Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á ársfundi Minjastofnunar 2023

Kæru gestir.

Umfjöllunarefni fundarins í dag lýtur að málefnum yngri minja, eða nýminja, en það eru menningarminjar – rústir, hús og mannvirki - sem eru of ungar til þess að njóta aldursfriðunar.

Nýminjar geta borið umbrotatímum í sögu þjóðarinnar vitni og má þá einkum nefna minjar um veru erlends herliðs víðs vegar um landið og umsvif þess í seinni heimstyrjöldinni og síðan á tímum kalda stríðsins. Gosminjar frá eldgosinu í Heimaey árið 1973 myndu teljast til nýminja.

Nýminjar geta líka endurspeglað atvinnuhætti, verslun, samgöngur eða einfaldlega þörf okkar til að vera í samskiptum við hvort annað, en dæmi um það eru félagsheimili, gamlar sjoppur eða kaffistofur eða jafnvel íþróttamannvirki og útileiksvæði barna.

Á undanförnum árum hefur athygli minjavörslunnar beinst stöðugt meira að nýminjum, enda getur varðveislugildi þeirra verið mjög hátt þrátt fyrir ungan aldur. Þær geta auk þess verið hluti af menningarlandslagi og sett mikinn svip á það.

En því miður er það svo að þessi menningararfur tapast hratt þessi misserin, einkum vegna ýmissa nýframkvæmda og breyttrar landnotkunar. Fágæti þeirra eykst með hverjum deginum.
Þörf er á að móta stefnu um þennan málaflokk, hefja vinnu við að velja bestu dæmin um nýminjar og leita svo leiða til að vernda skilgreint úrval nýminja umfram það sem er í dag.

Talandi um bestu dæmin, þá má í því samhengi minnast á minjar um Patterson-flugvöllinn á Reykjanesi sem Bandaríkjamenn byggðu árið 1942 og var lokað þremur árum síðar. Flugvöllurinn var aðallega notaður til að sinna þeim orrustuflugvélum hersins sem fóru með loftvarnir á Suðvesturlandi.

Ýmsar leiðir eru til þess að vernda nýminjar í núverandi löggjöf, s.s. sérstakar friðlýsingar einstakra minja, verndarsvæði í byggð og hverfisvernd. Skoða má hvort ástæða sé til að tryggja betur varðveislu nýminja í lögum og þá hvaða leiðir séu farsælastar í því sambandi.

Fræðsla og miðlun á minjum og gildi þeirra er gulls ígildi þegar kemur að varðveislu þeirra. Tækifæri geta líka falist í sögu- og menningartengdri ferðaþjónustu þar sem áhersla er lögð á nýminjar og jafnvel handverksþekkingu.

Í nýútkominni skýrslu starfshóps um stöðu minjaverndar kom fram að mikilvægt væri að auka vitund almennings um nýminjar og vekja áhuga heimafólks á þeim. Sjötti lykilþátturinn í tillögum starfshópsins fjallar raunar um vernd nýminja og eru þar undir tvær tillögur til úrbóta. Ég get svo til viðbótar sagt frá því hér að tillögur starfshópsins voru settar í opið samráð um samráðsgátt í byrjun þessarar viku og verður samráðið um þær opið til 11. desember næstkomandi. Þarna er góður vettvangur til að veita umsagnir um tillögur starfshópsins um minjavernd, til dæmis um hvernig best skuli staðið að vernd nýminja.

Kæru gestir,

Menningarminjar gera tilveru okkar ríkari á margvíslegan hátt. Þær tengja okkur við ræturnar og brúa bilið á milli fortíðar, nútíðar og framtíðar. En fyrst og fremst snýst vernd menningarminja um hugtakið virðingu. Að bera virðingu fyrir fortíðinni, þeim sem komu á undan okkur og ruddu brautina, þeirra afrekum og fórnum við erfiðar aðstæður í harðbýlu landi. Menningarminjar bera þannig með sér sögu um daglegt líf, náttúruvit og verkvit fólks sem á undan okkur gekk. Stundum bera þær vott um atburði sem umturnuðu lífi fólks. Þegar samfélagið breytist orðið jafnt hratt og raun ber vitni er enn mikilvægara en áður að hlúa að arfinum og miðla honum á milli kynslóða.

Ég vona að þið eigið góðan ársfund í dag.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta