Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. mars 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við opnun þjóðgarðamiðstöðvar á Hellissandi

Kæru gestir,

Mikið er nú gaman að vera kominn hingað undir Jökul að fagna þessum miklu tímamótum með ykkur; Að opna Þjóðgarðsmiðstöð Snæfellsjökulsþjóðgarðs á Hellissandi.

Já, ég sagði Snæfellsjökulsþjóðgarðs, ekki Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, því fyrir ykkur sem ekki vita, að þó fólk hafi nú lengi kallað þjóðgarðinn Snæfellsjökulsþjóðgarð, þá tók þjóðgarðsráð þá ákvörðun nýlega að breyta heiti þjóðgarðsins. Nú er þetta ekki lengur gælunafn heldur líka formlegt nafn í opinberum skjölum.

En áður en ég dásama frekar þessa fallegu byggingu sem við gleðjumst yfir að sé risin, þá langar mig að beina orðum mínum til ykkar heimafólks. Það er nefnilega þannig, að það sjá allir sem heimsækja ykkur og þær fjölmörgu náttúruperlur sem hér fyrirfinnast, hversu stolt þið eruð af þjóðgarðinum ykkar. Ég segi þjóðgarðinum ykkar, því maður heyrir að þið eruð stolt af því að eiga þennan þjóðgarð. Og já, ég segi eiga, því þó þjóðgarðurinn sé auðvitað eign allra Íslendinga, þá er sú tilfinning heimafólks, að það eigi verndarsvæði, alveg gríðarlega mikilvæg.

Öðruvísi fá slík svæði ekki þá umhyggju frá nærsamfélaginu sem er svo nauðsynleg til að svæðin geti dafnað. Ég veit að það hefur ríkt jákvæðni frá upphafi gagnvart garðinum. Kristinn vinur minn Jónasson hefur til að mynda verið ötull talsmaður garðsins. Hann hefur meira segja ferðast um landið þvert og endilangt til að segja frá því hversu mikið heillaspor stofnun þjóðgarðsins hafi verið fyrir samfélagið hérna. Og það er rosalega mikilvægt að staldra við og hugsa um þessa jákvæðni og stuðning sem þjóðgarðurinn hefur. Því þannig viljum við að tilfinningar gagnvart okkar fjölmörgu náttúruverndarsvæðum séu.

En talandi um uppbyggingu og framkvæmdir. Eitt af því sem Kristinn og fleiri hafa bent á, er að auk lögbundinna áætlana og regluverks sem tengjast stofnun þjóðgarðs, var farið í markvissa vinnu í uppbyggingu innviða, vinnu sem m.a. fólst í lagningu og merkingu göngustíga, lagfæringu á eldri stígum, gerð bílastæða, uppbyggingu salernisaðstöðu, byggingu áningarstaða, endurgerð bygginga og svo framvegis.
Þetta eru verkefni sem fylgja þjóðgarði.

Auðvitað er það þannig að þetta gerist ekki á einni nóttu. Uppbygging hér byrjaði hægt. Á fyrstu árum þjóðgarðsins var opnuð gestastofa á Hellnum sem síða var flutt yfir að Malarrifi og aðstaða fyrir starfsmenn var í gamla Pósthúsinu á Hellissandi. En undanfarin ár hefur uppbyggingin vaxið hratt og verulegar upphæðir settar í framkvæmdir innan þjóðgarðsins. Það hefur haldist í hendur við aukna vitund um mikilvægi þjóðgarðsins fyrir ferðaþjónustu á svæðinu, en hún hefur aukist gríðarlega hérna síðustu ár. Þar spilar aðdráttarafl þjóðgarðsins stóra rullu. Innviðirnir sem hafa verði byggðir hjálpa til við að draga úr álagi á náttúruna og stýra gestafjöldanum réttar leiðir.

Ég vil því þakka ykkur sem búið hér á Snæfellsnesi og hafið stutt við þjóðgarðinn. Án ykkar væri hann ekki á þeim stað sem hann er í dag. Ég vil líka hrósa Umhverfisstofnun fyrir að vinna svo vel með heimamönnum að þróun þessa þjóðgarðs. Þetta samstarf er til fyrirmyndar.

En aftur að tilefni dagsins.

Það er óhætt að segja að hugmynd um þessa byggingu sé komin vel á háskólaaldur. Við undirbúning að stofnun þjóðgarðsins vorið 2001 var sett það markmið að reisa þjóðgarðsmiðstöð þar sem góð aðstaða væri til að taka á móti ferðamönnum ásamt aðstöðu fyrir starfsfólk. Undirbúningshópur ákvað að leggja til að gestastofa þjóðgarðsins yrði staðsett á Hellissandi og lóð fundin fyrir hana rétt vestan við Sjóminjasafnið og tjaldsvæðið. Þjóðgarðurinn var svo stofnaður í júní 2001.

Árið 2006 var svo haldin samkeppni um hönnun byggingarinnar. Arkís Arkitektar unnu þá samkeppni með því að skila inn tillögu að þeirri byggingu sem við stöndum hér inni í og kallast Jökulhöfði.

Síðan liðu tíu ár þangað til fyrsta skóflustungan var tekin hér árið 2016.
Það er óhætt að segja að menn hafi verið að flýta sér hægt á þessum árum.

En síðan liðu ekki „nema“ fjögur ár þangað til formleg vinna við bygginguna hófst.
Og hér erum við í dag.

Húsið skiptist í Jökulhöfða sem snýr til suðurs og vísar það nafn í Jökulinn sjálfan sem trónir hér yfir húsinu. Norðurhlutinn nefnist Fiskbeinið og vísar til fengsælla fiskmiða við Snæfellsnes. Í gegnum húsið fer síðan Þjóðvegurinn en hægt er að labba þvert í gegnum húsið bæði að innan og utan uppi á þaki.

Þjóðgarðsmiðstöðin er byggð út frá Breeam byggingastaðlinum en viðmið hans ganga út frá því að notuð séu umhverfisvæn byggingarefni og að úrgangur sé takmarkaður á byggingartíma og í rekstri sem stuðlar að því að byggingarnar verði fyrir vikið umhverfisvænni og hagkvæmari í rekstri.

Þessi nýi viðverustaður gesta og starfsfólks er mikilvæg viðbót við þjónustuna sem þjóðgarðurinn býður upp á. Gestastofan á Malarrifi annar vart lengur þeim fjölda gesta sem sækja hana heim yfir sumartímann og því gott að hingað sé líka hægt að koma til að fræðast um garðinn og sækja sér upplýsingar.

Það var byggingarfélagið Húsheild sem vann verkið og eiga þau hrós skilið.

Að lokum vil ég óska íbúum Snæfellsbæjar, starfsmönnum þjóðgarðsins og Umhverfisstofnun og þeim sem komu að hönnum og framkvæmd gestastofunnar innilega til hamingju með bygginguna.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta