Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. júní 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra - 50 ára afmæli RAMÝ og náttúruverndar við Mývatn og Laxá

Kæru gestir,

Það er leitt að geta ekki verið með ykkur í Mývatnssveit í dag. Tilefnið er aldeilis ærið, hálfrar aldar afmæli formlegrar náttúruverndar við Mývatn og Laxá og einnig 50 ára afmæli Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn.

Þið tókuð eflaust eftir því að ég sagði að um hálf öld væri liðin síðan formleg náttúruvernd hófst í Mývatnssveit. Þar á ég auðvitað við lögin um verndun Mývatns og Laxár sem tóku gildi árið 1974. Þar með hófst sú formlega umgjörð um náttúruvernd sem fylgdi lagasetningunni á þessu einstaka svæði á heimsvísu.

Þó ber að hafa í huga að náttúruvernd hafði verið viðhöfð löngu áður en lögin voru sett. Landbúnaður hefur verið undirstaða búsetu í Mývatnssveit í gegnum aldirnar, og auðvitað hafa bændur hér, líkt og annars staðar á landinu, hugað að sjálfbærni náttúrunnar við sín störf um langa hríð.

Það er heldur ekkert leyndarmál að á ýmsu hefur gengið í samskiptum stjórnvalda og heimamanna þegar kemur að náttúruvernd. Því eru gerð góð skil í skýrslunni „Náttúruvernd í norðri“ sem Mývetningurinn Hildur Ásta Þórhallsdóttir vann árið 2021 í tengslum við sameiningaráform Skútustaðahrepps og Þingeyjasveitar. Þar kannaði Hildur Ásta viðhorf og upplifun heimafólks til náttúruverndar á svæðinu í gegnum árin.

Rannsóknin dró fram að vantraust í garð náttúruverndaryfirvalda var töluvert í kjölfar samþykkt laganna 1974. Viðmælendur lýstu því að í upphafi hafi lítil sem engin áhersla verið lögð á samráð, og á tímum hafi tilfinning heimamanna verið að uppbygging ætti ekki rétt á sér í sveitarfélaginu vegna viðkvæmrar náttúru og lífríkis. Viðmælendur voru allir sammála um að mikilvægt væri að vera með strangar reglur í ljósi sérstöðu lífríkisins, en heimafólk upplifði afskiptaleysi. Það vantaði að þeirra mati að ýtt væri undir þátttöku þeirra sem heimamanna í náttúruverndinni, eins og mælst er til að sé gert við stjórn náttúruverndarsvæða í dag.

Ég hef einmitt sem ráðherra lagt áherslu þetta mikilvæga atriði, þ.e.a.s. að náttúruverndin sé sem næst heimafólki. Að þeir sem búa á svæðinu séu meðvitaðir um þær ákvarðanir sem eru teknar, og að samráð sé haft áður en ákvarðanir eru teknar.


En aftur að rannsókn Hildar Ástu. Á meðal viðmælenda kom jafnframt fram að samskipti hafi batnað í gegnum tíðina og þar hafi aðsetur starfsmanna Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit haft jákvæð áhrif á samskipti á báða bóga.

Með tilliti til þessa atriðis þá er ánægjulegt að þið séuð stödd í Gestastofunni Gíg í dag. Með kaupum ríkisins á Gíg hefur aðstaða starfsmanna stofnana sem starfa í Mývatnssveit stórbatnað. Húsnæðið hefur gengið í gegnum miklar breytingar sem nú eru á lokametrunum, og sú aðstaða sem hér er í boði, þar sem stofnanir ráðuneytisins og starfsemi á vegum sveitarfélagsins og fleiri eru undir sama þaki, mun ábyggilega auka ört batnandi samskipti allra sem vilja að náttúrunni og fólkinu í Mývatnssveit farnist sem best.

Rannsóknastöðin eða RAMÝ er nú hluti af nýrri Náttúrufræðistofnun sem varð til í maí síðastliðinn með lögum frá Alþingi um sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og RAMÝ.

Við eigum starfsmönnum RAMÝ mikið að þakka og ég vil nýta tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa unnið að rannsóknunum. Ég held að það halli ekki á neinn þó ég nefni sérstaklega Árna Einarsson sem hefur verið forstöðumaður RAMÝ til fjölda ára. Árni lætur brátt af störfum og ég vil þakka honum vel og mikið fyrir hans framlag til rannsókna og náttúruverndar í Mývatnssveit.

Náttúruvernd virkar ekki vel nema að fólk nái saman um hvernig að henni skuli staðið. Til að sátt sé um hana þarf að huga vandlega að tveimur þáttum, hóflegri nýtingu auðlinda og vernd náttúru fyrir óhóflegu raski. Ég vil því að lokum þakka öllum þeim sem hafa starfað við náttúruvernd- og náttúrurannsóknir á svæðinu og ekki síður vil ég þakka Mývetningum fyrir þeirra þátt í sjálfbæri náttúrunýtingu og náttúruvernd við Mývatn og Laxá.

Takk fyrir mig og góð kveðja norður til ykkar allra.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta