Hoppa yfir valmynd
23. júní 2019 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur Uppló - á sunnudegi 23. júní 2019

Heil og sæl.

Á þessum fagra sunnudegi er við hæfi að fara yfir það helsta sem á daga okkar hefur drifið undanfarinn hálfan mánuð. Fyrst skal nefna glænýja könnun um viðhorf landsmanna til utanríkisþjónustunnar og verkefna hennar. Þar kennir ýmissa grasa en megin niðurstaðan er þó að þorri Íslendinga er jákvæður í garð alþjóðastofnana og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Það er í senn bæði ánægjulegt og hvatning fyrir okkur öll. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur könnunina til hlítar.

Í dag var svo greint frá því að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefði ákveðið að verja þrettán milljónum króna til UN Free & Equal, sérstaks verkefnis sem skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) heldur utan um til að vinna að útbreiðslu réttinda hinsegin fólks (LGBTI).

Spólum aftur um hálfan mánuð, til föstudagsins 7. júní nánar tiltekið, en þá fór fram fyrsti fundur Íslands og Bandaríkjanna í reglulegu viðskiptasamráði. Því var komið á fót á fundi utanríkisráðherra ríkjanna í Reykjavík í febrúar síðastliðinn. Samráðið sætir verulegum tíðindum og miklar vonir eru bundnar við að í fyllingu tímans skili það neytendum og útflytjendum miklum ávinningi. Tvíhliða efnahagssamráð Íslands og Japans fór fram sama dag.

Flestum ætti að vera í fersku minni að um hvítasunnuna fylltust Tyrkir heilögum reiðianda í tengslum við komu knattspyrnulandsliðs þeirra hingað til lands. Guðlaugur Þór Þórðarson átti samtal við tyrkneska utanríkisráðherrann vegna málsins og fjölmargt starfsfólk utanríkisþjónustunnar tók þátt í að vinda ofan af þessu undarlega máli.

Sama dag kom Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, í heimsókn til Íslands í boði forsætisráðherra. Stoltenberg skoðaði öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og ávarpaði opinn fund í Norræna húsinu en auk þess átti hann fund með utanríkisráðherra þar sem öryggismál á Norður-Atlantshafi, fyrirhuguð verkefni Íslands í Kosovo og norrænt öryggismálasamstarf voru efst á baugi. Fastanefndin hjá Atlantshafsbandalaginu auk varnarmálaskrifstofu tóku virkan þátt í undirbúningi heimsóknarinnar.

Af vettvangi formennskunnar í norrænni samvinnu má nefna að Sigurður Ingi Jóhannsson stýrði fundi samstarfsráðherra Norðurlandanna sem fram fór á Hellu þann 19. júní. Á fundinum var ný framtíðarsýn fyrir Norrænu ráðherranefndina samþykkt.

Samtímis fór fram stjórnarfundur embættismannanefndar Norðurskautsráðsins, sá fyrsti á formennskutíma Íslands, í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Með fundinum er hrundið af stað röð reglubundinna funda Norðurskautsráðsins og tengdra viðburða sem fara munu fram víðsvegar um landið næstu tvö árin.

Sameinuðu þjóðirnar hafa birt á vef sínum skýrslu íslenskra stjórnvalda um innleiðingu heimsmarkmiðanna. Skýrslan er hluti af landsrýni Íslands á stöðu innleiðingar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Á fimmtudag átti svo utanríkisráðherra stuttan fund með Daniel Coats, yfirmanni leyniþjónustumála Bandaríkjanna, er hann hafði viðdvöl hér á leið sinni yfir Atlantshafs. Öryggismál í víðu samhengi, meðal annars á norðurslóðum, voru helsta umræðunefnið.

Fleira bar þá til tíðinda því þá var áritaður loftferðasamningur milli Íslands og Úkraínu. Samningurinn gildir með tímabundnum hætti um loftferðir á milli ríkjanna þar til hann verður undirritaður. Með þessu skrefi er opnað á nýja möguleika fyrir aðila í farþega- eða vöruflugi.

Á dögunum var Ísland tekið fyrir í Economic Development and Review Committee hjá OECD.  Slík fyrirtaka er á tveggja ára fresti og er þar rædd efnahagsskýrsla OECD um Ísland. 19. júní, á kvenréttindadaginn, stýrði Kristján Andri Stefánsson sendiherra svo fundi aðildarríkja OECD sem setja jafnréttismál á oddinn.

Málþingið „Norden - More than Scandinavia“ fór fram í Stokkhólmi haldið þann 13. júní 2019 en þemað í ár var hafið, bæði sem auðlind og hafið sem þarfnast verndar. Norrænu sendiráðin í Stokkhólmi komu að skipulagningunni og kynnti Estrid Brekkan sendiherra formennskuáherslur Íslands í norrænu samvinnunni en þar eru málefni hafsins í öndvegi. Stefán Skjaldarson sendiherra tók einnig þátt í málþinginu.

Alþjóðlegt átak gegn einelti og ofbeldi á vinnustöðum var meginmálefni á dagskrá 100 ára afmælisfundar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) fyrir skemmstu sem félagsmálaráðherra og fulltrúar fastanefndarinnar í Genf sóttu.

Bergdís Ellertsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, hefur ásamt fastafulltrúa Singapúr leitt samningaviðræður um ályktun um hvernig fagna skuli 75 ára afmæli SÞ á næsta ári og var ályktunin samþykkt samhljóða fyrir viku.

13. júní undirritaði Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra í Kampala, samning um gæðaeftirlit með vatnsveitu í fiskiþorpum í Buikwe, samstarfshéraði Íslendinga í þróunarsamvinnu í Úganda.

3. júní sl. var haldin norræna ráðstefnan "Healthy Oceans, Agenda 2030 and Gloabal Goals", í sameiginlega húsi norrænu sendiráðanna í Berlín. Sendiherra opnaði ráðstefnuna og í lok hennar var efnt til #NordicPlogging viðburðar, þar sem skokkað var um Tiergarten og tínt rusl til að vekja athygli á umhverfisvernd. 

5. júní var finnsk-íslenskt málþing í norrænu sendiráðunum um málefni Norðurskautsins, í tilefni af því að Ísland tók við formennsku af Finnum í Norðurskautsráðinu. Einar Gunnarsson hélt inngangsræðu og tók þátt í pallborðsumræðum. Málþingið var liður í dagsrkánni "European Sustainable Development Week" í Berlín 2019 með þátttöku þýska utanríkisráðuneytisins. 

6. júní stóð sendiráðið í Berlín ásamt fyrirtækinu Vikingyr fyrir matarkynningu fyrir innkaupastjóra stórmarkaða í Þýskalandi og var Friðrik Sigurðsson matreiðslumeistari fenginn til að matreiða lambakjötið.  Þann 7. júní var svo matarkynning á fiski og lambakjöti með Friðriki Sigurðssyni matreiðslumeistara innan Íslandsdagskrár sem er undanfari heimsmeistaramóts íslenska hestsins sem haldið verður í hverfinu Lichtenberg í Berlín í sumar.

Sendiherrar Norðurlanda í Kaupmannahöfn hafa undirritað samkomulag um starfsstarf á neyðartímum.

Í upphafi mánaðar tók Margrét Þórhildur Danadrottning á móti sendiherrahjónum Íslands en nú líður senn að starfslokum þeirra hjóna í Danmörku.

Þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní var víða fagnað með þátttöku sendiskrifstofanna okkar. Má nefna að Estrid sendiherra í Stokkhólmi brilleraði í sjónvarpsviðtal af því tilefni og á Íslendingaslóðum í Winnipeg í Manitoba var venju samkvæmt mikið um dýrðir. Í vikunni fóru fram þreföld hátíðarhöld í Óðinsvéum þar sem haldið var upp á 75 ára afmæli íslenska lýðveldisins, 100 ára afmæli færeyska fánans og 10 ára afmælis grænlensku heimastjórnarinnar.

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra í Helsinki, tók þátt í hátíðarhöldum á þjóðhátíðardegi Álandseyja, 9. júní. Arna Lísbet viðskiptafulltrúi sótti svo nokkrum dögum síðar árlega Íslandshátíð í Vilníus í Litháen.

Sendiráðið í Washington, ásamt hinum norrænu sendiráðunum í borginni, tók virkan þátt í Pride-hátíðarhöldum þar í borg um síðustu helgi. Regnbogafáninn hefur blaktað við hún á sendiráðinu í Ósló undanfarna daga vegna hinsegin daga sem nú standa yfir í borginni.

Síðast en ekki síst er gaman að segja frá því að sérstök síða heimasendiherra hefur nú verið opnuð á Stjórnarráðsvefnum. Auk upplýsinga um heimasendiherrana og verkefni þeirra verða þar birtar fréttir af því góða starfi sem þeir vinna.

Í vikunni sem nú er framundan verður venju samkvæmt nóg að gera hjá okkur í utanríkisþjónustunni. Má þar nefna að utanríkisráðherra sækir ráðherrafund EFTA í Liechtenstein og svo varnarmálaráðherrafund NATO í Brussel. Þá hefst á morgun 41. lota mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf þar sem okkar fólk stendur vaktina. Von er á forsætisráðherra til Genfar til að taka þátt í störfum ráðsins.

Bestu kveðjur frá Uppló!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta