Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á málþingi um HULDU náttúruhugvísindasetur
Kæru gestir,
Það er mér mikil ánægja að ávarpa ykkur hér í dag.
Málþing þetta er liður í undirbúningi að stofnun rannsóknaseturs á sviði náttúruhugvísinda í Mývatnssveit á vegum Háskóla Íslands og Svartárkots - menningar og náttúru. En fulltrúar Háskóla Íslands, Svartárkots menningar — náttúru, Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar undirrituðu nýverið viljayfirlýsingu þess efnis.
Málþingið er jafnframt fyrsta skref í að kynna væntanlegt setur og þá fjölbreyttu og metnaðarfullu vísindastarfsemi sem tengist svæðinu, sem er sannkölluð lifandi kennslustofa. Að vísindastarfseminni koma bæði heimamenn og innlendir og erlendir fræðimenn.
En eitt af markmiðum væntanlegs hugvísindaseturs er að tengja betur heimamenn og aðila sem stunda rannsóknir í héraðinu sem og að efla nýsköpun og uppbyggingu þekkingar- og menningartengdrar ferðaþjónustu.
Verkefninu Svartárkot menning-náttúra var hleypt af stokkunum fyrir meira en 16 árum og er ekki annað en hægt að dást að þeirri elju og þrautseigju sem aðstandendur verkefnisins og heimamenn hafa sýnt. Verkefnið tengir saman ólíkar fræðigreinar með alþjóðlegu námskeiðahaldi og rannsóknum og gefur vísindafólki tækifæri til þess að vinna saman þvert á ólík fræði.
En þó ekki svo ólíkum. Menning og náttúra eru jú svo nátengd, og til að afla þekkingar á sambúð manns og náttúru í fortíð þarf að blanda saman rannsóknaraðferðum á sviði hugvísinda og náttúruvísinda.
Þetta endurspeglast raunar orðið í stjórnsýslunni, en málefni menningarminja fluttust einmitt til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis með breytingum sem gerðar voru á Stjórnarráði Íslands í kjölfar myndunar núverandi ríkisstjórnar í lok árs 2021.
Í ljósi þessa er sérstaklega ánægjulegt að ólíkar stofnanir á sviði umhverfismála vinni undir sama þaki hér í allra næsta nágrenni, í því húsnæði sem Ríkiseignir festu nýverið kaup á og hýsti áður Hótel Gíg. Slík samvinna er mjög í anda þess sem við erum að fjalla um hér í dag og á morgun.
Ég hvet alla þá sem komið hafa að málum til dáða.
Kæru gestir,
Til að geta undirbúið okkur sem best fyrir framtíðina þurfum við að kunna skil á fortíðinni og okkar merkilegu sögu.
Eigið gott málþing.
Takk fyrir.