Hoppa yfir valmynd

Áhersluverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Orkumál

Helstu áherslur ráðuneytisins eru:

  • Tryggja orku til orkuskipta og framgang þriðju orkuskiptanna, þannig að fullum orkuskiptum verði náð fyrir lok árs 2040 og Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst þjóða. Orkusjóður verður efldur til að vinna að þessum markmiðum.
  • Tryggja orkuöryggi fyrir alla landsmenn og aðgengi að grænni orku og traustum innviðum. Tryggja jafnt aðgengi að orku á landsvísu.
  • Áhersla er á græna atvinnuuppbyggingu og grænar fjárfestingar sem gera Ísland að vöggu nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar. Bætt orkunýting heimila og fyrirtækja.
  • Vinna að framgangi allra orkukosta, hefðbundinna sem nýrra.

Orkustefna til ársins 2050 ber heitið „Sjálfbær orkuframtíð“. Í stefnunni eru sett fram markmið um orkuskipti og loftslagsmál, endurnýjanlega orku, orkunýtni, ávinning samfélags og neytenda, náttúruvernd og lágmörkun umhverfisáhrifa. Áhersla er á samkeppnishæfni orkumarkaða og verðmætasköpun, trausta og örugga innviði um land allt og öruggt orkuframboð. Í orkustefnu kemur fram að öll nýting orkuauðlinda til framleiðslu raforku, varma eða eldsneytis þurfi að vera með sjálfbærum hætti. Við ákvarðanir um verndun landsvæða eða virkjun orkuauðlinda, sem og uppbyggingu orkukerfisins, verði gætt að jafnvægi milli hinna þriggja vídda sjálfbærrar þróunar; umhverfis, samfélags og efnahags.

Starfshópar

Ýmsir starfshópar voru að störfum á árinu 2023.

Orkuöryggi á heildsölumarkaði

Í ágúst 2020 skilaði starfshópur skýrslu til ráðherra um orkuöryggi á heildsölumarkaði fyrir raforku. Í niðurstöðum starfshópsins var að finna tillögur sem m.a. lúta að skilgreiningu á raforkuöryggi, ábyrgð og hlutverki stjórnvalda og öryggismörkum varðandi fullnægjandi framboð raforku. Í Orkustefnu fyrir Ísland, sem gefin var út það sama ár  kemur m.a. fram að orkuöryggi og tryggt orkuframboð sé grundvallarþáttur í þjóðaröryggi Íslands. Með breytingu á raforkulögum með lögum nr. 74/2021 er undirstrikað í raforkulögum að eitt af markmiðum laganna sé að tryggja fullnægjandi raforkuöryggi. Í júní 2022 skilaði starfshópur sem fenginn var til að vinna áfram með málið tillögum um ýmsar útfærslur til að fullnægjandi raforkuöryggi.

Til að fylgja eftir vinnu framangreindra hópa setti ráðherra í upphafi árs 2023 á laggirnar verkefnahóp  sem falið var, með aðstoð erlends ráðgjafa, að útfæra tillögur um raforkueftirlit, flutningsfyrirtæki og markaðsaðila með breytingum á regluverki um bætt raforkuöryggi. Í kjölfarið var sett fram frumvarp um breytingu á raforkulögum með bættu öryggi almennings, skýrari hlutverk í stjórnsýslu og skilgreiningu á raforkuöryggisviðmiðum , auk þess sem unnið að hermilíkani, raforkuvísum og raforkuöryggisviðmiði og öðrum öryggisúrræða.

Vindorka

Fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar að sérlög verði sett um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera. Sumarið 2022 skipaði ráðherra starfshóp sem fékk það hlutverk að skoða og gera tillögur til ráðherra um nýtingu vindorku. Var starfshópnum m.a. falið að skoða lagaumhverfi vindorkuvera og hvernig verði tekið á ýmsum álitamálum. Starfshópurinn skilaði áfangaskýrslu í maí 2023 og eftir kynningu og samráð við almenning og helstu hagaðila lagði hópurinn fram tillögu að frumvarpi og stefnu um vindorku í árslok 2023.

Vindorka – valkostir og greining

Einnig er kveðið á um það í stjórnarsáttmála að stefna verði mörkuð um vindorkugarða á hafi. Starfshópur var skipaður í ágúst 2022  sem var falið að taka m.a. saman upplýsingar um fýsileika orkuvinnslu á hafi við Ísland, gróft mat á mögulegri afl- og orkuframleiðslugetu, sem og hagkvæmni orkuframleiðslu á hafi og mögulega þróun hennar. Starfshópurinn skilaði ráðherra tillögum sínum í apríl 2023. Skýrsluhöfundar telja ekki óvarlegt að áætla að hægt verði að finna um 500 til 2.000 ferkílómetra af haffleti í landgrunni Íslands fyrir botnfastar vindmyllur, sem geti orðið raunhæfur liður í orkuskiptum út frá hagkvæmnisjónarmiðum fyrir atvinnulíf og almenning, en þó ekki fyrr en eftir 2030.

Vindmyllur á hafi - skýrsla starfshóps

Aðrir orkukostir og orkunýtni

Í apríl 2023 skipaði ráðherra starfshóp til að kanna möguleika þess að nota fleiri leiðir til bættrar orkunýtingar og orkuöflunar. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum fyrri hluta árs 2024.

Flugeldsneyti

Í febrúar 2023 skipaði ráðherra starfshóp til að skoða og leggja fram tillögur að því hvaða leiðir séu færar til að hraða orkuskiptum í flugi, með notkun endurnýjanlegs eldsneytis fyrir millilandaflug. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum sínum á fyrri hluta árs 2024.

Starfsumhverfi orkufyrirtækja

Í nóvember 2023 skipaði ráherra starfshóp sem falið er að fjalla um starfsumgjörð fyrirtækja á orkumarkaði út frá samkeppnishæfni, orkunýtingu og orkuskiptum. Á starfshópurinn m.a. að skoða hvort og þá hvernig skerpa þurfi á hlutverki fyrirtækja sem starfa á raforkumarkaði m.a. með tilliti til samkeppnissjónarmiða, framleiðslu, dreifingar, flutnings og sölu. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili skýrslu sinni í haustbyrjun 2024.

Vindmyllur

Efling samfélags og orkuöryggis

Þá skipaði ráðherra starfshóp til að vinna tillögur um framgang mála í Vestmannaeyjum, sem heyra undir málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, með það að markmiði að efla samfélagið. Hópurinn skilaði tillögum sínum í október 2023 og er það mat hópsins eina leiðin til að tryggja öryggi raforkuflutninga og hringtengingu og ná 100% orkuskiptum í Vestmannaeyjum, líkt og áætlanir stjórnvalda gera ráð fyrir, sé að lagðir verði tveir nýir rafstrengir til Eyja.

Skýrsla starfshóps um eflingu samfélags í Vestmannaeyjum á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Í maí 2023 skipaði ráðherra síðan starfshóp sem falið var að vinna tillögur til ráðherra um verkefni á Langanesi, sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins, með það að markmiði að efla samfélagið. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skil ráðherra tillögum sínum á fyrri hluta árs 2024.

Í nóvember 2023 var skipaður starfshópur sem er falið það hlutverk að vinna tillögur til ráðherra um framgang þeirra mála í Dalabyggð, sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins, með það að markmiði að efla samfélagi og eiga  tillögur starfshópsins m.a. að snúa að jarðhitaleit, aukinni orkuöflun og flutningskerfi raforku. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum á árinu 2024.

Loks skilaði starfshópur sem ráðherra skipaði árið 2022, til að vinna tillögur um aðgerðir sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins og stuðlað geta að því að efla samfélagið á Vestfjörðum, skýrslu sinni.  Var það mat hópsins að tryggja þurfi fullnægjandi raforkuinnviði á Vestfjörðum til að mæta megi aukinni raforkuþörf og fasa þurfi út notkun jarðefnaeldsneytis til húshitunar á svæðinu fyrir árið 2030.

Skýrsla starfshóps um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Önnur verkefni

Staða hitaveitna

Ráðuneytið fékk Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) til að vinna úttekt á stöðu og framtíðarhorfum hitaveitna og nýtingu jarðhitavatns til húshitunar, m.a. vegna frétta um erfiða stöðu hjá mörgum hitaveitum.  Helstu niðurstöður úttektarinnar, sem kynnt var í maí 2023, eru að um 2/3 hlutar hitaveitna sjá fram á aukna eftirspurn á næstu árum og telja fyrirsjáanleg vandamál við að mæta henni.  

Hitaveitur á Íslandi  - Úttekt á stöðu hitaveitna og nýtingar jarðhitavatns til húshitunar

Leyfi til reksturs raforkumarkaðar

Þá voru fyrstu leyfin til reksturs raforkumarkaðar eða viðskiptavettvanga gefin út í desember 2023 og voru þau gefin út til fyrirtækjanna Elma orkuviðskipti ehf. og Vonarskarðs ehf. Markaður fyrir raforkuviðskipti er mikilvægur til að stuðla að aukinni samkeppni og gegnsæi verðmyndunar á raforkumarkaði, sem og tæki til þess að opna á aðkomu nýrra aðila á framleiðendahlið markaðarins.

Bætt orkunýtni

Í lok árs 2023 var gefin út fyrsta skýrslan um möguleika til bættrar orkunýtni hér á landi, en þar er að finna heilstæða greiningu á bættri orkunýtni. Markmiðið með skýrslunni er að að varpa ljósi á umfang tækifæra á Íslandi til bættrar orkunýtni og raforkusparnaðar og auka vitund um og skilning á orkunýtni. Í henni kemur fram að alls eru tækifæri til bættrar orkunýtni um 1.5 TWst á ári, eða sem nemur um 8% af núverandi raforkunotkun þjóðarinnar. Skýrslan er fyrsta heildstæða greining sinnar tegundar á bættri orkunýtni.

Engin orkusóun - Möguleikar á betri raforkunýtni á Íslandi

Íslenskt formennskuár í norrænu ráðherranefndinni um orkumál

Orkumálaráðherrar Norðurlandanna funduðu í Reykjavík í október 2023 til að ræða áskoranir og lausnir í orkumálum, en Ísland fór með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu. Í lok fundar gáfu ráðherrarnir út nýja yfirlýsingu um norrænt samstarf á sviði orkumála og áherslur  ráðherranefndarinnar í málaflokknum fram til ársins 2030. Eitt meginmarkmið samstarfsins er að Norðurlöndin verði sjálfbærasta svæði heims.

Úttekt á kerfi upprunaábyrgða

Í nóvember 2023 kom út úttekt á kerfi upprunaábyrgða á Íslandi. Lagt er til að ekki verði gerðar neinar breytingar á upprunaábyrgðarkerfinu hér á landi nema í samráði við EFTA löndin.  Fylgjast þarf þó vel með þeirri þróun sem var kynnt í RED II sem og RED III um upprunaábyrgðir á vetni, lífeldsneyti, hitun og kælingu. Mælst er til þess að lagalegt og efnahagslegt svigrúm verði skoðað til að koma til móts við hagmuni íslensks iðnaðar og tryggja að samkeppnishæfni hans verði tryggð til framtíðar með samkeppnishæfu orkuverði.

Fyrirkomulag upprunaábyrgða raforku á Íslandi

Orkusjóður

Jarðhitaleit

Í maí 2023 óskaði ráðherra eftir að Orkusjóður myndi sjá um framkvæmd átaks í leit og nýtingu jarðhita árin 2023-2025  þar sem áhersla væri lögð á stuðning við verkefni sem hefðu það að markmiði að hefja nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar. Um er að ræða fyrsta jarðhitaleitarátakið sem ráðist er í í 15 ár. Alls bárust 25 umsóknir, samtals að upphæð kr. 1.373 m.kr. og hlutu átta verkefni styrk að upphæð um 447 milljónir króna.

Styrkir vegna orkuskipta

Þá var rúmlega 900 milljónum króna veitt úr sjóðnum í 58 orkuskiptaverkefni. Framleiðsla endurnýjanlegs eldsneytis, innviðir fyrir orkuskipti og tækjabúnaður sem skiptir út jarðefnaeldsneyti voru meðal verkefna kynnt voru á opnum fundi sem haldinn var um haustið 2023 um verkefni sem hlutu styrki úr Orkusjóði.

Loks voru fyrstu styrkir Orkusjóðs sem sérstaklega eru ætlaðir þungaflutningum veittir á árinu 2023 og  voru um 400 m.kr. lagðar í þann flokk.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta