Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

09. júní 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á ársfundi Orkustofnunar 2023

Ávarpið var flutt af Unni Brá Konráðsdóttur aðstoðarmanni ráðherra.


Kæru gestir,

Það er mér ánægja að ávarpa ykkur hér í dag á ársfundi Orkustofnunar.
Yfirskrift fundarins er „Orka, vatn og jarðefni – Framþróun af alúð í þágu samfélagsins“

Samfélag og efnahagur er meðal viðfangsefna orkustefnu fyrir Ísland. Þar er lögð áhersla á að þjóðin njóti ávinnings af orkuauðlindunum. Öll starfsemi og daglegt líf í nútímasamfélagi krefst öruggs aðgengis að orku. Það styður við lífsgæði að hún sé á samkeppnishæfu verði. Liður í því er að nýting orkuauðlinda skuli skila tekjum til samneyslu þjóðarinnar.

Innlend, endurnýjanleg orka þarf að vera aðgengileg á samkeppnishæfu verði um land allt og styðja þannig við byggðir landsins og atvinnulíf. Markmiðið er að þar geti þrifist atvinnustarfsemi með áreiðanlegu aðgengi að raforku. Til að ná fram þessum markmiðum þarf enn fremur að byggja upp flutnings- og dreifikerfi raforku þannig að afhendingaröryggi og aflgeta sé tryggð svo mæta megi þörfum samfélagsins á hverjum tíma, óháð búsetu.

Kæru gestir,

Orkumál gegna lykilhlutverki í okkar samfélagi og því er nauðsynlegt fyrir okkur að eiga öfluga stjórnsýslustofnun á sviði orkumála.
Umhverfis- orku- og loftlagsráðherra kynnti sumarið 2022 verkefni sem fólst í því að greina tækifæri til endurskipulagningar á stofnanakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Samkvæmt núverandi stöðu eru stofnanir ráðuneytisins 13 með um 600 starfsmenn á yfir 40 starfsstöðvum víða um land.

Stýrihópur ráðuneytisins skilaði ráðherra greinargerð í desember 2022. Þar voru lagðar fram tillögur um breytingar sem fólu í sér 3 öflugar stofnanir í stað 10, sem bæru ábyrgð á helstu málaflokkum ráðuneytisins. Lögð var til ný Loftslagsstofnun þar sem sameinaðar yrðu Orkustofnun og sá hluti af starfsemi Umhverfisstofnunar sem lýtur að stjórnsýslustarfsemi stofnunarinnar í umhverfis-, orku- og loftslagsmálum.

Megintilgangur nýrrar Loftslagsstofnunar verður að stuðla að því að markmið stjórnvalda um loftslagsmál gangi eftir auk þess að leggja áherslu á sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðlinda með náttúruvernd og lágmörkuð umhverfisáhrif að leiðarljósi. Í því sambandi er góð þjónusta nýrrar stofnunnar lykilatriði með ráðgjöf, skýrri upplýsingamiðlun og skilvirkum ferlum.  

Ávinningur af breyttu stofnanaskipulagi felst í skýrum kjarna í starfsemi stofnana sem skapar aukin tækifæri faglega til þróunar og nýsköpunar og eflingar og árangurs, stærri vinnustaður sem getur fremur tekist á við stórar áskoranir og umhverfi stöðugrar þróunar og markvissara þverfaglegt samstarf innan stofnana og þeirra í milli. Þá má gera ráð fyrir að sameiningin leiði til aukinnar hæfni, getu og sérhæfingar og eftirsóknarverðari og fjölbreyttari vinnustaða þar sem aukin tækifæri verða til starfsþróunar.

Tryggt verður að nýting fjármagns verði í takt við áherslur, um verði að ræða einfaldari fjárlagagerð og aukin rekstrarhagkvæmni auk betri nýtingar á húsnæði. Hvað varðar innri virkni þá má gera ráð fyrir að skýrari tenging á starfsemi stofnana verði við stefnu ráðuneytisins, aukin tækifæri til einföldunar á regluverki og að sameiningin leiði til aukinnar skilvirkni og framleiðslu, tækifæri til aukinnar upplýsingagjafar, gagnsæi og aðgengi að gögnum og samþættingu krafta, þekkingar og fjármagns til að mæta áskorunum í umhverfis-, orku- og loftslagsmálum og öðrum brýnum viðfangsefnum. Aukin tækifæri felast í betri þjónustu með skilvirkari og einfaldari stjórnsýslu, færri snertiflötum og stafrænni þróun og lausnum. 

Ágætu fundarmenn,

Ríkisstjórnin hefur sett loftslagsmál í forgang og leggur áherslu á markvissar og metnaðarfullar aðgerðir til að draga úr losun og hraða orkuskiptum á öllum sviðum. Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.

Orkuskiptin eru stórt verkefni og lykilpartur af því að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum. Ráðherra mun á komandi þingi leggja fram tillögu til þingsályktunar um endurnýjaða aðgerðaráætlun um orkuskipti. Núgildandi aðgerðaráætlun um orkuskipti miðar að því að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis og aukin hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa sem hafi í för með sér orkusparnað, aukið orkuöryggi, minni staðbundna mengun og losun gróðurhúsalofttegunda o.fl. Leiðarljósin eru tiltekin markmið um orkuskipti, hagrænar forsendur fyrir orkuskiptum og orkusparnaði, uppbygging innviða, orkusparnaður, samstarf og rannsóknir, þróun og nýsköpun og alþjóðasamstarf. Í tillögu að endurskoðaðri aðgerðaáætlun um orkuskipti verður byggt á greiningu á stöðu orkuskipta og tekið mið af loftslags- og orkumarkmiðum Íslands og sviðsmyndum þeim tengdum.

Stefnt er að birtingu uppfærðrar aðgerðaráætlun í loftslagsmálum fyrir árslok með aðkomu hinna ýmsu geira atvinnulífsins. Undanfarið hefur atvinnulífið unnið að hinum ýmsu aðgerðum og úrbótum er varða loftslagsmál. Niðurstöður þessara vinnu var kynnt núna á miðvikudaginn síðastliðinn á svokölluðu Grænþingi sem Samtök atvinnulífsins stóðu fyrir.

Í heildina fengu stjórnvöld 13 loftslagsvegvísa frá hinum ýmsu atvinnugreinum. Fjöldi fólks kom að þessari vinnu og yfir 300 aðgerðir voru skilgreindar, en þær snúa bæði að atvinnulífinu og stjórnvöldum. Ef við ætlum að ná fram metnaðarfullu markmiði Íslands um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, er nauðsynlegt að það fari fram í samstarfi hins opinbera og atvinnulífsins.

Með fjárhagslegum ívilnunum geta stjórnvöld stutt við og flýtt fyrir orkuskiptum. Slíkar ívilnanir hafa að mestu lagst á tekjuhlið ríkissjóðs í formi skattalegra ívilnana en þróunin er hins vegar sú að stuðningur hefur í auknum mæli færst yfir á útgjaldhlið ríkissjóðs í formi beinna styrkja. Að öllum líkindum mun sú þróun halda áfram. Orkusjóður hefur á síðustu misserum verið stórefldur og falin stór verkefni á sviði orkuskipta. Má þar nefna átak í rafvæðingu bílaleiguflotans og stuðning við þung hreinorkuökutæki.

Ágætu fundargestir,

Sviðsmyndir í skýrslu, um stöðu og áskoranir í orkumálum, sem kom út í mars í fyrra, sýndu fram á mikla þörf fyrir orkuöflun á komandi áratugum til að tryggja orkuöryggi landsmanna, sem og til að mæta eftirspurn sem kemur til vegna orkuskipta. Í því samhengi vil ég sérstaklega minnast á þrjá starfshópa á vegum ráðuneytisins sem gegna mikilvægu hlutverki við að greina hvernig bregðast megi við því. Þar er um að ræða tvo starfshópa um vindorku og starfshóp sem ætlað er að skoða aðra orkukosti en vatnsafl, jarðvarma og vindorku.

Gríðaleg tækifæri liggja í hagnýtingu vindorkunnar hér á landi til að bæta við þriðju stoðinni undir orkuöflun landsins. Starfshópur um vindorku á landi hefur skilað af sér ítarlegri og vandaðri greiningu núna í apríl þar sem velt er upp helstu álitaefnum og valkostum sem við sem þjóð stöndum frammi fyrir og þurfum að taka til skoðunar og ákvörðunar við mótun laga og reglugerðarumhverfis um hagnýtingu vindorkunnar. Í framhaldi af útgáfu skýrslunnar hefur starfshópurinn og umhverfis- orku- og loftslagsráðherra haldið fjölmarga mjög gagnlega kynningarfundi um allt land til að kynna helstu niðurstöður greiningarinnar og átt samtal við íbúa um niðurstöður hennar. Vinnu starfshópsins er ekki lokið því næsta skref í starfi hans er, á grundvelli skýrslunnar og þess samtals sem átt hefur sér stað um helstu álitaefni, að leggja fram tillögur að því hvernig best er að haga laga og regluumhverfi vindorkumála hér á landi með það að markmiði að flýta megi þessari uppbyggingu á þann hátt að það raski sem minnst öðrum mikilvægum hagsmunum eins og umhverfi, fuglalífi og byggðum landsins.

Starfshópurinn um vindorku á hafi hefur lokið störfum og skilað skýrslu sinni til ráðherra. Gera þarf nauðsynlegar endurbætur á lögum til að eyða óvissu um hvernig staðið verður að leyfisveitingum, rannsóknum, skipulagi og eftirliti vegna nýtingar vindorku á hafi. Eins þarf að taka afstöðu til þess hver rannsakar og hver greiðir kostnað af rannsóknunum. Starfshópurinn telur botnfastar vindmyllur geta orðið raunhæfan valkostur fyrir Ísland en þó ekki fyrr en eftir árið 2030. Lengra sé þó í að fljótandi vindmyllur verði hagkvæmur kostur. Nýir og fjölbreyttari orkukostir eru engu að síður mikilvægur liður í að orkuþörf verði mætt og skoða þarf vandlega hvort og þá hvernig vindorka á hafi geti orðið liður í þeirri orkuskiptaáætlun sem stjórnvöld þurfa að setja fram á næstu misserum.

Þriðji starfshópurinn vinnur að því að kanna möguleika þess að nota fleiri leiðir til bættrar orkunýtingar og orkuöflunar en nú eru nýttar. Þar er átt við aðra orkukosti en þá sem felast í vatnsafli yfir 10 MW, jarðvarma og vindi og standa utan rammaáætlunar.

Starfshópnum er sérstaklega ætlað að skoða hvaða möguleikar felast í smávirkjunum fyrir vatnsafl, sólarorkuverum, sólarsellum og vindorku á smærri skala fyrir íbúðahús og býli. Þá er hópnum einnig ætlað að skoða hvaða möguleikar felast í sjávarfallavirkjunum, nýtingu glatvarma og tækifærum sem felast í sveigjanlegri notkun og bættri orkunýtni.

Starfshópnum er ætlað að kortleggja stöðuna í dag og kanna fýsileika, framboð og varpa ljósi á hvaða hindranir, ef einhverjar standa í vegi fyrir framþróun (tæknilegir, efnahagslegir, regluverk) og hvaða leiðir eru færar til að orkukostirnir verði nýttir í meiri mæli. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili niðurstöðum og tillögum sínum til ráðherra 1. október næstkomandi.

Ágætu gestir, ég vil nú víkja að stöðu hitaveitna á Íslandi.

Ísland hefur náð einstökum árangri í nýtingu jarðhita til húshitunar og yfir 90% húsnæðis á Íslandi er kynt með hitaveitu sem byggir á beinni nýtingu jarðhita. Við búum að því að fyrri kynslóðir voru bjartsýnar og stórhuga í aðgerðum sínum og ákváðu að fara þá leið að nýta jarðhitann til húshitunar.

Ný skýrsla ÍSOR fyrir ráðuneytið um stöðu hitaveitna, sem kynnt var í síðasta mánuði, gefur okkur gott yfirlit yfir stöðu hitaveitna í dag og þær áskoranir sem þær standa frammi fyrir. Niðurstöður úttektar ÍSOR gefa til kynna að um 2/3 hlutar hitaveitna sjái fram á aukna eftirspurn eftir heitu vatni og telja veiturnar fyrirsjáanleg vandamál við að mæta henni. Það er auðvitað fyrst og fremst verkefni hitaveitnanna sjálfra að bregðast við þessari stöðu og það er gott að sjá í úttekt ÍSOR að margar hitaveitur eru þegar komnar af stað í þá vinnu.

Það er ljóst að við verðum að leggja áherslu á hitaveiturnar á næstu misserum. Af mörgum ástæðum og ekki síst vegna loftslagsbreytinga. Það eru stórar áskoranir hjá hitaveitum landsins og skýrsla ÍSOR á að vera grundvöllur ábyrgrar ákvörðunartöku í þeim verkefnum sem fram undan eru.

Góðir gestir,

Það er mikilvægt að hitaveitur geti haldið áfram sinni mikilvægu starfsemi og vaxið í takt við eftirspurn. En það er einnig mikilvægt að fjölga þeim svæðum á landinu þar sem hitaveita er í boði, til að draga úr notkun raforku og olíu til húshitunar. Það er því ánægjulegt að geta sagt frá því að framundan er sérstakt átak í leit og nýtingu jarðhita á svokölluðum „köldum“ svæðum, þ.e. á svæðum þar sem ekki er hitaveita í dag. Gert er ráð fyrir að á þessu ári verði samtals 450 m.kr. ráðstafað í styrki til leitar og nýtingu jarðhita á svæðum þar sem nú er notuð raforka og olía til húshitunar.

Ef góður árangur næst fjölgar ekki eingöngu þeim sem njóta þeirra lífsgæða sem felast í hitaveitu, heldur verður einnig hægt að minnka notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar, nýta raforku sem losnar til annarra nota, sem eykur orkuöryggi, og lækka niðurgreiðslur ríkisins vegna húshitunarkostnaðar á svæðum þar sem ekki er hitaveita í dag.

Aðeins að raforkumálum.

Málefni orkuöryggis hefur fengið aukið vægi innan ráðuneyta orkumála á undanförnum árum, sérstaklega þar sem hægagangur hefur verið í uppbyggingu sem snertir bæði orkuframboð og innviðum því tengdu, eins og flutningsmannvirkjum.
Ráðuneytið, í samstarfi við Orkustofnun, vinnur nú með niðurstöður og tillögur starfshópa sem skilað var á árinu 2020 og 2022. Verkefni um raforkuöryggi er margþætt langtímaverkefni sem er aldrei að fullu lokið. Ákveðnar breytingar voru gerðar á raforkulögum 2021 í kjölfar tillagna fyrri hóps. Síðastliðinn vetur var lagt fram frumvarp þar sem lagður er grunnur að traustri öflun og miðlun upplýsinga vegna raforkuöryggis auk þess sem að forgangur almennings og smærri fyrirtækja í tilviki orkuskorts er tryggður með lögum. Þetta er í samræmi við tillögur beggja starfshópa auk orkustefnu. Á sama tíma stendur yfir áframhaldandi vinna í nánu samstarfi við Orkustofnun og Landsnet auk aðila á markaði en gert er ráð fyrir að sú vinna leiði til frekari tillagna að lagabreytingum á komandi þingi. Áfram er unnið af kappi við bætt orkuöryggi og mikilvægt að ráðuneytið og Orkustofnun séu samstíga í þeirri vinnu.

Einnig var lagt fram frumvarp sem lýtur að því að treysta sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar samkvæmt raforkulögum í samræmi við kröfur þriðju raforkutilskipunarinnar. Öflugt, sjálfstætt raforkueftirlit er í lykilhlutverki í að stuðla að því að hér á landi þrífist virkur og trúverðugur raforkumarkaður öllum til hagsbóta.

Þá vil ég einnig nefna að ráðherra mun á komandi þingi leggja fram þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Dreifing og flutningur raforku er nauðsynlegur þáttur í grunninnviðum samfélagsins. Með stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku eru sett fram viðmið og meginreglur sem hafa ber að leiðarljósi við gerð kerfisáætlunar.

Ágætu gestir,

Að lokum vil ég nýta tækifærið og þakka starfsfólki Orkustofnunar fyrir öflugt samstarf við ráðuneytið og hvetja ykkur ágæta starfsfólk áfram til góðra verka.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta