Grein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra - Rafmagns og aðgerðarleysi
Eftirfarandi grein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra birtist í Fréttablaðinu 19. janúar 2023.
Rafmagns- og aðgerðarleysi
Bilun í yfirspennuvara í Suðurnesjalínu 1 olli því að 30 þúsund manna samfélag var rafmagnslaust í rúmlega tvo klukkutíma á mánudaginn var. Suðurnesjalína 1 er eina rafmagnslínan sem leiðir á Suðurnesin en deilt hefur verið um lagningu Suðurnesjalínu 2 í tæpa tvo áratugi.Það má öllum vera ljóst að ef Suðurnesjasvæðið væri með tvítengingu eða svokallaða hringtengingu, líkt og flest önnur svæði, þá hefði ekki slegið út á mánudaginn. Það er eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á lagningu Suðurnesjalínu 2. Það hafa allir rétt á sinni skoðun. Kjarni máls er samt sá að önnur tenging inn á svæðið hefði komið í veg fyrir rafmagnsleysi.
Óháð því sem undan er gengið þá ætti þetta tilvik að verða til þess að hlutaðeigandi aðilar setjist niður og komist að niðurstöðu um málið. Við breytum ekki fortíðinni en það er algjör óþarfi að láta málið liggja í lausu lofti lengur. Við verðum að taka á raforkuöryggismálum af meiri festu en það.
Augljóst val
Við byggjum á sterkri framtíðarsýn og höfum gert undanfarna öld. Við viljum vera okkur sjálfum nóg um orku. Okkur tókst það vegna þrautseigju þeirra sem á undan okkur gengu. Það hefur orðið til þess að þegar hörmungar skella á, líkt og stríðið í Úkraínu, þá finnum við ekki fyrir áhrifum þess á orkuverð líkt og aðrar þjóðir.
Nú ætlum við að ganga skrefinu lengra og skipta út allri notkun á jarðefnaeldsneyti fyrir hreina og sjálfbæra, íslenska græna orku. Það er til lítils að ætla okkur þessa stóru hluti ef við getum ekki tryggt að við getum alltaf fengið orkuna.
Annað hvort þrætum við áfram um þessi mál og gleymum þeim fram að næstu bilun og tilheyrandi rafmagnsleysi eða þá að við ræðum okkur niður á lausnir og höfum kjark til þess að taka ákvarðanir. Mér finnst valið augljóst.