Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. mars 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á Þemaþingi Norðurlandaráðs 2023

Þemaþing Norðurlandaráðs – Orkuframboð á Norðurlöndum á óvissutímum

Forseti, þingmenn Norðurlandaráðs og aðrir gestir,

Ég vil byrja á því sem formaður í norrænu ráðherranefndinni um orkumál að þakka fyrir tækifærið til að ávarpa ykkur á þemaþingi Norðurlandaráðs um málefni sem er efst á baugi víðast hvar um þessar mundir, sem eru möguleikar Norðurlandanna til að mæta þeim áskorunum sem blasa við orkuframboði á óvissutímum.

Evrópa er í miðri orkukreppu vegna innrásarstríðs Rússa í Úkraínu. Íbúar á Norðurlöndum hafa ekki farið varhluta af því ástandi sem stríðið hefur skapað. Hlutverk okkar stjórnmálamanna og embættismanna er að verja almenning fyrir verðhækkunum og mögulegum orkuskorti.

Á Íslandi erum við enn sem komið er í vari fyrir verðhækkunum raforku þar sem við erum með ótengdan markað og njótum þess að vera sjálfum okkur næg með raforku og hita sem þar að auki er öll af endurnýjanlegum uppruna. Í landi þar sem nánast allt er fremur dýrt er orkan næstum því það eina sem er ódýrt í samanburði við aðra staði og þannig viljum við hafa það.
Á slíkum tímum erum við þakklát þeim sem tóku ákvarðanir á Íslandi fyrir áratugum síðan, í síðustu orkukreppu á 7. áratugnum, að dvelja ekki við heldur að fara strax í orkuskipti sem fólust þá í að nýta alfarið innlenda orku, jarðhitann til að hita húsin. Án þessa værum við mun verr stödd í dag og sjáum það að búa við trygga orku er þjóðaröryggismál.

Orkuskiptunum er þó ekki alveg lokið hér á landi vegna samgöngukerfis sem enn er háð jarðefnaeldsneyti. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér mjög háleit og metnaðarfull markmið, það er að fara í full orkuskipti og kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

En það er gríðarstór áskorun því við stöndum frammi fyrir því að orkuframboð þarf að stóraukast ef við ætlum að klára orkuskiptin að öllu leyti. Ef við kjósum að fara í þetta með innlendum orkugjöfum þá þurfum við að rúmlega tvöfalda orkukerfi landsins til að framleiða raforku, rafeldsneyti og vetni fyrir samgöngur á landi, skipin og flugvélarnar, bæði innanlands og í millilandaflugi. Þetta eru enn stærri áskoranir í þeim löndum sem ekki búa við þetta háa hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa. Til samanburðar, þá er að mati alþjóðlegra orkusamtaka þörf á áttföldun endurnýjanlegrar orkuframleiðslu á heimsvísu.

Í dagskrárliðnum hér á undan var kynnt skýrsla Norrænu Orkurannsókna sem embættismannanefndin hefur látið vinna þar sem kemur fram ráðgjöf til ráðamanna á Norðurlöndunum um hvernig ætti að bæta orkuöryggi landanna. Þar kemur fram áhættugreining og ráðleggingar til landanna um hvernig megi bæta úr orkuörygginu. Helstu ábendingar eru eitthvað sem við getum tekið undir en þær varða hröðun leyfisveitingarferla, styrkingu orkuinnviða og samfélagslega sátt. Skýrslan sýnir einnig nauðsyn þess að huga að öllum þáttum hinnar svokölluðu orku-trílemmu (energy trilemma) sem er þríþættur vandi þar sem orkuöryggi, sjálfbærni og orkuverði er stillt upp hvert gegn öðru. Þetta er einmitt kúnstin, að ná árangri á þessum þremur sviðum samtímis. Ekki einungis þurfum við að finna leiðir til umtalsverðrar umhverfisvænnar orkuöflunar, heldur þurfum við samtímis að vinna í sátt við samfélagið og tryggja efnahagslega réttlát umskipti. Okkur er falið að gæta vandlega að hinu viðkvæma jafnvægi milli verndar náttúrunnar og nýtingar hennar. Aðeins með því munum við uppskera sátt um orkumálin til framtíðar litið. Þannig uppfyllum við markmiðið um sjálfbæra þróun sem er að mæta þörfum nútímans án þess að aftra kynslóðum framtíðar að mæta sínum þörfum.

Framtíðarsýnin um Norðurlöndin sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims er leiðarljósið á þessari vegferð.

Hr. Forseti, ágætu þingmenn,

Í Norðurlandasamstarfinu sjáum við mörg tækifæri þar sem með samvinnu náum við mun meiri árangri en þegar við reynum að tækla áskoranir hvert í sínu lagi. Það má segja að hinn fullkomni stormur geisi nú í orkugeiranum, þar sem áskoranir mæta okkur sem aldrei fyrr.
Þá er gott að vita af samstarfi okkar og þeirri fullvissu að í sameiningu finnum við lausnirnar.

Ég læt hér staðar numið að sinni og hlakka til að heyra sjónarmið um málefni þetta frá þingmönnum Norðurlandaráðsþings.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta