merki eru norræni Svanurinn og Evrópublómið. Með því að velja umhverfismerkta vöru getur kaupandinn treyst því að búið sé að rýna í umhverfisáhrif vörunnar og draga úr þeim eins og mögulegt er. Samkvæmt mælingu þekkja 93% Íslendinga Svansmerkið og 72% treysta merkinu.

Ég fæ þær upplýsingar frá Umhverfisstofnun, sem hefur umsjón með Svaninum á Íslandi, að það er aukinn áhugi hjá innlendum húsgagna– og innréttingaframleiðendum á þeim möguleikum sem felast í vottun Svansins og í hlutdeild á markaði með vörur sem nota má í Svansvottaðar byggingar. Ég vona að þess verði ekki langt að bíða að ríkisstofnanir, almenningur og aðrir geti keypt Svansvottuð húsgögn og innréttingar sem framleidd eru innanlands.

Góðir gestir.

Eins og ég hef rakið hér liggur fyrir skýr stefna hins opinbera um að gera ríkar kröfur hvað varðar umhverfisáhrif við innkaup, ekki síður en kröfur um hagkvæmni. Innkaupsverð á ekki eitt og sér að ráða vali.

Ég trúi því að ef íslensk framleiðsla er samkeppnishæf þegar kemur að umhverfisáhrifum, gæðum og endingu þá muni það á endanum skila sér í samkeppnisforskoti gagnvart innfluttri framleiðslu. Hringrásarhagkerfinu fylgja gríðarlega spennandi tækifæri í nýsköpun atvinnulífs, atvinnusköpun og forskoti á samkeppnismarkaði. Ég er sannfærður um að hægt sé að skapa meiri verðmæti hér innanlands með því að byggja á sjálfbærri framleiðslu og kolefnishlutleysi.

Stjórn og félagsmenn.

Ég vil óska ykkur til hamingju með nýju stefnuna og óska ykkur jafnframt góðs gengis við innleiðingu hennar. Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni og ég hlakka til samstarfsins við ykkur. Megi innlend húsgagna– og innréttingaframleiðsla vaxa og dafna sem sjálfbær atvinnugrein.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta