Hoppa yfir valmynd
04. október 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á haustfundi Landsvirkjunar

Ágætu stjórnendur og aðrir starfsmenn Landsvirkjunar, góðir gestir!

Það er mér mikil ánægja að ávarpa ykkur hér í dag á haustfundi Landsvirkjunar 2022. Yfirskrift haustfundarins að þessu sinni er “Breytt heimsmynd – breytt forgangsröðun”.

Mig langar að skoða þessa breyttu heimsmynd út frá tveimur sjónarhornum, annars vegar orkuöryggi og hins vegar loftslagsmálum. Þessar áskoranir leggjast á eitt og mæta okkur af tvöföldum þunga.

Byrjum á orkuörygginu.

Ein alvarlegasta orkukrísa í áratugi dynur nú á nágrannaþjóðir allt í kringum okkur. Í Evrópu hefur staða orkumála versnað mjög eftir að innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Þar er nú unnið að neyðarráðstöfunum í orkumálum vegna afleiðinga stríðsins sem felur í sér orkuskort og hækkandi orkuverð. Í löndum í kringum okkur er leitað allra leiða til að draga úr eftirspurn, auka fjölbreytni orkugjafa og fjárfesta í endurnýjanlegum orkugjöfum. Við sjáum með enn gleggri hætti mikilvægi þess að vera ekki bara óháð jarðefnaeldsneyti, heldur óháð öðrum um orku og eldsneyti. Krísan varpar nú skýru ljósi á nauðsyn endurnýjanlegra orkugjafa og hve mikilvægt þjóðaröryggismál felst í orkusjálfstæði.

Stefnan setur orkuöryggið í öndvegi og segir að ávallt skuli uppfylla orkuþörf samfélags og setur jafnframt þarfir almennings ofar öðrum.

Til að setja hlutina í samhengi getum við horft á þetta svona: Það er þrennt sem getur talist ódýrt hér á landi:
1. Lambakjöt
2. Fiskur, kannski
3. Orka

Ef við ógnum á einhvern hátt þeirri stöðu að heimilin í landinu búi áfram að ódýrri orku þá erum við ekki einvörðungu að vega að fjárhagslegum stöðugleika heimilanna heldur líka að samkeppnishæfni Íslands þar sem þar með væri sérstöðu landsins raskað. Þess vegna geta ákvarðanir um orkuverð til heimila og fyrirtækja ekki verið einkamál þeirra fyrirtækja sem starfa á raforkumarkaði – heldur er það málefni sem varðar okkur öll.

Þess vegna munum við áfram standa vörð um lágt orkuverð til heimilanna og fyrirtækja í landinu.

Það haustar að og sem betur fer þurfum við Íslendingar ekki að bera kvíðboga í brjósti fyrir komandi vetri þar sem hér á landi er ekki slík hætta á ferðinni að við þurfum að óttast orkuskort eða orkuverð í hæstu hæðum. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða. Það getum við þakkað okkar innlendu orkugjöfum, raforkunni og varmanum og kerfunum sem veita þeim til heimila og fyrirtækja í landinu. Við þurfum þó ávallt að vera viðbúin og tryggja varnir, þanþol og viðbrögð. Við búum jú í harðbýlu landi þar sem veðurfar og náttúruhamfarir reyna oft verulega á, og mögulega enn meir með breytingum loftslagsins. Eitt af mínum fyrstu embættisverkum var að setja af stað vinnu til að gera gangskör að tryggu orkuframboði fyrir almenna hluta raforkumarkaðarins. Í ráðuneytinu er nú unnið með tillögur nefndar um orkuöryggi þar sem ætlunin er að skerpa á ábyrgðarhlutverki Orkustofnunar og fela stofnuninni aukin verkefni í tengslum við orkuöryggi. Þar er til að byrja með aukin áhersla á upplýsingagjöf til að auka fyrirsjáanleika á markaði fyrir heimili og smærri fyrirtæki. Ætlunin er þá að þróa frekari úrræði sem munu byggja á þeim upplýsingum, vöktun og viðmiðum.

Kæru fundarmenn,

Þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á öllum sviðum segja okkur að kyrrstaða er ekki valkostur.

Áralöng kyrrstaða í hefur loks verið rofin með afgreiðslu Alþingis á 3. áfanga rammaáætlunar í vor. Þetta er í fyrsta sinn í rúm níu ár sem samkomulag næst á Alþingi um afgreiðslu rammaáætlunar. Rammaáætlun veitir okkur leiðsögn um forgangsröðun og á hvaða svæðum ætti alls ekki að vinna að orkuöflun, byggt á mati sérfræðinga á náttúruverndargildi þeirra svæða sem eru til umfjöllunar og mati á mögulegum áhrifum á aðra nýtingu, s.s. ferðaþjónustu. Öflun orku getur haft veruleg og óafturkræf áhrif á náttúru landsins og okkur ber að stíga varlega til jarðar og byggja á bestu fáanlegu upplýsingum á hverjum tíma.

Afgreiðsla rammaáætlunar færir okkur aukið orkuöryggi og tækifæri til að vinna áfram að krafti að orkuskiptunum. Orkuöryggi felst í auknu framboði auk þess sem áhættudreifing felst í fjölbreyttari orkukostum en vatnsafli og jarðvarma. En nú eru tveir vindorkukostir í nýtingarflokki sem Landsvirkjun stendur að, þ.e. Blöndulundur og Búrfellslundur.

Samtals eru nú í nýtingarflokki 1.421 MW í 18 mögulegum virkjanakostum. En það er ekki nóg að virkjunarkostir séu í nýtingarflokki, framkvæmdaaðilarnir sem standa að þeim kostum þurfa líka að hefjast handa við undirbúning og framkvæmdir. Til þess að stjórnvöld nái settum markmiðum í loftslagsmálum er nauðsynlegt að afla nýrrar grænnar orku. Í því efni treystum við ekki síst á Landsvirkjun.

Mikilvægur áfangi hefur enn fremur náðst með breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun sem einnig var samþykkt á vorþingi. Þar var lögð til sú breyting að rammaáætlunin taki ekki lengur til stækkana á virkjunum sem þegar eru í rekstri svo framarlega sem stækkunin feli ekki í sér að óröskuðu svæði verði raskað. Þannig er hægt að auka orkuöflun og orkunýtni með lágmarks raski á umhverfi þegar gefið er tækifæri á að hraða aflaukningu þeirra virkjana sem þegar eru í rekstri.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir að setja skuli sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Áhersla verði lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum, svo unnt verði að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif. Tekið er fram að mikilvægt sé að breið sátt ríki um uppbyggingu vindorkuvera og tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa og áhrifa á dýralíf og náttúru; einnig að taka verði afstöðu til gjaldtöku fyrir slíka nýtingu. Það er mín skoðun að mikilvægt sé að næstu nágrannar slíkrar uppbyggingar fái fjárhagslega að njóta þess.

Hlutverk skipaðs starfshóps um vindorkunýtingu verður að skoða og gera tillögur um hvernig ofangreindum markmiðum verði náð. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn fari ítarlega yfir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun að því er varðar meðhöndlun og málsmeðferð vindorku yfir 10 MW innan rammaáætlunar; auk lagafrumvarps og þingsályktunartillögu sem lögð voru fram 2021 um staðsetning vindorkuvera í landslagi og náttúru Íslands.

Stjórnarsáttmáli boðar einnig mörkun stefnu um vindorku á hafi. Þar er annar starfshópur að störfum með fulltrúum Orkustofnunar, Veðurstofu, ÍSOR og Náttúrufræðistofnunar. Starfshópurinn mun leita upplýsinga hjá framangreindum stofnunum auk Hafrannsóknarstofn-unar, Samorku og Landsvirkjunar, ásamt upplýsingum um stöðu mála og lagaumhverfi í öðrum ríkjum.

En áfram vinnum við og leitum leiða til að tryggja orkuöryggi til skamms og lengri tíma. Við erum með allar klær úti. Hér horfum við áfram til meiri fjölbreytni orkukosta, stórra sem smárra sem geta jafnvel komið fyrr til framkvæmda en hefðbundnari kostir sem falla innan Rammans. Hér er bæði átt við raforkuþörf og varmaþörf til húshitunar. Orkustofnun hefur verið falið að vinna samantekt um stöðu mála fyrir nýja orkukosti. Kanna þarf fýsileika, framboð og varpa ljósi á hvaða hindranir, ef einhverjar standa í vegi fyrir framþróun smávirkjana, sólarorkuvera, sólarsellna, sjávarfallavirkjana, varmadælna, lífeldsneytis, glatvarma, orkuframboð hitaveitna, ýmissa snjalllausna og þátttöku notenda þ.m.t. stórnotenda í raforkukerfinu.

Þó hér sé að mestu fjallað um aukna raforkuframleiðslu þá þreytist ég seint á að undirstrika mikilvægi þess að tryggja aðgang að heitu vatni til framtíðar til hitunar húsa. Það verður að sýna fyrirhyggju í þeim efnum svo ekki komi til skortur þar á komandi árum. Hér er önnur skýr forgangsröðun fyrir mikilvægan innviði sem sinnir grunnþörfum almennings og gerir landið okkar byggilegt. Á þessu sviði höfum við ekki staðið okkur og það er ekki boðlegt að það sé ekki nægt framboð af heitu vatni til húshitunar á Íslandi.

Góðir gestir,

Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum sem eru að verða kolefnishlutlaus og hætta alfarið notkun jarðefnaeldsneytis fyrir árið 2040. Verkefnið er stórt og kallar á samdrátt í losun um 1,3 milljónir tonna CO2 á beinni ábyrgð Íslands fyrir árið 2030. Hert markmið Íslands um samdrátt í losun og markmið um kolefnishlutleysi og full orkuskipti kalla á skýrari sýn og nýja nálgun sem mun byggja á markmiðum fyrir einstaka geira atvinnulífisins, aukinni áherslu á loftslagshagstjórn og forgangsröðun í þágu loftslagsmarkmiða á öllum sviðum samfélagsins. Ný nálgun verður viðhöfð varðandi samstarf ríkisstjórnar, stjórnsýslu, atvinnulífs, sveitarfélaga og annara hagsmunaaðila. Markmiðið verði að ná betri og öflugri samskiptum og þannig meiri árangri á skemmri tíma. Nauðsynlegt er að stjórnvöld, atvinnulíf og sveitarfélög stígi enn ákveðnar inn í aðgerðaráætlun Íslands með eigin markmiðum og aðgerðum. Samtal við atvinnulífið vegna geiramarkmiða er komið af stað og samvinna við sveitarfélögin og Stjórnarráðið í heild er lykilatriði til að ná árangri. Opinberi geirinn er ekki undanskilinn. Nauðsynlegt er að eigendastefna félaga í eigu ríkisins verði uppfærð þannig að skýrt verði að þeim beri að stuðla að framgangi verkefna á sviði loftlags- og orkuskipta í samræmi við markmið Íslands í loftslagsmálum.

Þó aðgerðir til samdráttar og kolefnisbindingar séu á endanum númer, eitt, tvö og þrjú, þá þurfum við að skilja hvernig við lögum okkur að heimi ólíkum þeim sem við nú þekkjum. Rétt eins og að samdráttur í losun er verkefni okkar allra, þá verðum við öll að læra á næstu árum að hugsa um áhrif loftslagsbreytinga þegar við byggjum húsin okkar, skipuleggjum byggðir, hugum að líffræðilegri fjölbreytni og tökum ákvarðanir innan fyrirtækjanna okkar sem móta framtíð atvinnuvega og þjóðarhag.

Að lokum nokkur orð um sóknarfærin.

Undanfarna mánuði hafa aðilar úr ýmsum áttum unnið að kortlagningu grænna iðngarða og hvar helstu sóknarfærin liggja. Hringrásarhagkerfið leikur þar mikilvægt hlutverk en að vinnunni stóðu Íslandsstofa, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, Landsvirkjun og Norðurþing. Kynntur hefur verið fyrsti áfangi þeirrar vinnu og leiðarvísir fyrir næstu skref. Er þar gerð grein fyrir því hvernig efla má atvinnulífið, auka samkeppnishæfni Íslands og treysta byggð á landsbyggðinni með grænum nýfjárfestingum og uppbyggingu grænna iðngarða.

Settur hefur verið á laggirnar stýrihópur um eflingu umhverfis- og loftslagsvænna nýfjárfestinga. Verkefnið hefur hlotið heitið „Græni dregillinn“ og er því ætlað að efla stuðning við aðila sem sýna áhuga á að ráðast í loftlagstengd græn nýfjárfestingarverkefni á Íslandi. Greining Íslandsstofu bendir til þess að stuðningsumhverfið við nýfjárfestingarverkefni sé öflugra í helstu samkeppnislöndum okkar, og að ferli og umgjörð slíkra fjárfestingaverkefna, frá hugmynd að rekstri, sé markvissara, einfaldara og skýrara. Sýn verkefnisins um Græna dregilinn er að bæta ferla og þjónustu, allt frá hugmynd að rekstri, við nýfjárfestingarverkefni sem falla að framangreindri stefnumótun eða eru á skilgreindum þróunarsvæðum samkvæmt vinnu atvinnuþróunarfélaga og/eða sveitarfélaga. Fyrir liggur að allmörg nýfjárfestingarverkefni eru í athugun víðsvegar um landið og myndi verkefnið bæði geta stutt við framgang þeirra og notið góðs af þeirri greiningarvinnu sem unnið er að í tengslum við þau.

Að lokum

Við þurfum að aðlagast breyttum heimi, við þurfum að haga seglum eftir vindi og þrauka þá storma sem á okkur dynja. Okkur er tíðrætt um öryggi um þessar mundir. Það er mikið öryggi fólgið í því að rekstur orkufyrirtækis þjóðarinnar gangi vel. Við njótum öll góðs af skynsamlegum ákvörðunum og framkvæmdum í nýtingu á orkuauðlindum landsins á undanförnum árum og áratugum. Þarfir almennings eru og eiga að vera í forgangi hjá Landsvirkjun og mun fyrirtækið nú sem fyrr svara kallinu og mæta þeim áskorunum sem þjóðin stendur frammi fyrir á orku- og loftslagssviði með þeirri einurð og drifkrafti sem einkennir starfið á sama tíma og hvergi er slegið af í vönduðum vinnubrögðum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta