Hoppa yfir valmynd
25. maí 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á fræðslufundi um fráveitumál á Vesturlandi

Ágætu gestir,

Haf og vatn eru mikilvægar auðlindir fyrir Ísland og hagkerfi Íslands því er mikilvægt að við förum vel með þær auðlindir. Fráveitumálin eru mikilvægur málaflokkur sem við þurfum að sinna betur en við eigum því miður ennþá langt í land með að uppfylla kröfur um hreinsun. Ísland hefur skuldbundið sig til að vinna að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um hreinsun á skólpi og er markmiðið að hlutfall óhreinsaðs skólps verði minnkað um helming fyrir árið 2027.

Ísland tók upp fyrri tilskipun ESB um fráveitumál, sem hefur verið innleidd í íslenska löggjöf að mestu leyti þó að enn vanti töluvert upp á framkvæmd hennar. Það er ljóst að framkvæmd á kröfum gildandi tilskipunar, sem innleidd er með reglugerð, er mjög ábótavant á Íslandi þó að miklar umbætur hafi verið gerðar í fráveitum hér á landi á síðustu áratugum. Þá styður ríkið við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga með styrkveitingum og er áætlað að styrkveitingar vegna framkvæmda á árunum 2020, 2021 og 2022 hafi numið tæplega 1 milljarði króna

Skoða þarf áætlanir um frekari umbætur í fráveitumálum í ljósi nýrrar væntanlegrar tilskipunar, sem gæti haft áhrif á kröfur í framtíðinni

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti í opnu samráðsferli í nóvember sl. tillögu að endurskoðaðri tilskipun um hreinsun skólps frá þéttbýli. Þetta boðar fyrstu verulegu breytinguna á regluverki ESB í fráveitumálum síðan 1991. Ísland hefur bent á að rétt sé að hafa innbyggðan sveigjanleika í tilskipuninni til að ná þeim markmiðum sem tilskipuninni er ætlað að ná, m.a. vegna þess að aðstæður í mjög strjálbýlu landi eins og Íslandi séu ólíkar þeim sem eru á þéttbýlum svæðum í Evrópu.

Tillaga framkvæmdastjórnar ESB leggur aukna áherslu á nýtingu skólps sem auðlindar og gert ráð fyrir hertum kröfum á hreinsun skólps frá þéttbýli, m.a. til að takast á við nýjar áskoranir.

Óljóst er á þessu stigi málsins hvaða áhrif ný tilskipun komi til með að hafa m.t.t. íslenskra hagsmuna, þar sem einungis liggur fyrir tillaga og m.a. á eftir að vinna úr þeim fjölda ábendinga sem framkvæmdastjórninni barst í opna samráðsferlinu sem var að ljúka. Líklega verða þó um 25 þéttbýli hér á landi sem þurfa að fara úr engri hreinsun eða grófhreinsun í tveggja þrepa hreinsun með tilheyrandi fjárfestingu og auknum kostnaði.

Kæru gestir,

Það er mikilvægt að við horfum á fráveitumálin með sömu augum og við horfum á hringrásarhagkerfismálin öll. Það er ljóst að við eigum nokkuð í land með núverandi tilskipun og að skoða þarf áætlanir um frekari umbætur í ljósi nýrrar væntanlegrar tilskipunar. Sumir myndu kalla þetta gífurlegar áskoranir, sjálfur lít ég svo á að við séum með gríðarleg tækifæri í málaflokknum.

Því líkt og lögð er áhersla á í tillögu framkvæmdastjórnar ESB þá eigum við að horfa á skólpið sem auðlind. Það eru verðmæti í skólpi líkt og í öðrum úrgangi. Það er svo okkar að beita hugvitinu, sem sannarlega er nóg af á Íslandi, til þess að finna leiðir til þess að nýta þessi verðmæti okkur í hag.

Í þessu samhengi má ég til með að hrósa þeim sex sveitarfélögum á Suðurlandi sem opnuðu saman fyrstu seyrustöð landsins í fyrra. Framtakssemi þessara tiltölulega smáu sveitarfélaga eru fyrirmyndar dæmi um þá lausnarmiðun sem við verðum að hafa fyrir augum í þessum málaflokki.

Kæru gestir.

Við þurfum að halda þétt á spöðunum þegar kemur að fráveitumálum á komandi árum. Þar blasa við miklar áskoranir, en við eigum sem betur fer nóg af tækifærum sem þeim fylgja. Við eigum að leita lausna til þess að búa til og nýta verðmætin í skólpinu. Við þurfum að beita hugvitinu og nýsköpun til þess að finna lausnir sem henta samfélögum sem okkar. Fámennum og strjálbýlum samfélögum á norðurslóðum. Það búa fjórar milljónir manna á norðurheimskautinu, í sambærilegum samfélögum og okkar. Allar þær lausnir sem við finnum geta orðið útflutningsvara framtíðarinnar. Hugsum í lausnum og sækjum fram, hér líkt og annarsstaðar.

Takk fyrir.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta