Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2022
Árið í fréttum
Fjölmörg verkefni voru á borði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins á árinu 2022 sem tengjast stefnumörkun stjórnvalda, bæði reglubundnum verkefnum og ýmsum áhersluverkefnum. Hér á eftir er stutt yfirlit yfir framgang nokkurra þeirra verkefna sem voru ofarlega á baugi á árinu 2022.
Nýsköpun
Aukin áhersla hefur verið lögð á samstarf og stuðning umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins við nýsköpunarverkefni í tengslum við sóknaráætlanir sveitarfélaga, þar sem áhersla er lögð á loftslagsmál og hringrásarhagkerfið. Þá hefur ráðuneytið einnig lagt upp með að nýsköpun, rannsóknir og þróun leiki lykilhlutverk við umskiptin yfir í hringrásarhagkerfi.
Þær breytingar sem gerðar voru á skipuriti ráðuneytisins um áramót endurspegla þessar áherslur og eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem kveðið er á um að Ísland verði vagga nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra undirritaði á árinu 2022 samning við Icelandic Startups um stuðning við hringrásarhraðalinn Hringiðu. Viðskiptahraðall með áherslu á hringrásarhagkerfi getur dregið fram, eflt og stutt nýja tækni og aðferðir sem leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfismálum. Er hraðlinum ætlað að gera þátttakendur í stakk búna að kynna verkefni sín fyrir fjárfestum og leggja fram vandaðar umsóknir um styrki í Evrópusjóði.
Á árinu undirritaði ráðherra einnig samstarfssamning við Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Eim um sameiginlega nýsköpun á Norðurlandi, með áherslu á loftslagsmál og hringrásarhagkerfið, í gegnum verkefnið Norðanátt. Það er nýsköpunarhreyfing sem miðar að því að skapa kraftmikið umhverfi á Norðurlandi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki og vinnur þvert á helstu stofnanir samfélagsins.
Einnig var gert samkomulag um aðkomu ráðuneytisins að Bláma, sem er samstarfsverkefni með Landsvirkjun, Orkubúi Vestfjarða og Vestfjarðastofu. Meginmarkmið Bláma er að styðja við og efla nýsköpun og þróun orkuskiptaverkefna með því að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði.
Þá gerðist ráðuneytið aðili að Orkídeu, sem er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og Landbúnaðarháskóla Íslands. Verkefnið Orkídea nær yfir Suðurland og hefur það að leiðarljósi að byggja upp orkutengd tækifæri í landshlutanum, til dæmis við matvælaframleiðslu og líftækni.
Loks skipaði ráðherra stýrihópinn Græna dregilinn, sem ætlað er að efla stuðning við aðila sem sýna áhuga á að ráðast í loftslagstengd græn nýfjárfestingarverkefni á Íslandi. Markmið Græna dregilsins er að framfylgja stefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs t.a.m. á sviði útflutnings, erlendrar fjárfestingar, nýsköpunar, orkumála, loftslagsmála og sjálfbærni. Jafnframt því að fjölga störfum með áherslu á græna nýsköpun, aukna framleiðni og virkjun hugvits til þess að stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda, hringrásarhagkerfi og kolefnishlutleysi.
Starfshópar
Alls voru 14 starfshópar, stýrihópar og samráðshópar að störfum á árinu, þar af 9 voru starfshópar og má þar á meðal nefna:
- Starfshóp um gerð grænbókar um stöðu og áskoranir í orkumálum
- Starfshóp um málefni vindorku
- Starfshóp um vindorkuver á hafi í lögsögu Íslands
- Starfshóp um innleiðingu hringrásarhagkerfis
- Starfshóp um þjóðgarða og friðlýst svæði
- Græna dregilinn, Stýrihóp um eflingu umhverfis- og loftslagsvænna nýfjárfestinga
- Stýrihóp vegna landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum
Skipuritsbreytingar
Í lok árs 2022 voru kynntar breytingar á skipuriti ráðuneytisins sem tóku gildi um áramót og er þeim ætlað er að efla starfsemi ráðuneytisins, styðja við áherslumál stjórnvalda og gera ráðuneytinu betur kleift að takast á við viðamikið hlutverk sitt m.a. á sviði loftslagsmála.
Í nýju skipuriti er lögð áhersla á að efla heildarsýn á starfsemi ráðuneytisins og auka samhæfingu og samvinnu þvert á skrifstofur. Skipuritinu er ætlað að styðja vel við kjarnastarfsemi ráðuneytisins og þær áherslur og markmið sem eru í stjórnarsáttmála og fjármálaáætlun hverju sinni.
Skrifstofur ráðuneytisins eru:
- Skrifstofa yfirstjórnar
- Skrifstofa stefnumótunar og innleiðingar
- Skrifstofa eftirfylgni og fjármála
Ótímabundin teymi starfa innan ráðuneytisins og taka þau mið af áherslum verkefna á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála.
Stofnanaskipulag
Þrettán stofnanir heyra í dag undir fagsvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, en árið 2022 hófst vinna við endurskoðun á stofnanaskipulagi ráðuneytisins og er nú unnið að því að fækka þeim niður í þrjár - Náttúruverndar- og minjastofnun, Náttúruvísindastofnun og Loftslagsstofnun. Er sameiningunni ætlað að ná þeim markmiðum að:
- Til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.
- Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.
- Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu
- Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.
- Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni.
- Tryggja aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.
Framvinda í kynja- og jafnréttismálum
Þróun síðastliðinna ára og vinna í kringum jafnréttismál, Heimsmarkmiðin og velsældarmælikvarðana hefur dregið fram tengingu milli umhverfismál og jafnréttismála og mikilvægi þess að horfa á jafnrétti . Þessi áhersla birtist meðal annars í loftslagsmálum og var meðal annars viðfangsefni í Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem kom út í júní 2020. Aðgerðaáætlunin leggur áherslu á réttlát umskipti og mikilvægi þess að aðgerðir í loftslagsmálum miði samhliða að auknu jafnrétti og jöfnuði og verði ekki til þess að auka á misrétti.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Umhverfisstofnun unnu í framhaldi verkefnis í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum um kyn og neyslu verkefni um endurvinnslu og verkaskiptingu á heimilum. Verkefnið sneri að því að afla frekari gagna um viðhorf og verkaskiptingu á heimilum þegar kemur að flokkun úrgangs og umhverfisvænni neysluháttum á heimilum og hvernig stuðla megi að jafnri þátttöku og ábyrgð kynjanna á endurvinnslu og úrgangsforvörnum innan heimilisins til framtíðar. Niðurstöður verkefnisins munu m.a. nýtast við innleiðingu laga nr. 103/2021 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga um meðhöndlun úrgangs og laga um úrvinnslugjald sem hafa í för með sér bann við urðun lífræns úrgangs.
Ársskýrsla ráðherra 2022
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.