Hoppa yfir valmynd

Saga umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Umhverfisráðuneytið var stofnað árið 1990. Fyrir þann tíma höfðu málefni umhverfis og náttúru heyrt undir ólík ráðuneyti en stofnun sérstaks ráðuneytis um málaflokkinn hafði verið á teikniborðinu í hálfan annan áratug. Frumvarp sem lagt var fram á Alþingi 1978 náði ekki fram að ganga og á næstu árum voru gerðar fleiri tilraunir til að koma á yfirstjórn umhverfismála í Stjórnarráðinu. Þannig höfðu flestar ríkisstjórnir málið á stefnuskrá sinni. Það var þó ekki fyrr en 1989 sem skriður komst á málið þegar Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði nefnd undir forystu Jóns Sveinssonar, aðstoðarmanns ráðherra, til að semja frumvarp um stofnun sjálfstæðs umhverfisráðuneytis. Ráðuneytið var svo stofnað 23. febrúar árið 1990.

Í maí sama ár voru nokkrar stofnanir færðar undir ráðuneytið. Þær voru Náttúruverndarráð (síðar Náttúruvernd ríkisins), Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, embætti veiðistjóra, Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands, mengunarvarnir Hollustuverndar ríkisins og varnir gegn mengun sjávar, sem þá voru vistaðar hjá Siglingamálastofnun ríkisins.

Helstu verkefni hins nýja ráðuneytis voru náttúru- og umhverfisvernd, friðunar- og uppgræðsluaðgerðir, villt dýr og dýravernd, mengunarvarnir, úrgangsmál, skipulags- og byggingarmál, landnýtingaráætlanir og landmælingar, umhverfisrannsóknir, veðurathuganir og -spár sem og aðrar athuganir á lofthjúpi jarðar, fræðslu- og upplýsingastarfsemi á sviði umhverfismála, samræming aðgerða og alþjóðasamskipti á sviði umhverfismála.

Skipulag ríkisins (síðar Skipulagsstofnun) var flutt undir ráðuneytið í ársbyrjun 1991 og smám saman fjölgaði málaflokkum ráðuneytisins. Árið 1993 bættust þjóðgarðar landsins, aðrir en Þingvallaþjóðgarður, við verkefni þess og Hollustuvernd ríkisins var flutt í heild sinni til umhverfisráðuneytisins um mitt ár 1994. Árið 1997 urðu varnir gegn ofanflóðum sem og brunavarnir að málefnum umhverfisráðuneytisins og Brunamálastofnun var komið á fót í kjölfarið.

Tvær úrskurðarnefndir á vegum umhverfisráðuneytisins tóku til starfa um svipað leyti, Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála árið 1997 og Úrskurðarnefnd hollustuhátta- og mengunarvarnarmála 1. janúar árið á eftir. Sama dag tók einnig til starfa ný stofnun á vegum ráðuneytisins, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, sem sinnir rannsóknum, upplýsingamiðlun, ráðgjöf og samvinnu á sviði sjálfbærrar þróunar og umhverfismála á norðurslóðum.

Vatnaskil urðu í stjórnsýslu umhverfismála í ársbyrjun 2003 þegar Umhverfisstofnun var komið á fót en hún tók við verkefnum Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, embættis veiðistjóra, hreindýraráðs og dýraverndarráðs auk verkefna varðandi stjórn vatnamála. Sama ár var Úrvinnslusjóður settur á laggirnar í því skyni að hafa umsýslu með nýju úrvinnslugjaldi sem Alþingi hafði samþykkt að setja á ákveðna vöruflokka.

Ári síðar tók gildi ný reglugerð um Stjórnarráð Íslands þar sem ný áhersluatriði litu dagsins ljós á málefnasviði umhverfisráðuneytis, s.s. líffræðileg fjölbreytni, erfðaauðlindir, eiturefni, mat á umhverfisáhrifum og loftslagsvernd. Þremur árum síðar var reglugerðinni aftur skipt út fyrir nýja þar sem umhverfisráðuneytið tók yfir málefni landgræðslu og skógræktar og í kjölfarið, eða árið 2008, fluttust Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins (síðar Skógræktin) til ráðuneytisins.

Töluverðar breytingar urðu aftur á starfseminni 1. september 2012 við tilflutning verkefna úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti til nýs umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Við breytingarnar fluttust rannsóknir á auðlindum og ráðgjöf um nýtingu þeirra til ráðuneytisins sem var í því sambandi falið að setja viðmið um sjálfbæra nýtingu allra auðlinda. Gerð áætlunar um vernd og nýtingu orkusvæða (rammaáætlun) fluttist sömuleiðis til umhverfis- og auðlindaráðuneytis auk skipulagsmála hafs og strandsvæða. Vegna þessara nýju verkefna fluttust Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Veiðimálastofnun og landshlutaverkefni í skógrækt til ráðuneytisins en Veiðimálastofnun var flutt á ný til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í upphafi árs 2014.

Við stjórnarskipti í ársbyrjun 2017 fluttist þjóðgarðurinn á Þingvöllum til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins en með því heyrðu öll friðlýst svæði landsins undir ráðuneytið.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta