Hoppa yfir valmynd
03. maí 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á Loftslagsdeginum 2022

Kæru gestir á Loftslagsdegi,

Fyrir helgina birti Umhverfisstofnun mér niðurstöður loftslagsbókhalds um stöðu losunar á Íslandi árið 2020. Útreikningar Umhverfisstofnunar sýna að losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands, nam 2.716 þúsund tonnum [af ígildum koltvísýrings] árið 2020 og var 13% minni en árið 2005, sem er viðmiðunarárið fyrir skuldbindingar Íslands. Á milli áranna 2019 og 2020 dróst losun saman um 5%.

Af útreikningum má sjá að losun á tímabilinu 2005-2020 náði hámarki árið 2007, en eftir það dróst losun okkar saman til ársins 2013. Frá því ári hélst losunin svo nánast stöðug þar til árið 2020 þegar hún lækkaði um 5% frá árinu á undan, eins og áður sagði. Þegar rýnt er í tölurnar má sjá að stærsti samdráttarliðurinn er í vegasamgöngum og talið er að COVID faraldurinn spili þar inn í.

Ísland er á eftir mörgum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við í aðgerðum í loftslagsmálum. Við þurfum því að vinna hratt og við þurfum að vinna saman til að ná betri árangri.

Upplýsingar úr losunarbókhaldinu eru grunnur að stöðumati okkar hverju sinni. Því er mjög mikilvægt að því sé vel sinnt og að samþykktri aðferðafræði sé fylgt. Við verðum að auka slagkraftinn í framreikningum. Ekki hafa allar aðgerðir sem settar hafa verið fram verið metnar, en þrátt fyrir það er ljóst að okkur liggur á. Það er mikilvægt fyrir stjórnvöld að fá að sjá hvernig okkur gengur að ná fram markmiðum okkar og hvaða áhrif þær aðgerðir sem samfélagið hefur ráðist í hafa. Við þurfum að byggja okkar áætlanir á staðreyndum.

Framreikningar eða spár um losun framtíðarinnar, sem unnir eru út frá bestu forsendum eru grundvallar verkfæri til að meta hvaða aðgerðir stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífs eða almennings eru vænlegar til árangurs til framtíðar. Þannig getur ein aðgerð getur verið áhugaverð frá mörgum sjónarhornum. Hún getur hins vegar skilað árangri á einu sviði losunar en haft neikvæð áhrif á öðrum. Horfa þarf því heildstætt á aðgerðir í öllu mati til að fá sem besta yfirsýn og fyrir framsetningu sviðsmynda. Einnig er mikilvægt að horfa til réttlátra umskipta, hvaða hvötum eða ívilnunum er beitt, því öll inngrip eða aðgerðir hafa áhrif.

Aðferðafræði framreikninga þarf að þróast áfram og taka þarf inn ólík sjónarhorn, raunvísinda og félagsvísinda.

Þegar fjallað er um stöðu loftslagsmála, hvaða áskoranir eru fram undan og hvaða lausnir eru mögulegar, er ákaflega mikilvægt að hlustað sé á raddir vísindamanna í þeirri vinnu sem fram undan er.

Nýlega kom út skýrsla frá svokölluðum þriðja vinnuhópi Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, eða IPCC. Í skýrslunni kemur m.a. fram að vissulega hafi losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu aukist síðasta áratug, en hægt hefur á aukningunni síðustu ár að hluta til vegna aðgerða stjórnvalda. Betur má þó ef duga skal. Þar segir jafnframt að til þess að árangur náist, sé mikilvægt að beita bæði regluverki og hagrænum stjórntækjum. Þannig megi hvetja til mótvægisaðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Það er auðvelt að yfirfæra þessi orð IPCC yfir á íslenskan raunveruleika og þessar staðreyndir brýna okkur áfram til góðra verka.

Á næsta ári er von á fjórðu vísindaskýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Fulltrúar í þeirri ritnefnd koma frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun og Embætti Landlæknis. Við þurfum að nýta okkur þessa vinnu vel til ákvarðanatöku og stefnumörkunar.

Hér í dag eru samankomnir fulltrúar fjölda stofnana til fræða okkur um loftslagstengd verkefni sín. Allar stofnanir ráðuneytisins hafi einhverju hlutverki að gegna í loftslagsmálum, beint eða óbeint. Hér eru líka mættir fulltrúar frá samstarfsstofnunum sem hafa stórt hlutverk í þeim fjölbreyttu verkefnum sem fram undan eru. Það leysir enginn loftslagsvandann einn og mikilvægt er að við vinnum saman að þessu mikilvæga verkefni sem varðar okkar öll.

Það eru nú nokkrir mánuði síðan ég tók við embætti umhverfis, orku og loftslagsráðherra. Tímann hef ég notað til að setja mig inn í þau umfangsmiklu og fjölbreyttu verkefni sem undir ráðuneytið falla og stofnanir þess. Tryggja þarf að ráðuneytið og stofnanir þess vinni sem ein heild að því að stjórnvöld nái settum markmiðum, sérstaklega í loftslagsmálum. Ég tel mikilvægt að styrkja og einfalda stofnanakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins til að auka enn frekar skilvirkni, hagræðingu og samþættingu verkefna. Með því má auka slagkraft þeirra þannig að þær séu betur í stakk búnar að takast á við verkefni sín eins og á sviði loftslagsmála.

Ég vil nota tækifærið hér og upplýsa um að ég hef sett af stað vinnu við að greina verkefni stofnana ráðuneytisins m.a. til að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en þar er mikil áhersla á loftslagsmál. Þessi vinna getur leitt til áherslubreytinga hjá stofnunum og tilfærslu verkefna, með það að markmiðið að setja enn frekari áherslu á loftslagsmálin í og nota kraftana enn betur.

Megin áherslan í loftslagsmálum er að draga úr losun og auka viðnámsþrótt samfélags gegn loftslagsbreytingum. Það er einnig mikilvægt að skoða vel hvernig við hér á Íslandi getum lagt okkar lóð á vogarskálina til að forða heiminum frá auknum afleiðingum loftslagsbreytinga.

Ég vil brýna okkur öll til áframhaldandi góðra verka. Eins og þið þekkið hafa markmið stjórnvalda verið sett fram í aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum fyrst árið 2018 og síðan árið 2020. Það er hins vegar öllum ljóst að nú er komið að næsta áfanga í vegferðinni, sem er að íslenskt atvinnulíf og sveitarfélög stigi inn í aðgerðaráætlunina af fullum þunga, setji sér markmið og útbúi áætlanir til að ná settum markmiðum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er skýrt kveðið á um að sett verði áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira atvinnulífsins í samstarfi við sveitarfélög, atvinnulíf og almenning. Metnaðarfullt markmiðum kolefnishlutlaust Ísland ekki seinna en 2040 felur í sér miklar áskoranir.

Upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda, um mögulegar aðgerðir til bindingar koltvísýrings, um afleiðingar loftslagsbreytinga og hvað gera megi til að bæta viðnámsþrótt samfélagsins, allt eru þetta grundvallar upplýsingar fyrir stefnumótun og ákvarðanatöku allra þeirra sem vinna þurfa saman svo metnaðarfullum markmiðum Íslands verði náð.

Það er mjög mikilvægt að upplýsingar tengdar loftslagsmálum, losunartölur og framreikningar séu settar fram á skýran hátt og að þær sýni stöðuna gagnvart markmiðum okkar í loftslagsmálum. Í þessu skyni hef ég hafið undirbúning að gerð mælaborðs loftslagsupplýsinga þar sem markmiðið er að þessar upplýsingar séu öllum aðgengilegar og skýrar. Það er von mín að upplýsingar frá þeim stofnunum og aðilum sem við heyrum frá hér í dag, muni í framtíðinni tengjast saman á mælaborðinu þannig að hægt verði að nálgast sem mest af upplýsingum á sem einfaldastan hátt. Við þurfum að koma skýrum skilaboðum á framfæri reglulega um hvernig gangi að ná markmiðum okkar.

Ég fagna því frumkvæði Umhverfisstofnunar að skipuleggja þennan viðburð og er þakklátur þeim sem stíga hér á stokk síðar í dag. Þetta er upptaktur að meiri samvinnu og samtali sem mun skila okkur áfram í verkefninu. Það er mikilvægt að við horfum bjartsýn til framtíðar og leitumst við að sjá tækifæri í áskorununum.

Þakka ykkur fyrir áheyrnina og gangi ykkur vel!



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta