Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á málþingi Landverndar og SUNN um rammaáætlun
Rammaáætlun sem hér er til umræðu er mikilvægasta stjórntækið sem stjórnvöld hafa til leiðbeiningar við ákvarðanatöku um mikla hagsmuni og málefni sem hafa valdið miklum átökum í samfélagi okkar. Það er mikilvægt að tapa ekki sjónum af því að rammaáætlun er ætlað að leggja stóru línurnar fyrir áform stjórnvalda um vernd og nýtingu virkjunarkosta. Hún á þannig að gefa ákveðna heildarmynd en henni er ekki ætlað að fara í of ítarlegar greiningar á smærri atriðum.
Ég mælti nú í febrúar fyrir tillögu til þingsályktunar um svo kallaðan 3. áfanga rammaáætlunar, sem er lögð fram óbreytt í fjórða sinn, fyrir utan þau svæði sem hafa verið friðlýst á grundvelli gildandi áætlunar. Ég vona að þingið nái að fjalla efnislega um tillöguna og afgreiða hana í vor.
Ég lít á verkefni mitt nú að finna jafnvægi á milli grænnar og loftslagsvænnar orkuframleiðslu annars vegar og verndar náttúru Íslands hins vegar. Jafnvægi á milli efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra þátta, samanber skilgreiningu sjálfbærrar þróunar. Þetta er hugmyndin með verndar- og orkunýtingaráætlun. Náttúra landsins okkar er þess eðlis að hún gefur okkur færi á að nýta hana til framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Náttúra Íslands er líka sérstæð og það skapar samfélagi okkar tekjur m.a. í gegnum ferðaþjónustu. Græn og hrein ímynd landsins og orkunnar gerir það reyndar líka við markaðssetningu íslenskrar vöru og þjónustu. Svo hefur náttúran gildi í sjálfu sér og það þekkjum við sem verjum tíma í náttúrunni og njótum þar útivistar og oft einveru sem er erfitt að meta til fjár.
Rammaáætlun getur veitt okkur leiðsögn um forgangsröðun og á hvaða svæðum ætti alls ekki að vinna að orkuöflun, byggt á mati sérfræðinga á náttúruverndargildi þeirra svæða sem eru til umfjöllunar og mati á mögulegum áhrifum á aðra nýtingu s.s. ferðaþjónustu. Eðlilegt er að þingið taki mið af þessu mati. Öflun orku getur haft veruleg og óafturkræf áhrif á náttúru landsins og okkur ber að stíga varlega til jarðar og byggja á bestu fáanlegu upplýsingum á hverjum tíma.
Ég legg mikla áherslu á það að við verðum að horfa á hlutina í samhengi. Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, sem setur á okkur kröfu um að við eigum tiltæka orku til orkuskipta, að við nýtum orkuna vel og skilgreinum vel forgangsröðun við ráðstöfun á orku.
Þetta verðum við að hafa í huga ef við ætlum okkur að uppfylla þau metnaðarfullu markmið sem stjórnvöld hafa sett sér í loftslagsmálum. Við þurfum að stíga skref á þeirri vegferð. Þau þurfa að vera vel yfirveguð en við getum ekki frestað því út í hið óendanlega að taka ákvarðanir.
Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er lögð mikil áhersla á orkuskipti í samgöngum. Sett hefur verið fram sérstök aðgerðaráætlun í orksuskiptum þar sem fram kemur að stefnt er að því að auka hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldneytis í samgöngum á landi í 40% árið 2030.
Rafvæðing samgöngukerfisins verða þriðju umfangsmiklu orkuskiptin sem Íslendingar ganga í gegnum. Áður höfum við gengið í gegnum fyrstu orkuskiptin sem fólust í rafvæðingu húsa, heimila og atvinnustarfsemi með hagnýtingu vatnsaflsins og síðar gegnum við í gegn um önnur orkuskiptin þegar jarðhiti leysti kol, olíu og aðra kolefnisbundna orkugjafa af við húshitun.
Efnahagslegur ávinningur Íslands af nýtingu jarðhita í stað olíu til húshitunar árið 2018 var 91,5 milljarðar eða 3,5% af landsframleiðslu, samkvæmt tölum Orkustofnunar.
Umhverfislegur ávinningu af notkun endurnýjanlegra orkugjafa til húshitunar og til framleiðslu rafmagns er m.a. sá að við komumst hjá því að losa um 20 milljónir tonna af CO2 miðað við að nota jarðefnaeldsneyti. Til samanburðar þurfum við að minnka útblástur um 1 milljón tonna CO2 fyrir árið 2030 til að ná markmiðum Parísarsamningsins. Í þessu samhengi má einnig benda á að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2017 nam tæplega 4,8 milljónum tonna CO2 ígilda samkvæmt losunarbókhaldi Íslands 2019.
Íslendingar eru í einstakri stöðu til að skipta út innfluttu jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda, hagkvæma og hreina orkugjafa á flestum sviðum samfélagsins en svara þarf þeirri spurningu hvaðan orkan sem þarf til þriðju orkuskiptanna eigi að koma. Reynsla okkar Íslendinga af orkuskiptum kennir okkur að þau eru bæði þjóðhagslega og umhverfislega hagkvæm. Sagan kennir okkur einnig að kreppur leiða af sér ný tækifæri. Líkt og olíukreppan fyrir 50 árum leiddi af sér stórkostlegar breytingar á okkar samfélagi munu þær áskoranir sem blasa nú við okkur vegna loftslagsvárinnar leiða af sér nýjar lausnir sem munu breyta samfélaginu okkar til hins betra. Þekkingu á nýjum möguleikum til orkuöflunar hefur fleygt fram og ný tækni hefur litið dagsins ljós frá því að vinna við 3. áfanga rammaáætlunar var hafin árið 2013. Vindorka var t.d. ekki áberandi valkostur þegar rætt var um orkuöflun fyrir 9 árum síðan. Nú er sú staða gerbreytt varðandi þekkingu, tækni og hagkvæmni slíkra valkosta. En vindorka hefur líka ýmis umhverfisáhrif í för með sér sem skoða þarf sérstaklega. Leggja þarf mat á áhrif á lífríki, hvaða áhrif slíkir kostir hafa á ferðaþjónustu og hvernig allur almenningur á Íslandi á að njóta þess ávinnings sem þær lausnir bjóða upp á. Almenningur ætti að njóta góðs af því að við búum í grænu landi. Við eigum að hafa skýra stefnu um það hvernig borgað er fyrir nýtingu þeirrar auðlindar sem vindurinn er.
Ég tel að rammaáætlun sé mjög mikilvægt stjórntæki sem hjálpi okkur í þeirri vegferð sem framundan er í orkuskiptum. Hún segir fyrir um með hvaða hætti við eigum að leggja mat á orkunýtinarkosti og hvaða þætti þarf að hafa í huga, við það mat. Þetta er lýðræðislegt stjórntæki og það er Alþingi sem tekur ákvörðun um afgreiðslu áætlunarinnar að lokum. Við viljum vitanlega nýta orkuauðlindir okkar eins vel og mögulegt er og af nærgætni. Við viljum líka gæta að okkar einstöku náttúru, að geta notið óbyggðra víðerna sem eru orðin vandfundin á heimsvísu, kyrrðar og einveru. Það er ómetanlegt. Þetta er mikilvægt að draga fram í mati á áhrifum orkunýtingarkosta. Einnig er líka mikilvægt að hafa upplýsingar um áhrif orkunýtingarkosta á ferðaþjónustu en þá erum við líka að bera saman tvö form auðlindanýtingar, sem stundum fara saman og stundum ekki.
Ég hef mikla trú á því að Alþingi muni axla þá ábyrgð sem þeim er falin varðandi afgreiðslu rammáætlunar og er fullviss að rammaáætlun muni reynast okkur vel sem stjórntæki. Stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir endurskoðun laganna um rammaáætlun. Ég mun setja þá vinnu í gang og leita eftir sjónarmiðum um reynslu af framkvæmd laganna, og þar mun ég m.a. að heyra sjónarmið ykkar samtaka. Til að sú vinna verði markviss er mikilvægt að Alþingi ljúki afgreiðslu 3. áfanga rammaáætlunar.