Áhersluverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins
Loftslagsmál
Helsta stefnuáhersla ráðuneytisins er:
- Ná 55% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 og kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040
- Uppfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum
- Efla viðnámsþrótt samfélags og lífríkis frammi fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.
Baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum er það viðfangsefni sem ber hvað hæst í umhverfismálum. Helstu orsaka loftslagsbreytinga er að leita í aukningu gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar. Aðgerðir í loftslagsmálum snúast annars vegar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu koltvísýrings og með því hafa áhrif á uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Hins vegar snúast aðgerðir um að búa sig undir þær breytingar sem þegar hafa orðið og eru fyrirsjáanlegar með því að efla viðnámsþrótt samfélags og lífríkis með aðlögun að loftslagsbreytingum.
Aðgerðaáætlun og gerð aðlögunaráætlunar
Samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum voru aðgerðir í gildandi áætlun loftslagsmála taldar ná allt að 35% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda miðað við losun ársins 2005. Til viðbótar voru aðgerðir í mótun taldar geta skilað 5-11% samdrætti til viðbótar. Ljóst er að meira þarf til að ná uppfærðu loftslagsmarkmiði um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
Á árinu var unnið var að undirbúningi að uppfærðri aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum til að tryggja að hún endurspegli skuldbindingar og loftslagsmarkmið Íslands. Stefnt er að útgáfu hennar árið 2023. Í samræmi við stjórnarsáttmála hefur verið unnið að því að setja áfangaskipt losunarmarkmið í samvinnu við atvinnulíf og sveitarfélög. Til að uppfylla það markmið var á árinu unnið að undirbúningi Loftslagsvegvísa atvinnulífsins í samvinnu við atvinnugreinafélög. Vegvísarnir innihalda mælanleg markmið að því marki sem unnt er og aðgerðir og úrbótatillögur sem stuðla að samdrætti í losun. Ofangreind vinna mun nýtast við uppfærslu á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
Uppfærð aðgerðaáætlun mun byggja á þeim aðgerðum sem þegar er að finna í núverandi aðgerðaáætlun, en til viðbótar verður meðal annars unnið út frá tillögum sem komið hafa fram í samtalið við atvinnulífið og sveitarfélög, o.fl. um gerð loftslagsvísa atvinnulífsins sem kynntir verða í júní 2023. Þá verður einnig horft sérstaklega til samtenginga við aðrar áætlanir ráðuneytis svo sem áætlanir tengdar hringrásarhagkerfi og verkefna tengdum orkuskiptum.
Brýnt er að hafa góðar og aðgengilegar upplýsingar um loftslagsmál bæði með tilliti til aðgerða til samdráttar í gróðurhúsalofttegundum og kolefnisbindingar, sem og aðlögunaraðgerða vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Losunartölur og spár um þróun losunar, bindingar og orkuþarfar til orkuskipta eiga að vera skýrt fram settar þannig að staða gagnvart markmiðum Íslands sé aðgengileg og augljós.
Undirbúningur hófst að gerð mælaborðs umhverfis-, orku- og loftslagsmála sem skiptir miklu máli fyrir mat á framvindu og árangri á sviði umhverfismála.
Í samræmi við loftslagsskuldbindingar Íslands var unnið að greiningu og undirbúningi innleiðingar á uppfærðri löggjöf ESB á sviði loftslagsmála vegna herts loftslagsmarkmiðs ESB til 2030 (Fit for 55) þvert á stjórnarráðið og stofnanir. Áhersla var á að meta möguleg áhrif löggjafarinnar á Ísland og hagsmuni Íslands.
Einnig var unnið að gerð Landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum, uppfærslu regluverks vegna hertra losunarmarkmiða og aðgerðum til að bæta gögn og upplýsingar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis vegna landnotkunar
Fleiri áætlanir á sviði loftslagsmála sem unnið er að:
- Umbótaáætlun vegna landnotkunar 2020-2023. Unnið er að uppfærslu í samræmi við uppfærðar kröfur um gæði gagna í losunarbókhaldi Íslands um mat á losun og bindingu vegna landnotkunar.
- Stefna um aðlögun að loftslagsbreytingum: „Í ljósi loftslagsvár“. Unnið er að gerð landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum.
- Áætlun um verndun votlendis þar sem horft er til að bæta ferla til að auka áherslu á verndun votlendis, tækifæri til endurheimtar, öflun og miðlun upplýsinga um stöðu verndunar og endurheimtar votlendis.
Starfshópar
Ýmsir starfshópar voru að störfum á árinu.
Stýrihópur um aðlögun að loftslagsbreytingum tók til starfa og var ráðgefandi við viðamikið samráðsferli við hagaðila sem hófst á árinu og lýkur vorið 2023. Hópurinn hefur það hlutverk að vinna tillögu til ráðherra að efnisþáttum og skipulagi fyrir gerð landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum sem skila á haustið 2023.
Skipuð var til eins árs stjórn samráðsvettvangs um þekkingarsköpun vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Í stjórninni sitja fulltrúar rannsóknarstofnana og rannsóknaraðila undir formennsku Veðurstofu Íslands og er þeim falið að skilgreina starf vettvangsins sem verði starfræktur af Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands.
Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands hélt áfram á þróast á fyrsta fulla starfsári sínu og bætti við sig starfsfólki. Einnig var unnið að undirbúningi norrænnar ráðstefnu um aðlögun á loftslagsbreytingum sem halda á vorið 2023.
Loftslagssjóður
Á árinu var úthlutað í þriðja sinn úr Loftslagssjóði. Hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Styrkupphæð nam rúmum 88 milljónum kr., og var úthlutað til 12 verkefna, sex nýsköpunarverkefna og sex kynningar- og fræðsluverkefna. Alls var sótt um 640 m.kr. í 85 gildum umsóknum.
Nánari upplýsingar um Loftslagssjóð má finna á vef Rannís, sem fer með umsýslu sjóðsins.
Ársskýrsla ráðherra 2022
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.