Ársskýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra 2023
Ágætu lesendur,
Óhætt er að segja að kraftur, breytingar og framtak hafi einkennt starfsemi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins á árinu 2023. Megináherslur mínar á liðnu ári hafa legið í einföldun regluverks, einföldun stofnanaskipulags og bættri nýtingu fjármuna.
Í upphafi árs tók gildi nýtt skipuriti ráðuneytisins sem er ætlað að efla starfsemi ráðuneytisins, styðja við áherslumál stjórnvalda og gera ráðuneytinu betur kleift að takast á við viðamikið hlutverk sitt m.a. á sviði loftslagsmála.
Þegar ég tók við ráðuneytinu heyrðu þrettán stofnanir undir fagsvið þess en þegar á árinu 2022 hófst vinna við endurskoðun á stofnanaskipulagi ráðuneytisins og var á árinu unnið að því að fækka þeim niður í átta. Það er gríðarlegt átak sem þarf til að ná fram sameiningu ríkisstofnana og mikilvægt að hafa náið samráð við bæði starfsmenn og stjórnendur stofnananna sem og haghafa. Markmiðið með því að ráðast í þessa vinnu er að til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir og að efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri. Í stærri stofnunum nýtum við betur þekkingu og innviði og höfum meiri sveigjanleika til að takast á við stór verkefni. Einföldun áætlanagerðar og aukin hagkvæmni í rekstri næst fram í stærri stofnunum.
Það er einnig sérstakt áherslumál mitt að fjölga störfum á landsbyggðinni með þá hugmynd að leiðarljósi að störfin verði þar sem verkefnin sannarlega eru. Að sama skapi þarf að tryggja aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.
Ég hef lagt áherslu á aukið og þétt samstarf við atvinnulífið, enda full þörf á í þeim málaflokkum sem undir ráðuneytið heyra. Sérstaklega er vert að nefna samstarfið í tengslum við Loftslagsvegvísa atvinnulífsins sem gefnir voru út á árinu og uppfærslu á aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem mun birtast á árinu 2024. Þá mun innleiðing hringrásarhagkerfisins vart nást nema með virkri þátttöku og hugmyndum frá atvinnulífinu. Þess vegna skipaði ég sérstakan hóp um það verkefni sem skilaði mjög góðum tillögum sem leiddu til stofnunar Hringrásarklasans.
Ég hef í störfum mínum haft þann háttinn á að skipa starfshópa til að skoða afmörkuð verkefni. Það tel ég vera góða leið að fá að borðinu aðila með ólíkan bakgrunn til að skila inn tillögum, sem allar eiga það sameiginleg að vera ætlað að bæta og styrkja samfélagið. Á árinu voru alls starfandi 14 slíkir hópar sem fjölluðu um fjölmörg málefni sem ná yfir breitt svið - allt frá því að skoða brýn málefni einstakra landshluta upp í orkuskipti í flugi og vindorku.
Þá hef ég lagt mikla áherslu stuðning við nýsköpunarverkefni hvað varðar loftslagsmál, orkuskipti og hringrásarhagkerfið í samstarfi við fyrirtæki, opinber orkufyrirtæki og sveitarfélög. Á þeim grunni hef ég undirritað samstarfssamninga við ýmis landshlutabundin samtök sem vinna að nýsköpunarmálum vítt og breytt um landið. Ég er sannfærður um að sú fjárfesting muni skila sér margfalt til baka í formi grænnar atvinnuuppbyggingar og framþróunar samfélagsins.
Ég vil að lokum þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum sem hafa verið kallaðir til starfa og samstarfs við ráðuneytið í þeim viðamiklu verkefnum sem við höfum sett af stað á árinu. Það er ómetanlegt að finna þann mikla áhuga og kraft sem fylgir því að vinna með stórum hópi fólks og fyrirtækja að framþróun og eflingu umhverfis-, orku- og loftslagsmála.
Efnisflokkar
Starfsemin 2022 í tölum
Markmið og árangur
Verkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins falla að mestu leyti undir málefnasvið 17 - Umhverfismál og málefnasvið 15 - Orkumál.
Starfsemi á árinu
Fjölmörg verkefni voru á borði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins á árinu 2023 sem tengjast stefnumörkun stjórnvalda, bæði reglubundnum verkefnum og ýmsum áhersluverkefnum.
Ársskýrsla ráðherra 2023
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.