Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á viðburði Samtaka iðnaðarins þar sem ári grænnar iðnbyltingar var ýtt úr vör

Góðir gestir,

Það er vel til fundið hjá Samtökum iðnaðarins að tileinka árið 2022 grænni iðnbyltingu og að vekja með því athygli á mikilvægi grænna umskipta. Íslenskur iðnaður og atvinnulífið í heild hefur sýnt það í verki að hugur fylgir máli þegar kemur að grænkun samfélagsins enda eru fjölmörg iðnfyrirtæki að skapa lausnir sem stuðla að minni losun kolefnis og bættri nýtingu auðlinda. Metnaður iðnaðarins í þessum málum birtist til að mynda í því að þau álver sem starfa hér á landi hafa öll sett sér markmið um kolefnishlutleysi.

Græn umskipti eru nauðsynleg forsenda sjálfbærrar þróunar og snúa að breytingum í iðnaði, nýsköpun, tækniþróun, grænum lausnum og orkuskiptum. Segja má að markmiðin séu komin fram og tími aðgerða runninn upp. Áskoranirnar eru margar en tækifærin sem breytingarnar fela í sér eru enn fleiri.

Ríkisstjórnin hefur sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og er lögð mikil áhersla á orkuskipti í samgöngum. Sett hefur verið fram sérstök aðgerðaráætlun í orkuskiptum þar sem fram kemur að stefnt er að því að auka hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldneytis í samgöngum á landi í 40% árið 2030. Til að ná þessu marki er nauðsynlegt að tryggja gott samstarf hins opinbera, fyrirtækja og almennings í landinu

Ég mun leggja mig allan fram um að markmið ríkisstjórnarinnar náist en maður gerir ekkert einn – atvinnulífið mun leiða þessa baráttu. Stjórnvöld þurfa að setja fram umgjörð sem hvetur til nýsköpunar og fjárfestinga í þágu loftslagsmála en atvinnulífið finnur lausnirnar sem virka.

Fyrir um 50 árum skall á olíukreppa og heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði um 70% á stuttum tíma. Við Íslendingar vorum á þeim tíma nærri hálfnuð með það verkefni að hita heimili landsins með jarðhita. Orkustefna var mótuð þar sem lögð var áhersla á að draga úr innflutningi olíu en auka í staðinn hlutdeild innlendra orkugjafa, vatnsafls og jarðvarma. Við það fór af stað átak í jarðhitaleit og nýjar hitaveitur voru byggðar víða um land. Sú ákvörðun að ráðast í hitaveituvæðinguna á sínum tíma hefur fært þjóðinni ábata sem við búum að enn í dag. Sá þjóðhagslegi ábati er bæði efnahagslegur, umhverfislegur og samfélagslegur.

Íslendingar eru í einstakri stöðu til að skipta út innfluttu jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda, hagkvæma og hreina orkugjafa á flestum sviðum samfélagsins en svara þarf þeirri spurningu hvaðan orkan sem þarf til þriðju orkuskiptanna eigi að koma. Reynsla okkar Íslendinga af orkuskiptum kennir okkur að þau eru bæði þjóðhagslega og umhverfislega hagkvæm. Sagan kennir okkur einnig að kreppur leiða af sér ný tækifæri. Líkt og olíukreppan fyrir 50 árum leiddi af sér stórkostlegar breytingar á okkar samfélagi munu þær áskoranir sem blasa nú við okkur vegna loftslagsvárinnar leiða af sér nýjar lausnir sem munu breyta samfélaginu okkar til hins betra.

Fram undan er þjóðarátak og uppbyggingarstarf sem felur í sér mörg tækifæri til nýsköpunar sem tengjast endurnýjanlegum orkugjöfum. Nefna má framleiðslu rafeldsneytis frá glatvarma, framleiðsla metanóls og vetnis frá afurðum jarðvarmavirkjana sem dæmi um græn verkefni framtíðarinnar. Grænar tæknilausnir munu skapa ný atvinnutækifæri og styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Carbfix er lifandi dæmi um slíka lausn sem byggir á hugviti, grænni orku og lausnamiðaðri nálgun á eitt stærsta verkefni samtímans.

Mikilvægt er að stjórnvöld styðji við þá aðila sem standa í framlínunni í glímunni við að finna lausnir til að leysa loftslagsvandann. Stóra verkefnið er að virkja stærstu auðlindina sem við Íslendingar eigum; hugvitið. Tækniframfarir, nýsköpun og skapandi hugsun fela í sér tækifæri sem munu leiða af sér breyttan og betri heim.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á Grænvang, samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs um orkuþekkingu og grænar lausnir, en Samtök iðnaðarins áttu frumkvæði að stofnun þess vettvangs sem er mikilvægur liður í því að við náum því samtali sem er nauðsynlegt á þessu sviði.

Við stjórnmálamenn höfum verið gagnrýndir fyrir að við viðburði sem þennan séum við alltaf að segja sömu söguna. Söguna um hluti sem voru gerðir á síðustu öld – um rafmagn og hitaveitu sem breyttu lífsgæðum Íslendinga um alla framtíð. Þessi ræða mín er einmitt slík ræða. En nú erum við í óðaönn við að skrifa næsta kafla í framhaldssögunni. Sögunni um það hvernig við nýtum hugvitið til að skapa lausnir sem breyta framtíðinni. Þær lausnir byggja á þeim trausta grunni sem við búum að vegna ákvarðana sem voru teknar á síðustu öld og vegna framtaks einstaklinga og atvinnulífs þess tíma. Við skulum skrifa söguna saman með verkum okkar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta