Föstudagspósturinn 20. september 2019
Heil og sæl.
Það er kominn föstudagur sem þýðir að langþráður föstudagspóstur er loksins kominn! Rennum yfir það helsta sem á daga okkar hefur drifið að undanförnu, bæði hér heima og í sendiskrifstofunum. Af nógu er að taka.
Í þessari viku bar hæst ferð utanríkisráðherra til Washington DC þar sem hann fundaði með þingmönnum öldunga- og fulltrúadeildar Bandaríkjaþings með það að markmiði að efla tengslin á sviði efnahags- og viðskiptamála og kynna stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.
Nóg var svo á seyði í síðastliðinni viku. Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna komu saman í Borgarnesi. Alþjóða- og öryggismál og málefni norðurslóða voru í brennidepli ásamt loftslagsmálum. Nokkrir tvíhliða fundir voru haldnir við þetta tækifæri, meðal annars með utanríkisráðherra Dana þar sem skrifað var undir samning um fyrirsvar í áritunarmálum.
Annað samkomulag á sviði áritanamála var svo undiritað á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Anumula Gitesh Sarma, skrifstofustjóra Evrópumála í utanríkisráðuneyti Indlands, þann 10. september. Samningurinn var undirritaður á Bessastöðum í tilefni af opinberri heimsókn forseta Indlands. Sama dag hitti Guðlaugur Þór viðskiptasendinefnd frá Indlandi sem kom hingað til lands með forsetanum.
Í síðustu viku fór fram vel heppnuð ráðstefna um velferð og samfélagslega þátttöku ungmenna á norðurslóðum sem haldin var í tengslum við fund vinnuhóps Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun. Af vettvangi norrænnar samvinnu má svo nefna að nýverið voru tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs kynntar.
Vika er svo síðan utanríkisráðherra mælti fyrir fjárlögum í fyrstu umræðu sem fram fór um málið. Hægt er að hlusta á umræðuna á vef Alþingis.
Íslandsstofa, sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn og Icelandic Startups stóðu fyrir þátttöku sendinefndar um 40 Íslendinga á TechBBQ, einni stærstu sprota- og fjárfestaráðstefnu í Norður-Evrópu, sem haldin var í Kaupmannahöfn í þessari viku. Á meðal þátttakenda voru fimmtán efnileg íslensk sprotafyrirtæki og fulltrúar fjögurra íslenskra fjárfestingasjóða.
Okkar fólk í Peking situr ekki auðum höndum frekar en fyrri daginn en yfir eitt þúsund vegabréfsáritanir voru gefnar út í sendiráðinu okkar þar í fyrstu viku september, sem er metfjöldi. Uppskera erfiðisins kom svo í formi keiluspils sem starfsfólkið brá sér saman í að törninni lokinni.
Í Genf stendur nú yfir fundarlota mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, sú síðasta sem Ísland tekur þátt í sem fullgildur aðili að ráðinu – að minnsta kosti að sinni. Lotunni lýkur í næstu viku. Hægt er að lesa allar ræður og ávörp Íslands á vefsvæði sendiskrifstofunnar í Genf. Á dögunum tók fastanefndin þátt í viðburði með Suður-Afríku um kyngervi og kynhneigð í samfélögum áður en þau urðu nýlendur.
Fastafulltrúi Íslands hjá ÖSE hvatti í vikunni til notkunar á jarðvarmaorku á fundi efnahags- og umhverfisvíddar ÖSE í Prag. Þá áréttaði fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum gildi alþjóðlegrar samvinnu á fundi í New York í tilefni 75 ára afmælis SÞ.
Þrír sendiherrar hafa afhent trúnaðarbréf að undanförnu. María Erla Marelsdóttir sendiherra, forseta Þýskalands trúnaðarbréf sitt þann 11. september og daginn eftir afhenti Gunnar Pálsson þjóðhöfðingjum San Marínó trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands með aðsetur í Brussel. Síðast en ekki síst afhenti Bergdís Ellertsdóttir forseta Bandaríkjanna trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.
Fastanefndin í New York tók í vikunni á móti Íslendingum sem starfa hjá Sameinuðu þjóðunum og stofnunum þess og kynnti áherslumál stjórnvalda ásamt því að fræðast um störf þessa öfluga fólks.
Samstarfsátakið „Þróunarsamvinna ber ávöxt“ náði hápunkti um miðja síðustu viku þegar fram fór málstofan „Þátttaka fyrirtækja í þróunarsamvinnu.“ Átakið er samstarfsverkefni allra helstu íslensku félagasamtakanna í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu auk utanríkisráðuneytisins.
Gunnar Pálsson, sendiherra í Brussel, ræddi um EES-samninginn frá sjónarhóli aðildarríkis á kynningardegi EFTA sem haldinn var í fyrradag.
Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra í Moskvu, opnaði í vikunni norrænar menningarvikur í St. Pétursborg. Þetta er í tíunda skipti sem þessi menningarhátíð fer fram en hún stendur yfir í rúman mánuð.
Íslenskt lambakjöt og fiskur voru í aðalhlutverki á menningarviðburðum í Nýju-Delí í vikunni sem Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra sótti.
Og talandi um (tilvonandi) lambakjöt. Ingibjörg okkar Davíðsdóttir, sendiherra í Ósló, stóð í ströngu í vikunni við að draga litlu lömbin í dilka í heimasveit sinni í Borgarfirðinum. Það verður ekki annað sagt um starfsfólk utanríkisþjónustunnar að það geti bókstaflega allt!
Í næstu viku er útlit fyrir áframhaldandi annir og má þar helst nefna ræðismannaráðstefnuna sem ræðismenn Íslands hvaðanæva að úr heiminum sækja, svo og allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York.
Bestu kveðjur frá Uppló.