Hoppa yfir valmynd

Áhersluverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Loftslagsmál

Helsta stefnuáhersla ráðuneytisins er: 

  • Ná 55% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 og kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040
  • Uppfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum
  • Efla viðnámsþrótt samfélags og lífríkis frammi fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.

Baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum er það viðfangsefni sem ber hvað hæst í umhverfismálum. Loftslagsbreytingar af mannavöldum orsakast af aukningu gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar vegna bruna jarðefnaeldsneytis og losunar frá jarðvegi út frá breytingum á landnotkun. Aðgerðir í loftslagsmálum snúast annars vegar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu koltvísýrings og með því hafa áhrif á uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Hins vegar snúast aðgerðir um að búa samfélagið undir þær breytingar sem eru fyrirsjáanlegar, og aðlaga sig að þeim sem þegar hafa orðið með því að efla viðnámsþrótt samfélags og lífríkis.

Aðgerðaáætlun og gerð aðlögunaráætlunar

Samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum voru aðgerðir í gildandi áætlun loftslagsmála taldar ná allt að 35% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda miðað við losun ársins 2005. Til viðbótar voru aðgerðir í mótun taldar geta skilað 5-11% samdrætti til viðbótar. Ljóst er að meira þarf til að ná uppfærðu loftslagsmarkmiði um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Á árinu var unnið að uppfærslu aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum en nauðsynlegt er að uppfæra hana í samræmi við uppfærðar skuldbindingar og markmið Íslands í loftslagsmálum. Stefnt var að útgáfu uppfærðrar áætlunar árið 2023 en vegna umfangs verkefnisins var útgáfu áætlunarinnar frestað til 2024.

Í samræmi við stjórnarsáttmála hefur verið unnið að því að setja áfangaskipt losunarmarkmið í samvinnu við atvinnulíf og sveitarfélög. Til að uppfylla það markmið var á árinu unnið að Loftslagsvegvísum atvinnulífsins í samvinnu við atvinnugreinafélög og voru þeir gefnir út í byrjun júní. Vegvísarnir innihalda mælanleg markmið að því marki sem unnt er og aðgerðir og úrbótatillögur sem stuðla að samdrætti í losun. Ofangreind vinna nýtist við uppfærslu á aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, en að auki verður horft sérstaklega til samtenginga við aðrar áætlanir ráðuneytis svo sem áætlanir tengdar hringrásarhagkerfi og verkefnum tengdum orkuskiptum.

Brýnt er að hafa góðar og aðgengilegar upplýsingar um loftslagsmál bæði með tilliti til aðgerða til samdráttar í gróðurhúsalofttegundum og kolefnisbindingar, sem og aðlögunaraðgerða vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Losunartölur og spár um þróun losunar, bindingar og orkuþarfar til orkuskipta eiga að vera skýrt fram settar þannig að staða gagnvart markmiðum Íslands sé aðgengileg og augljós.
Undirbúningur að gerð mælaborðs umhverfis-, orku- og loftslagsmála sem skiptir miklu máli fyrir mat á framvindu og árangri á sviði umhverfismála hélt áfram en einnig  hófst undirbúningur að birtingu uppfærðrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum á sérstakri vefsíðu sem ætlunin er að verði uppfærð mjög reglulega í kjölfar birtingar áætlunarinnar.

Í samræmi við loftslagsskuldbindingar Íslands var unnið að greiningu og undirbúningi innleiðingar á uppfærðri löggjöf ESB á sviði loftslagsmála vegna herts loftslagsmarkmiðs ESB til 2030 (Fit for 55) þvert á stjórnarráðið og stofnanir. Áhersla var á að meta möguleg áhrif löggjafarinnar á Ísland og hagsmuni Íslands.

Einnig var unnið að gerð Landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum, uppfærslu regluverks vegna hertra losunarmarkmiða og aðgerðum til að bæta gögn og upplýsingar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis vegna landnotkunar

Fleiri áætlanir á sviði loftslagsmála sem unnið er að:

  • Umbótaáætlun vegna landnotkunar 2020-2023. Unnið er að uppfærslu í samræmi við uppfærðar kröfur um gæði gagna í losunarbókhaldi Íslands um mat á losun og bindingu vegna landnotkunar.
  • Áætlun um verndun votlendis þar sem horft er til að bæta ferla til að auka áherslu á verndun votlendis, tækifæri til endurheimtar, öflun og miðlun upplýsinga um stöðu verndunar og endurheimtar votlendis.
  • Stefna um aðlögun að loftslagsbreytingum: „Í ljósi loftslagsvár“. Undirbúningur aðgerðaáætlunar er á grundvelli stefnunnar.

Starfshópar 

Ýmsir starfshópar voru að störfum á árinu. 

Stýrihópur um aðlögun skilaði skýrslunni Loftslagsþolið Ísland og lauk þar með störfum sem hófust haustið 2023. Hópurinn hafði það hlutverk að vinna tillögu til ráðherra að efnisþáttum og skipulagi fyrir gerð aðlögunaráætlunar. Þær forgangsaðgerðir sem lagðar voru til í skýrslunni eru gerð Loftslagsatlas, vöktunaráætlun fyrir Ísland, loftslagsáhættuvísar og tilraunaverkefni um gagnagátt fyrir náttúruvá og verður þessum aðgerðum komið í framkvæmd árið 2024. Aðlögunaráætlun er ætlað að gagnast við að móta aðgerðir, fylgja þeim eftir, styðja og fjármagna. Aukinheldur nýtist hún til að taka reglulega og greinargóða stöðu á aðlögun íslensks samfélags og lífríkis að loftslagsbreytingum.

Loftslagsþolið Ísland

Stjórn samráðsvettvangs um þekkingarsköpun vegna áhrifa loftslagsbreytinga sem skipuð var til eins árs árið 2022 hélt vel heppnað málþing í mars. Í stjórninni sátu fulltrúar rannsóknarstofnana og rannsóknaraðila undir formennsku Veðurstofu Íslands og var þeim falið að skilgreina starf vettvangsins sem verði starfræktur af Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands. 

Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands hélt áfram á þróast og leiddi verkefni á sínu málefnasviði, má þar nefna undirbúningi og utanumhald norrænnar ráðstefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum sem haldin var í apríl og var hluti af formennskuári Íslands í norrænu ráðherranefndinni.

Starfshópur um þátttöku íslenskra fyrirtækja og ríkisins á mörkuðum með kolefniseiningar var skipaður í apríl. Hópnum var falið það hlutverk að kortleggja stöðu og tækifæri til viðskipta með kolefniseiningar hér á landi og mögulegan ávinning af verkefnum sem framleitt geta slíkar einingar. Er skýrslu starfshópsins ætlað að innihalda tillögur að stefnumörkun stjórnvalda varðandi viðskipti með kolefniseiningar og er ætlunin að hópurinn skili henni af sér árið 2024.Vísindanefnd um loftslagsbreytingar skilaði af sér fjórðu samantektarskýrslu um umfang og afleiðingar hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi í október, en vísindanefndin var skipuð í maí 2021. Líkt og skýrslur fyrri vísindanefnda tekur skýrslan mið af af reglulegum matsskýrslum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC), auk þess að byggja á víðtæku samráði við íslenskt vísindasamfélag.

Þar kom fram að áhrifa loftslagsbreytinga er þegar farið að gæta hér á landi með breytingum á náttúrufari og lífsskilyrðum fólks,  með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Jafnframt var opnuð vefsíðan www.loftslagsbreytingar.is  til þess að hýsa og kynna skýrsluna.

Loftslagssjóður

Á árinu var úthlutað tvisvar sinnum úr Loftslagssjóði. Hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.

Einungis tvö verkefni hlutu styrk úr fyrri úthlutun, þar sem fáar umsóknir féllu að áherslum stjórnar, og hlutu þau alls 26 milljónir króna í styrki. Seinni úthlutun úr sjóðnum fór fram á haustmánuðum, og þá voru alls 16 verkefni styrkt, fjórtán nýsköpunarverkefni og tvö kynningarverkefni og var heildaruppæð styrkja rúmar 173 milljónir. Alls var sótt um 746 milljónir í 77 gildum umsóknum.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta