Föstudagspósturinn 4. október 2019
Hálfur mánuður er liðinn frá síðasta föstudagspósti og er óhætt að segja að þessi tími hafi verið viðburðaríkur hjá okkur – rétt eins og fyrri daginn!
Hæst bar ávarp utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir sléttri viku. Í ræðunni lagði hann áherslu á baráttuna gegn hlýnun jarðar, mannréttindi og endurbætur á alþjóðakerfinu í samræmi við grunngildi Sameinuðu þjóðanna. Í tengslum við allsherjarþingið átti utanríkisráðherra fjölmarga tvíhliða fundi og undirritaði auk þess loftferðasamning við Líberíu.
Í öðrum fréttum er það helst að starfshópur skipaður af utanríkisráðherra hefur skilað skýrslu sinni um aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu á þriðjudag.
Í síðustu viku fór fram vel heppnuð tveggja daga ráðstefna utanríkisráðuneytisins fyrir kjörræðismenn Íslands á erlendri grundu. Markaðs- og kynningarstarf, menningarmál, jafnréttismál og borgaraþjónusta voru á meðal þess sem hæst bar á ráðstefnunni. Ráðstefnan, sem er sú áttunda sem haldin hefur verið, fór fram á Grand hóteli í Reykjavík.
Í tengslum við þennan viðburð var árleg Íslandsheimsókn viðskiptafulltrúa í sendiráðum Íslands erlendis. Þeir áttu m.a. fundi með íslenskum fyrirtækjum og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók á móti hópnum hér í ráðuneytinu. Íslandsstofa hafði veg og vanda af þessu.
27. september sl. lauk 42. fundarlotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf en þetta var fjórða lotan sem Ísland tekur þátt í sem aðildarríki ráðsins og jafnframt sú síðasta. Fyrr í vikunni var Ísland í hópi ríkja sem gagnrýndi ástand mannréttindamála í Sádí-Arabíu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Fastafulltrúi Ástralíu flutti ávarpið og tók þar við keflinu af fastafulltrúa Íslands sem flutti yfirlýsingu fyrir hönd hópsins fyrr á árinu og vakti heimsathygli. Hálfur mánuður er svo síðan utanríkisráðherra hitti hóp baráttufólks fyrir mannréttindum á Filippseyjum en Ísland leiddi í sumar ályktun um mannréttindaástandið þar sem samþykkt var í ráðinu.
Í gær sótti utanríkisráðherra ráðherrafund Barentsráðsins í Umeå í Svíþjóð þar sem styrking efnahagslegrar samvinnu á Barentssvæðinu var aðalumræðuefnið. Hann tók um leið þátt í ráðstefnunni EU Arctic Forum.
Og fyrr í þessari viku flutti Guðlaugur Þór ávarp á málstofu um eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sem Alþjóða- og Evrópuréttarstofnun HR, utanríkisráðuneytið, eftirlitsstofnun EFTA og sendinefnd ESB á Ísland stóðu að.
Á dögunum fundaði ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í utanríkisráðuneytinu. Um var að ræða fyrsta fund nýskipaðs ungmennaráðs en þetta er í annað sinn sem skipað er í ráðið. Í þessari viku hélt svo Ester Hallsdóttir, fyrsti ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, ræðu á allsherjarþingi SÞ. Þá er gaman að geta þess að ungmennafulltrúi Úganda heimsótti sendiráðið okkar í Kampala í vikunni.
Í nýliðnum mánuði var 21 sérfræðingur útskrifaður úr sex mánaða námi Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Þekkingarmiðstöð þróunarlanda (International Centre for Capacity Development) verður nýtt yfirheiti skólanna fjögurra sem hafa um langt árabil verið starfræktir sem skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi. Frá og með næstu áramótum bendir allt til þess að skólarnir starfi undir regnhlíf UNESCO.
Af vettvangi sendiskrifstofanna segjum við frá því að Guðni Bragason fastafulltrúi hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í Vínarborg hefur tekið við formennsku í sameiginlega samráðshópnum um Samninginn um takmörkun hefðbundins herafla í Evrópu.
Í aðdraganda allsherjarþingsins tók Ísland þátt í ráðstefnu um lausnir þar sem náttúran er nýtt til að vinna gegn loftslagsbreytingum og ræddi Jón Erlingur Jónasson, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu, mikilvægi samnings SÞ gegn eyðimerkurmyndun.
Í síðustu viku greindi sendiráðið okkar í Peking frá því að fyrsta sendingin af íslenskum laxi væri lögð af stað með flugi til Kína í kjölfar gildistöku samkomulags íslenskra og kínverskra stjórnvalda sem heimilar útflutning íslensks eldisfisks á Kínamarkað.
Sendiráð Íslands í Stokkhólmi tók þátt í evrópska tungumáladeginum og þótti þessi viðburður heppnast afar vel. Rúmlega 600 börn tóku þátt í svokölluðu tungumálakaffi 24. september og höfðu gaman af. Hin árlega bókamessa í Gautaborg fór svo fram 26.-29. september. Bókamessan í Gautaborg er einn af stærstu viðburðum ársins þegar kemur að kynningu íslenskra bókmennta og þýðingum þeirra í Svíþjóð og Skandinavíu.
Og talandi um bókmenntir. Kristján Andri Stefánsson sendiherra í París stóð fyrir skemmstu fyrir þýðendaþingi í sendiherrabústaðnum. Þingið var helgað þýðingum úr íslensku á frönsku en einnig var miðað að því að vekja áhuga á íslenskunámi og þýðendastarfinu, en einungis fáeinir þýðendur vinna að því að þýða þorra íslenskra bókmennta yfir á frönsku.
Í gær var Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra í Ósló, viðstödd setningu norska Stórþingsins og heilsaði meðal annars Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, að þingsetningu lokinni.
María Erla Marelsdóttir, sendiherra í Berlín, átti í síðustu viku fund með Wolfgang Schäuble, forseta þýska sambandsþingsins og fyrrverandi fjármálaráðherra Þýskalands.
Gestkvæmt hefur verið í sendiráðinu í Brussel í vikunni. Í gær kom þangað hópur á vegum úrskurðarnefndar velferðarmála og í dag hópur frá sýslumannsembættinu á Vesturlandi. Fengu þeir kynningu á starfsemi sendiráðsins og fastanefndarinnar.
Benedikt Jónsson, aðalræðismaður í Þórshöfn, tók á móti Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Sigrúnu Brynju Einarsdóttiu skrifstofustjóra ferðamála og nýsköpunar en þær voru í Færeyjum á Vestnorden-ráðstefnunni.
Pétur Ásgeirsson sendiherra og Jóhanna eiginkona hans tóku á móti hópi íslenskra ferðamálafrömuða sem heimsótti Kanada á vegum Íslandsstofu í vikunni. Pétur tók sig jafnframt vel út í félagsskap kanadísku riddaralögreglunnar í vikunni.
Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra og fulltrúar tíu íslenskra fyrirtækja sóttu þing um sjávarútvegsmál í Vladivostok fyrr í þessari viku. Áður hafði Berglind tekið þátt í ráðstefnunni Northern Sustainable Development Forum sem fram fór í Yakútsk í lýðveldinu Yakútíu í Síberíu. Margar skemmtilegar myndir eru á Facebook-síðu sendiráðsins í Moskvu, eins og til dæmis þessi.
Og endum þessa yfirferð á afhendingu trúnaðarbréfs af dýrari gerðinni. Helga Hauksdóttir sendiherra, afhenti Margréti Þórhildi Danadrottningu trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Danmörku við hátíðlega athöfn í Fredensborgarhöll fyrir viku. Óskum Helgu til hamingju með það!
Í næstu viku verður sitthvað á seyði. Utanríkisráðherra er í Síerra Leóne ásamt fríðu föruneyti en kemur aftur heim á fimmtudag og verður þá gestgjafi í síðdegismóttöku í tilefni Friðarráðstefnunnar, The Imagine Forum. Föstudagurinn í dagskrá ráðherra verður svo helgaður norðurslóðaveislunni Arctic Circle og þá verður að vanda mikið um dýrðir!
Bestu kveðjur frá Uppló.