Hoppa yfir valmynd

Áhersluverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Náttúruvá

Helstu áherslumál ráðuneytisins eru: 

  • Uppbygging ofanflóðavarna, gerð hættumats, og úttekt á ofanflóðahættu á atvinnusvæðum.  
  • Gerð heildstæðrar stefnu um náttúruvá.  
  • Stuðningur við frekari grunnrannsóknir og kortlagningu náttúruþátta sem undirbyggja mat á náttúruvá.  
  • Endurskoðun og styrking vöktunar og mælakerfa á málefnasviði ráðuneytisins.  
  • Verkefni til að betrumbæta hættu- og áhættumat í samvinnu við sveitarfélög og aðra hagaðila, t.a.m. með hliðsjón af notkun loftslagssviðsmynda fyrir Ísland.

Náttúruvá er mikilvægur málaflokkur sem þarfnast öflugrar og heildstæðrar stefnumótunar. Þekking á umhverfinu er undirstaða réttra viðbragða við náttúruvá. Forsendur hafa þó verið að breytast með breyttu byggðamynstri og landnýtingu, aukinni ferðaþjónustu og áhrifum loftslagsbreytinga á náttúruvá. Frá 2010 hefur hver náttúruvár atburðurinn rekið annan og þeir hafa sýnt fram á mikilvægi þekkingar, vöktunar og réttra viðbragða til að draga úr tjóni vegna náttúruvár. Á árinu var vinna stjórnvalda við náttúruvá grannskoðuð af starfshóp um náttúruvá, stöðumat og áskoranir á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár.

Áfram hefur verið hugað markvisst að uppbyggingu ofanflóðavarna. Lokið hefur verið uppbyggingu varna á 6 af 15 þéttbýlisstöðum þar sem íbúðarhús eru á þeim svæðum þar sem þörf er metin fyrir varanlegar aðgerðir til þess að minnka hættuna. Stefnt er að því að uppbyggingu varna á þessum þéttbýlisstöðum verði lokið fyrir árslok 2033.

Haldið var áfram að vinna að endurbótum og uppbyggingu mælakerfis sem miðar að því að betrumbæta ofanflóðaeftirlit. Tvö verkefni voru unnin í samstarfi við Vegagerðina, annars vegar uppsetning skafrenningsmælis á Steingrímsfjarðarheiði, sem er tilraunaverkefni, og hins vegar uppsetning úrkomustöðvar við Ólafsfjarðarveg. Vefmyndavélar voru settar upp á Siglufirði og í Tungudal og fleiri vefmyndavélar voru keyptar, sem settar verða upp í byrjun árs 2024.  Snjódýptarmælar voru settir upp á fjórum stöðum og úrkomumælir var settur upp á Hólmavík. Fjárfest var í veðurstöð sem sett verður upp í Vík í byrjun árs 2024 og í úrkomumæli sem settur verður upp á Reykhólum, einnig í byrjun árs 2024.

Unnið er að ofanflóðahættumati og endurskoðun hættumats þar sem reist hafa verið varnarvirki, en þar eru niðurstöður úr rannsóknarverkefninu um líkanreikninga á snjóflóðum sem lenda á varnarvirkjum nýttar. Einnig er  unnið að könnun á ofanflóðahættu í dreifbýli og hættumati á skíðasvæðum. Þá lauk vinnu vegna úttektar á ofanflóðahættu á atvinnusvæðum og skýrsla um efnið kom út á árinu 2023. 

Hættumat vegna vatns- og sjávarflóða og eldgosa gengur samkvæmt áætlun. Á árinu komu m.a. út skýrslurnar “Langtímahættumat Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns – Hrauna-, gasmengunar- og gjóskufallsvá” og “Mat á áfallaþoli vistkerfa á áhrifasvæði Skaftárhlaupa gagnvart ákomu sets og fokefna”. Unnið er að því að efla samstarf um gerð hættu- og áhættumats með sveitarfélögum á vettvangi Ofanflóðanefndar og gegnum tilraunaverkefni tengt áhrifum loftslagsbreytinga í Byggðaáætlun. 

Starfshópar

Starfshópur um náttúruvá, stöðumat og áskoranir á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár vann að skýrslu sem kynnt var í apríl 2023.  

Náttúruvá – Stöðumat og áskoranir varðandi mat og endurmótun á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár

Stýrihópur vegna aðlögunar að loftslagsbreytingum sem hóf störf árið 2022 með vinnustofu með hagaðilum um náttúruvá lauk störfum og gaf út skýrsluna Loftslagsþolið Ísland í september þar sem gerð var tillaga að efnisþáttum og skipulagi fyrir gerð landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Þar má einnig finna forgangsverkefni sem sett var af stað undir lok árs undir heitinu “Tilraunaverkefni um gagnagátt fyrir náttúruvá með áherslu á vatns- og sjávarflóð”.

Loftslagsþolið Íslands

Framkvæmdir fjármagnaðar af Ofanflóðasjóð á árinu:

Á Eskifirði              

  • Unnið var við varnir við Lambeyrará.  

Á Patreksfirði      

  • Unnið var við varnir við Urði, Hóla og Mýrar.

Á Siglufirði                  

  • Unnið var að 3. áfanga framkvæmda við upptakastoðvirki í Hafnarhyrnu. Áætluð verklok eru 2024. 

Á Seyðisfirði 

  • Framkvæmdir við varnargarða (Aldan og Bakkahverfi) hófust á árinu 2022 og eru áætluð verklok 2027. 

Á Flateyri              

  • Unnið var að undirbúningi útboðs framkvæmda við endurbættar varnir.   Útboð fyrirhugað á árinu 2024. 

     

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta