Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á kynningarfundi Rannís um áskoranir samtímans, leiðangrar Evrópusambandsins

Honourable Ambassador Samcová - Hall Allen, góðir gestir,

Það er alltaf gaman að leggja af stað í leiðangur og enn betra að hefja marga leiðangra. Ekki síst þegar þeir eru jafn verðugir og spennandi og þeir sem eru hér kynntir í dag.

Ísland hefur lengi tekið þátt í evrópskri samvinnu á sviði vísindarannsókna. Reynslan af því er góð. Þar kemur margt til. Almennt gagnast fjölþjóðlegt samstarf rannsóknum vel, ekki bara okkur Íslendingum heldur öllum; viðfangsefnin eru oftast þess eðlis og fjölbreytt þekking og innsæi er af hinu góða. Ísland býður síðan upp á margvísleg rannsóknaviðföng sem ekki bjóðast víða annars staðar. Það á ekki síst við um okkar sérstæðu náttúru: Hér er einhver mesta eldvirkni sem þekkist og greiður aðgangur að því að skoða sköpunarkrafta náttúrunnar. Mannfólkið er líka hnýsilegt fyrir vísindin – góð gögn um ættir og heilsufar hafa opnað dyr þekkingar á tengslum erfða og heilsu.

Síðast en ekki síst er hér mikill mannauður. Hér starfa vísindamenn sem eru framarlega á sínu sviði, þótt íslensk þjóð sé fámenn á evrópskan mælikvarða og hér starfa knáar stofnanir og háskólar, sem ná að valda ábyrgðarmiklu hlutverki þrátt fyrir smæð. Hér starfar fólk sem hefur sótt menntun víða og er opið fyrir nýjungum og samstarfi. Við erum eyþjóð, en viljum ekki og þurfum ekki að vera afskekkt í samfélagi þjóðanna, sem býður upp á spennandi tækni og tengingar.

Ísland hefur verið fullgildur þátttakandi í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins á sviði rannsókna og þróunar frá því að EES-samningurinn tók gildi fyrir um 27 árum. Ég ætla ekki að fara ofan í saumana á því fjölbreytta starfi sem þar fer fram, en vil fullyrða að það hafi gagnast íslensku vísindasamfélagi og íslenskri þjóð og einnig auðgað evrópskt rannsóknastarf, því við höfum upp á margt að bjóða eins og ég nefndi hér. Ég vil þó minnast á að Ísland tekur nú í fyrsta skipti þátt í LIFE-áætlun ESB sem fjármagnar verkefni á sviði loftslags- og umhverfismála. Ég er sannfærður um að fjölmörg tækifæri felast í þátttöku í LIFE-áætluninni á næstu árum.

Nú er markið sett hærra en oft áður og rætt um leiðangra í nafni vísindanna, sem eiga að leita lausna á mörgum stærstu áskorunum samtímans. Þetta er kynnt sem nýnæmi, þar sem ekki er einungis um rannsóknaáætlanir að ræða, heldur samþættingu rannsókna við nýsköpun, þátttöku borgara og aðkomu stjórnvalda og fjármagns. Ég kann ekki nánar að segja frá þessu, enda er ég hingað kominn til að læra og biðja aðra að leggja við hlustir og taka þátt.

En það er ljóst að viðfangsefnin í þessum leiðöngrum eru flest með einum eða öðrum hætti á vettvangi umhverfisverndar og á verksviði míns ráðuneytis. Þessi viðfangsefni eru líka í stafni hjá nýrri ríkisstjórn sem ýtti úr vör í lok síðasta árs með nýtt umboð og nýja sýn á verkefni næstu ára.

Um loftslagsbreytingar af mannavöldum þarf ekki að hafa mörg orð. Það er eitt brýnasta viðfangsefni samtímans að koma böndum á losun, svo við völdum ekki óafturkræfum breytingum á veðrakerfum og lífríki jarðar og lífsskilyrðum mannkyns. En við þurfum líka að aðlagast þeim breytingum sem munu óhjákvæmilega verða, eins þótt okkur takist að halda hlýnun innan marka Parísarsamingsins. Í ráðuneyti umhverfis, orku og loftslags er unnið að áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum á Íslandi. Við höfum margt fram að færa þar. Við viljum leggja af stað í leiðangur til að mæta áskorunum vegna loftslagsbreytinga.

Hafið umhverfis Ísland telst hreint miðað við stöðu mála á hafsvæðum sem liggja nær þéttbýlum ströndum Evrópu. Þetta staðfestir meðal annars nýleg skýrsla á vegum ráðuneytisins. Þar er þó varað við að blikur séu á lofti varðandi plastmengun og súrnun hafsins og aðra þróun sem tengist loftslagsbreytingum. Ísland vill halda áfram að ástunda ábyrga nýtingu á fiskistofnum og öðrum gæðum hafsins og viðhalda hreinleika þess og bæta úr því sem þarf. Við viljum leggja af stað í slíkan leiðangur.

Jarðvegur er auðlind sem oft vill gleymast, en moldin er helsta undirstaða fæðuframboðs í heiminum. Ísland er það land í Evrópu sem tapað hefur mestri mold, vegna óblíðra náttúruafla og ósjálfbærrar landnýtingar. Við höfum mikla reynslu og merka sögu af endurheimt landgæða. Sú reynsla hefur öðlast nýja merkingu nú þegar brýnt er að draga úr losun og ná kolefni úr andrúmslofti, sem er meðal annars hægt með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Þarna er leiðangur sem við höfum verið lengi í og viljum gjarnan taka höndum saman við nágrannaþjóðir okkar.

Við viljum kolefnishlutlausar og snjallar borgir – og raunar sveitir líka. Ísland á að verða kolefnishlutlaust fyrir 2040 og til þess að ná því markmiði þurfum við loftslagsvæna tækni og nýsköpun. Hér á Íslandi er unnið merkilegt starf á mörgum sviðum. Carbfix-verkefnið hefur hlotið mikla og verðskuldaða athygli um allan heim, en þar er gasi breytt í grjót. En lausnirnar liggja víða og við viljum styðja enn betur við grósku í grænni tækni, ekki síst í orkumálum en einnig á öðrum sviðum. Í slíkan leiðangur á Ísland tvímælalaust mikið erindi.

Ég vil ítreka að hér er óskað eftir þátttöku fleiri en hefðbundinna rannsóknastofnana og skóla. Ég vil eindregið hvetja fyrirtæki, stofnanir, háskóla, einstaklinga og aðra að gefa þessum leiðöngrum gaum og leggja þeim lið.

***
Madam Ambassador, I will not repeat in English everything what I just said here. [You can run a transcript of my address through Google Translate and get the meaning, although some of the finer points tend to get lost in translation. You just have to take my word for it that it was a very good speech!] But I can sum it up in a few words. Iceland has a lot to offer in the five EU Missions you have announced. This is not least true in the fields of climate adaptation and clean energy, healthy oceans and soil conservation and restoration. We are interested. Tell us more. Count us in.

Thank you. Takk fyrir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta