Hoppa yfir valmynd

Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2023

Árið í fréttum

Fjölmörg verkefni voru á borði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins á árinu 2022 sem tengjast stefnumörkun stjórnvalda, bæði reglubundnum verkefnum og ýmsum áhersluverkefnum. Hér á eftir er stutt yfirlit yfir framgang nokkurra þeirra verkefna sem voru ofarlega á baugi á árinu 2022.

 

Nýsköpun

Aukin áhersla hefur verið lögð á samstarf og stuðning umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins við nýsköpunarverkefni hvað varðar loftslagsmál, orkuskipti og hringrásarhagkerfið í samstarfi við fyrirtæki, opinber orkufyrirtæki og sveitarfélög. Ráðuneytið hefur einnig lagt upp með að nýsköpun, rannsóknir og þróun leiki lykilhlutverk við umskiptin yfir í hringrásarhagkerfi og endurspeglast þessar áherslur í skipuriti ráðuneytisins. Þær eru einnig í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem kveðið er á um að Ísland verði vagga nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar.

Suðurland: Í upphafi árs undirritaði ráðherra samstarfssamning við samtök sunnlenskra sveitarfélaga vegna viðskiptahraðalsins Sóknarfæri í nýsköpun, sem hefur það markmið að auka hvata til nýsköpunar á Suðurlandi, með sérstakri áherslu á hringrásarhagkerfið. Ráðuneytið gerðist einnig aðili að Orkídeu, samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og Landbúnaðarháskóla Íslands, en samstarfsverkefnið Orkídea hefur það að leiðarljósi að byggja upp orkutengd tækifæri í landshlutanum, m.a. við matvælaframleiðslu og líftækni. Þá gerðu ráðuneytið og Þekkingarsetrið Ölfus Cluster með sér samning um þróun grænnar atvinnuuppbyggingar í sveitarfélaginu Ölfusi, sem hefur það markmið að undirbúa græna atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu.

Austurland: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Austurbrú, Samband sveitarfélaga á Austurlandi og Landsvirkjun stofnuðu til samstarfsverkefnisins Eyglóar, sem hefur það meginmarkmið að efla nýsköpun og þróun á Austurlandi, með áherslu á að bæta nýtni hliðarstrauma og flétta þá inn í nýja verðmætasköpun. Þá gerðu ráðuneytið  og Samband sveitarfélaga á Austurlandi viðaukasamning við Sóknaráætlun Austurlands, sem hefur það markmið að styðja við nýsköpunarverkefni tengd hringrásarhagkerfinu með viðskiptahraðlinum „Austanátt“. Á Vopnafirði var svo undirritaður samningur milli ráðuneytisins, Vopnafjarðarhrepps og Brims hf. um að koma á fót matvælakjarna. Þar munu frumkvöðlar og smáframleiðendur hafa aðgang að aðstöðu til að framleiða og þróa vörur svo auk megi neyslu afurða úr nærsamfélaginu og auðvelda smáframleiðendum að þróa hugmyndir sínar til nýsköpunar og nýtingar hráefnis úr héraði.

Norðurland vestra: Viljayfirlýsing var undirrituð milli ráðuneytisins, Húnabyggðar, Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Borealis Data Center um samstarfsverkefni sem felur í sér að glatvarmi frá  gagnaveri Borealis Data Center í Húnabyggð verður nýttur í græna atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Vesturland: Undirrituð var samstarfsyfirlýsing við Reykhólahrepp um framkvæmd aðgerða til að stuðla að kolefnishlutleysi í Reykhólahreppi. Lögð verður áhersla á aðgerðir til að hraða orkuskiptum, nýtingu glatvarma, orkunýtingu og möguleika til aukinnar matvælaframleiðslu, kolefnisbindingar og nýtingar á lífrænum úrgangi.

Samstarf við atvinnulífið

Á árinu var unnið að undirbúningi að nýjum samstarfsverkefnum við atvinnulífinu meðal annars í tengslum við Loftslagsvegvísa atvinnulífsins og uppfærslu á aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem verður birt á árinu 2024.

Starfshópur sem ráðherra skipaði undangengið haust og fékk það hlutverk að koma með tillögur að því hvernig flýta megi innleiðingu hringrásarhagkerfis kynnti tillögur sínar „200 þúsund tonn af tækifærum“. Heitið vísaði til þess að starfshópurinn kortlagði um 200 þúsund tonn af úrgangi sem hafði verið urðaður árlega  en sem tækifæri eru til að breyta í verðmæti og draga með því úr sóun. Stofnun hringrásarklasa, vaxandi áhugi fyrir fjárfestingu í hringrásarverkefnum og skattalegar aðgerðir til að auðvelda endursölu nytjahluta eru meðal aðgerða og hugmynda sem fram komu í kynningu starfshópsins.

Í framhaldi af kynningu starfshópsins hafði ráðuneytið frumkvæði að stofnun hringrásarklasa í nánu samstarfi við félög, fyrirtæki og klasa. Hringrásarklasinn hefur það hlutverk að fylgja hringrásarverkefnunum eftir á forsendu klasahugmyndafræði, sem felur í sér að lögð er áhersla á að koma verkefnum í framkvæmd með samstarfi hagaðila. 

https://www.hringrasarklasinn.is/

Á árinu var unnið að sameiningu á Orkusjóði og Loftslagssjóði og er gert er ráð fyrir að frumvarp um nýjan Loftslags- og orkusjóð verði lagt fram á Alþingi á árinu 2024.

Þá gerði ráðuneytið 3ja ára samning sem bakhjarl Gulleggsins, en Gulleggið hefur fest sig í sessi sem ein vinsælasta frumkvöðlakeppni á Íslandi og veitt mörgum frumkvöðlum forskot og gott veganesti inn í nýsköpunarumhverfið á Íslandi.


Starfshópar

Alls voru 16 starfshópar, stýrihópar og samráðshópar að störfum á árinu, þar af voru 14 starfshópar. Þetta voru: 

Á árinu skiluðu 8 starfs- og stýrihópar ráðherra skýrslum sínum og tillögum.

Stofnanaskipulag

Þrettán stofnanir heyra í dag undir fagsvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, en árið 2022 hófst vinna við endurskoðun á stofnanaskipulagi ráðuneytisins og var á árinu unnið að því að fækka þeim niður í átta - Náttúruverndar- og minjastofnun, Náttúruvísindastofnun og Loftslagsstofnun. Gert er ráð fyrir að vinnunni ljúki árið 2024. Er sameiningunni ætlað að ná þeim markmiðum að:

  • Til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir  til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.
  • Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.
  • Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu
  • Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.
  • Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni. 
  • Tryggja aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.

Skipuritsbreytingar

Nýtt skipuriti ráðuneytisins sem tók gildi um áramót og er því ætlað er að efla starfsemi ráðuneytisins, styðja við áherslumál stjórnvalda og gera ráðuneytinu betur kleift að takast á við viðamikið hlutverk sitt m.a. á sviði loftslagsmála. 

Í nýju skipuriti er lögð áhersla á að efla heildarsýn á starfsemi ráðuneytisins og auka samhæfingu og samvinnu þvert á skrifstofur. Skipuritinu er ætlað að styðja vel við kjarnastarfsemi ráðuneytisins og þær áherslur og markmið sem eru í stjórnarsáttmála og fjármálaáætlun hverju sinni.  

Skrifstofur ráðuneytisins eru:  

  • Skrifstofa ráðuneytisstjóra 
  • Skrifstofa stefnumótunar og innleiðingar
  • Skrifstofa framkvæmda og eftirfylgni
  • Skrifstofa fjármála og innri þjónustu 
  • Skrifstofa alþjóðamála 

Ótímabundin teymi starfa innan ráðuneytisins og taka þau mið af áherslum verkefna á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála. 

Framvinda í kynja- og jafnréttismálum

Á undanförnum árum hefur tengingin á milli jafnréttismála og umhverfismála orðið sífellt skýrari og á sú þróun meðal annars rætur að rekja til vinnu við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, velsældarmælikvarða íslenskra stjórnvalda og hugmyndinni um réttlát umskipti. Mikilvægi þess að taka tillit til kynjasjónarmiða við stefnumótun á sviði umhverfismála birtist ef til vill skýrast í samhengi loftslagsmála en ljóst er að baráttan við loftslagsvána gæti lagst misþungt á herðar ólíkra hópa fólks ef ekki er vel að gætt. Ráðuneytið hefur lagt áherslu á jafnrétti og jöfnuð í tengslum við loftslagsbreytingar, bæði á alþjóðlegum vettvangi og innlendum. Gott dæmi um þessa áherslu er aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem grundvallast á hugmyndinni um réttlát umskipti og miða skilgreindar aðgerðir að því að auka jafnrétti og jöfnuð samhliða því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í framhaldi af verkefni ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar um kyn og neyslu í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í kynjajafnréttismálum var frekari gagna aflað um endurvinnslu og viðhorf og verkaskiptingu á heimilum. Gagnasöfnunin sneri að því að afla upplýsinga um flokkun úrgangs og umhverfisvæna neysluhætti á heimilum og hvernig stuðla megi að jafnri þátttöku og ábyrgð kynjanna á endurvinnslu og úrgangsforvörnum innan heimilisins til framtíðar. Niðurstöður verkefnisins munu m.a. koma til með að nýtast áfram við samþættingu kynjasjónarmiða við úrgangsforvarnir og innleiðingu hringrásarhagkerfisins.

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta