Hoppa yfir valmynd
06. september 2019 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 6. september 2019

Heil og sæl!

Rúmur mánuður er liðinn frá síðasta föstudagspósti og því af nógu að taka. Dýfum okkur ofan í það helsta.

Viðburðarík vika er nú að baki, svo ekki sé meira sagt, en hæst ber auðvitað að nefna komu varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence, til landsins. Utanríkisráðherra tók á móti varaforsetanum í Höfða síðastliðinn miðvikudag þar sem þeir leiddu hringborðsumræður um samstarf á sviði efnahags- og viðskiptamála. Pence ræddi einnig við forseta Íslands í Höfða og forsætisráðherra í Keflavík síðar sama dag. Heimsóknin vakti töluverða athygli í fjölmiðlum og þá helst þær miklu öryggisráðstafanir sem gerðar voru vegna hennar.

En vikan hófst hins vegar með samþykkt Alþingis á innleiðingu þriðja orkupakkans og lét ráðherra skeggið fjúka í kjölfarið.

Utanríkisráðherra heimsótti Grænland undir lok síðasta mánaðar þar sem hann átti fund með utanríkisráðherra Grænlands auk þess sem hann kynnti sér starfsemi ýmissa fyrirtækja og sveitarfélaga í landinu. Svo má auðvitað ekki gleyma heimsókn Angelu Merkel Þýskalandskanslara hingað til lands í síðasta mánuði en hún var sérstakur gestur á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna. Á fundinum samþykktu forsætisráðherrarnir nýja framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar sem starfsfólk Norðurlandaskrifstofu hefur unnið að síðustu misseri.

Fríverslunarsamningur EFTA og aðildarríkja Mercosur er nú höfn en með samningnum lækka tollar á bróðurpart þeirrar vöru sem flutt er út frá Íslandi.

Af öðrum fréttum úr ráðuneytinu má nefna að fjöldi erlendra fræðimanna tók þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um Brexit sem haldin var hér á landi í síðustu viku í samstarfi utanríkisráðuneytisins og Alþjóðamálastofnunar. Utanríkisráðherra, hélt opnunarræðu á ráðstefnunni þar sem hann hvatti til þess að farsæl niðurstaða næðist í viðræðum Bretlands og ESB. Árlegt samráð íslenskra og rússneskra stjórnvalda fór fram í ráðuneytinu í síðustu viku og ráðherra átti fundi með Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands og Kumi Naidoo, aðalframkvæmdastjóra mannréttindasamtakanna Amnesty International. Þá tók ráðherra á móti fjórum öldungadeildarþingmönnum frá Bandaríkjunum í byrjun síðasta mánaðar.

En höldum nú út í heim:

Nokkur trúnaðarbréf hafa verið afhent frá síðasta föstudagspósti. Unnur Orradóttir Ramette afhenti forseta Namibíu trúnaðarbréf sitt þann 22. ágúst síðastliðinn, Ingibjörg Davíðsdóttir afhenti Haraldi V Noregskonungi trúnaðarbréf sitt við hátíðlega athöfn í konungshöllinni í Ósló þann 28. ágúst og í gær afhenti Jörundur Valtýsson sendiherra António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. 

Gunnar Pálsson sendiherra Íslands í Brussel undirritaði milliríkjasamning Íslands, Noregs, Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um að fella niður tímatakmarkanir á leigu á flugvélum með áhöfn.

Elín Flygenring, sendiherra Íslands í Tókýó, opnaði í vikunni málstofu um formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, sem haldin var í sendiráði Íslands í Tókýó, en þar talaði sendiherra norðurslóða, Einar Gunnarsson, fyrir fullu húsi. Einar átti auk þess fundi með samstarfsaðilum Íslands um norðurslóðamál í Japan.

Sendiráð Íslands í Kampala skrifaði um miðjan síðasta mánuð undir samning við Water Mission Uganda um að veita um tíu þúsund manns aðgang að hreinu drykkjarvatni.

Sendiráð Íslands í Genf fékk góða heimsókn frá dómsmála- og félagsmálaráðuneytunum í síðasta mánuði til að sitja fyrir svörum hjá nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamismunar, byggt á skýrslu Íslands um framkvæmd mannréttindasamnings um sama efni.

Nokkrir menningarviðburðir hafa verið haldnir á vegum íslenskra sendiskrifstofa. Þannig tekur sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn þessa dagana þátt í Ungdommes Folkemøde, sem fer fram í Valby parken, ásamt sendiráði Noregs, morgunverðarviðburður var haldinn í sendiráðsbústaðnum í Helsinki í morgun í tilefni af hönnunarviku og þá sótti Estrid Brekkan, sendiherra Íslands í Stokkhólmi, Íslandsdag í Värmland safninu nýverið þar sem sendiherrann hélt fyrirlestur um Íslands og ræddi um Eddukvæðin.

Næsta vika verður ekki síður viðburðarík í utanríkisþjónustunni en á mánudag hefst 42. fundarlota  mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og síðasta reglubundna fundarlotan sem Ísland sækir sem fullgildur meðlimur ráðsins. Okkar fólk í Genf stendur vaktina. Utanríkisráðherra mun hitta forseta Indlands sem hér verður staddur í opinberri heimsókn og taka á móti starfssystkinum sínum frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum í Borgarnesi. Þingstörfin fara síðan aftur í gang með setningu Alþingis á þriðjudag þar sem ráðherra mun taka þátt í umræðu um fjárlög seinni part vikunnar. Þá mun hann einnig funda með þróunarsamvinnunefnd í næstu viku. Þess má að lokum geta að vitundarvakningin Þróunarsamvinna ber ávöxt fer fram í næstu viku en um er að ræða samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins og fjölda félagasamtaka sem starfa á vettvangi mannúðarmála og hjálparstarfa. 

Fleira var það ekki að sinni.
Góða helgi!
Uppló

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta