Föstudagspósturinn 25. október 2019
Heil og sæl.
Hálfur mánuður er liðinn frá síðasta föstudagspósti og full ástæða til að taka saman það helsta sem borið hefur til tíðinda hér heima og heiman síðan þá.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sótti fyrir skemmstu ársfundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington DC. Ráðherra tók meðal annars þátt í fundum þróunarnefndar Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir hönd kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna en Ísland leiðir kjördæmið um þessar mundir.
Fáeinum dögum áður var mikið um dýrðir í Berlín þegar því var fagnað að tuttugu ár eru liðin frá formlegri opnun norrænu sendiráðsbygginganna í Berlín. Guðlaugur Þór setti afmælishátíðina sem utanríkisráðherrar hinna norrænu ríkjanna og Þýskalands sóttu. Talsvert var fjallað um þennan viðburð, meðal annars í bráðskemmtilegri grein á mbl.is. Við bjuggum til stutt myndband af þessu tilefni þar sem fimmarmaskóflan skemmtilega kom við sögu.
Íslandsstofa kynnti á miðvikudag nýja stefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning. Utanríkisráðherra flutti ræðu á fundinum þar sem stefnan var kynnt. Utanríkisráðherra tók svo þátt í kynningarfundi um stefnuna á Egilsstöðum á fimmtudag.
Uppbyggingarsjóður EES var á dagskrá alþjóðlegrar tveggja daga hitaveituráðstefnu Samorku í lok þessarar viku. Guðlaugur Þór Þórðarson opnaði ráðstefnuna en Þórir Ibsen sendiherra og stjórnamaður Íslands í Uppbyggingarsjóðnum flutti erindi um sjóðinn og stuðning hans við verkefni á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og þá sérstaklega nýtingu á jarðvarma.
Skemmst er svo að minnast vel heppnaðs Hringborðs norðurslóða. Utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytið tóku virkan þátt í ráðstefnunni og átti Guðlaugur Þór auk þess fundi með nokkrum þeirra ráðherra, þingmanna og annarra stjórnmálamanna sem hana sóttu.
Fulltrúar Barnaheilla, Save the Children, afhentu utanríkisráðherra áskorun í vikunni um að stöðva stríð gegn börnum.
Davíð Logi Sigurðsson hélt ræðu Íslands í mannréttindanefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna á þriðjudag þar sem fram fór almenn umræða um ástand mannréttinda í heiminum. Á fimmtudag tók svo fastanefndin þátt í almennri umræðu í mannréttindanefndinni með Victor Madrigal-Borloz, sérfræðingi Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn ofbeldi og mismunun byggðri á kynhneigð og kynvitund fólks.
Okkar fólk í sendiráði Íslands í Tókýó hafði í nógu að snúast í vikunni þegar íslensku forsetahjónin, þau Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, komu í opinbera heimsókn. Forseti var í vikunni viðstaddur krýningu nýs Japanskeisara við hátíðlega athöfn í Tókýó og átti auk þess fundi með þarlendum ráðamönnum.
Í vikubyrjun var forsetinn svo í Vínarborg þar sem hann sótti frumsýningu á leikverkinu Edda eftir Mikael Torfason undir leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar í Burgtheater í Vínarborg. Guðni Bragason, fastafulltrúi í Vínarborg, hélt hádegisverðarboð til heiðurs forseta daginn eftir frumsýninguna.
Ráðstefnan Our Ocean var haldin fyrr í vikunni í Osló. Ingibjörg Davíðsdótti sendiherra stjórnaði vel sóttum pallborðsumræðum á hliðarviðburði á vegum Norðurskautsráðsins en á meðal ræðumanna voru þeir Stefán Skjaldarson og Magnús Jóhannesson.
Harald Aspelund, fastatrúi Íslands og varaforseti mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, tók þátt í fundi aðildarríkjanna í Senegal í vikunni. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur fundur er haldinn í Afríku og þykir marka tímamót í sögu ráðsins. Lögð var áhersla á áhrif loftslagsbreytinga og fólksflutninga á mannréttindi.
Á miðvikudag undirritað Gunnar Pálsson sendherra í Brussel samning ESB, Íslands og Noregs um aðgang að fingrafaragagnagrunni sambandsins (Eurodac) til að bera kennsl á hælisleitendur og einstaklinga sem koma ólöglega yfir landamæri. Vonir eru við það bundnar að samningurinn efli lögregluyfirvöld í baráttunni gegn hryðjuverkaógn og alvarlegum glæpum.
Á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem fastafulltrúi Íslands stýrði í vikunni, kom fram að svokallaður upptökuhalli fyrir ESB gerðir í EES samninginn hefur ekki verið lægri frá 2015 og hefur hann dregist saman um næstum þriðjung frá upphafi þessa árs. Á fundinum var m.a. samþykkt að taka upp í EES-samninginn gerðir sem kveða á um aukið samstarf ESB, Noregs og Íslands í loftslagsmálum.
Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra í Moskvu, kynnti tækifæri í íslenskri nýsköpun á fundi með sendiherrum Norðurlanda í vikunni. Skömmu áður hafði Sigríður Ingvarsdóttir, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, undirritað viljayfirlýsingu um samtarf við rússnesku Skolkovo-stofnunina og kom okkar fólk að sjálfsögðu þar að málum.
María Erla Marelsdóttir, sendiherra í Berlín, opnaði um síðustu helgi norræna listasýningu sem ber yfirskriftina Ocean Dwellers. Hún fer fram í Felleshus, sameiginlegri menningarmiðstöð Norðurlanda í þýsku höfuðborginni og eru þær Rúrí og Hulda Rós Guðnadóttir fulltrúar Íslands. Í Genf hefur fastafulltrúi Íslands sett upp sýningu í sendiherrabústaðnum sem spyr margra áleitinna spurninga um mannréttindi okkar, mannúð, sjálfsmynd og samkennd. Og menningin var líka í öndvegi vestanhafs í vikunni þegar sendiherrahjónin í Ottawa buðu til tónlistarviðburðar skipulögðum af Friends of the National Arts Center.
Í næstu viku tekur svo sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn þátt í dagskrá Arktisk Festival en hátíðin samanstendur af fjölbreyttum menningarinnslögum um Norðurskautið. Í borginni er nýlokið norrænni menningarnótt sem okkar fólk tók að sjálfsögðu þátt í.
Og talandi um vikuna sem nú er handan við hornið (mánaðarmótin, tíminn flýgur!) þá sækir utanríkisráðherra Norðurlandaráðsþing í Stokkhólmi 29.-31. október. Á fimmtudag er hann svo gestgjafi í síðdegismóttöku í tilefni Gender Equality jafnréttisráðstefnunnar sem nú stendur fyrir dyrum. Á föstudaginn stendur svo til að utanríkisráðherra og sendiherra Rússlands undirriti samkomulag um stofnun rússnesks-íslensks viðskiptaráðs. Um kvöldið tekur hann svo þátt í beinni sjónvarpsútsendingu á fræðslu- og söfnunarþætti UN Women á Íslandi.
Í síðasta föstudagspósti vöktum við athygli á nýjum kunningjum, þeim Brynjari og Guðnýju. Nú hafa fleiri bæst í hópinn, þau Klara og Hannes. Þá hvetjum við ykkur öll til að skoða afar vönduð myndbönd sem Gunnar Salvarsson hefur gert um ferð utanríkisráðherra til Síerra Leóne á dögunum.
Ljúkum þessari yfirferð með kveðju frá Ósló. Þar kann fólk að lyfta sér upp – eða öllu heldur lyfta sendiherra upp!