Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2019 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 15. nóvember 2019

Heil og sæl.

Hálfur mánuður er liðinn frá síðasta föstudagspósti og því hefur eitt og annað safnast í sarpinn á þeim tíma.

Byrjum á glænýrri frétt frá New York. Ályktun um alþjóðlegan jafnlaunadag, sem Ísland var í forystu fyrir, var samþykkt einróma í mannréttindanefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York í dag.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók þátt í samtalsfundi Íslandsstofu og utanríkisráðuneytsins í menningarhúsinu Hofi á Akureyri á miðvikudaginn þar sem samstarf og þjónusta við íslenska útflytjendur var á dagskránni. Þá flutti ráðherra ræðu á ráðstefnu í tilefni af alþjóðadegi millilandaráðanna í vikunni en hún var liður í samstarfi utanríkisráðuneytisins og millilandaráðanna.

Í síðustu viku fór Guðlaugur Þór ásamt viðskiptasendinefnd skipaða fjörutíu fulltrúum frá þrjátíu íslenskum fyrirtækjum til San Francisco í Kaliforníu. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um efnahagsþróun, nýsköpun og tæknigeirann í Bandaríkjunum og koma á tengslum við fyrirtæki og fjárfesta á vesturströndinni. Aðalræðisskrifstofan í New York hafði veg og vanda af skipulagningunni.

Íslensk og bresk stjórnvöld hafa komist að samkomulagi um fólksflutninga milli ríkjanna eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB) og Evrópska efnahagssvæðinu (EES), fari svo að útgangan verði án samnings við ESB. Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu samkomulagið í utanríkisráðuneytinu þann 4. nóvember.

Fulltrúar Íslands áréttuðu áform ríkisstjórnarinnar um auknar aðgerðir á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðis á alþjóðaráðstefnu um mannfjölda og þróun í Naíróbí í Kenya sem, fram fór í vikunni. Á fundum þeirra samhliða ráðstefnunni voru jafnréttis- og heilbrigðismál í brennidepli.

Nóg er að frétta af vettvangi sendiskrifstofanna. Þannig var fyrsta vika nóvembermánaðar sértaklega annasöm hjá fulltrúum íslenskra stjórnvalda sem sóttu ýmsa fundi í Washington. Þar bar hæst árlegt samráð Bandaríkjanna og Íslands á sviði alþjóða- og öryggismála, samráðsfund EFTA ríkjanna og aðalsamningamanns Bandaríkjaforseta (US Trade Representative) og ýmsa fundi með bandarískum stjórnmála- og embættismönnum.

Í dag var haldið að frumkvæði Íslands, sem gegnir nú formennsku í EES/EFTA samstarfinu, málþing í Brussel um tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Tilefnið var meðal annars 25 ára afmæli samningsins.

Ný ræðisskrifstofa Íslands í Vilníus, Litáen, var opnuð við hátíðlega athöfn á þriðjudag í síðustu viku. Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands gagnvart Litáen, opnaði skrifstofuna formlega að viðstöddum fjölda gesta og naut aðstoðar nýs ræðismanns, Dalius Radis, og Arunas Jievaltas sendiherra og yfirmanns ræðismála í utanríkisráðuneyti Litáen. Árni Þór flutti svo fyrirlestur við alþjóðamálastofnun Vilníusarháskóla um áhrif smáríkja.

Unnur Orradóttir Ramette afhenti í dag forseta Eþíópíu trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands með aðsetur Kampala í Úganda. Síðdegis afhenti Unnur svo framkvæmdastjóra Afríkusambandsins trúnaðarbréf sitt. Fyrir skemmstu hélt Unnur svo ræðu á ráðstefnu um Norðurlönd og grænar orkulausnir og orkuskipti sem fram fór í Addis Ababa.

Í vikunni var átakshópnum International Gender Champions hleypt af stokkunum í París að viðstöddum Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Kristjáni Andra Stefánssyni sendiherra sem tók þátt í pallborðsumræðum af þessu tilefni.

Jafningarýni mannréttindaráðsins fór af stað af krafti með rýni á stöðu mannréttinda á Ítalíu í vikubyrjun en sem fyrr er Ísland með tilmæli til allra ríkja með áherslu á afnám dauðarefsinga, jafnrétti kynjanna og réttindi LGBTI einstaklinga. Þannig setti Ísland fram afgerandi tilmæli til Írans við hvað varðar dauðarefsingar, réttindi kynjanna og réttindi LGBTI einstaklinga.

Nokkrum dögum fyrr sótti fulltrúi Íslands í Genf fund fjallahópsins svonefnda, sem eru líkt þenkjandi ríki í alþjóðasamstarfi, en hann fór fram í Liechtenstein.

Nokkur þessara ríkja, þar á meðal Ísland, voru einmitt aðilar að yfirlýsingu um að stöðva refsileysi fyrir afbrot gegn fjölmiðlafólki á fastaráðsfundi ÖSE á dögunum. Noregur flutti yfirlýsinguna fyrir hönd ríkjanna.

Í jómfrúarræðu sinni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna mælti Ragnar Þorvarðarson fyrir ályktun um aðild Íslands að stjórn (ExCom) Flóttamannastofnunar SÞ.

Sendiherra Íslands, Estrid Brekkan, átti í fyrradag góðan fund með fulltrúum sænska þingsins á þingmannaráðstefnu um norðurslóðamál þar sem rætt var um framvindu formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og samvinnu um málefni norðurslóða.

Alþjóðleg vörusýning helguð innflutningi til Kína, China International Import Expo, var haldin í annað sinn í Shanghai dagana 4.-9. nóvember sl. Þjóðarleiðtogar víðs vegar að sóttu opnunarviðburð sýningarinnar í ár og var Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra á meðal gesta fyrir Íslands hönd.

Íslensk viðskiptanefnd undir forystu Sigríðar Snævarr sendiherra heimsótti í vikunni Singapúr og kínversku borgina Shenzhen til að kynna íslensk sprotafyrirtæki og það sem þau hafa fram að færa.

María Erla Marelsdóttir, sendiherra í Berlín, opnaði kaupstefnuna Krankenhaus Karawan í Berlín í síðustu viku þar sem norræn sprotafyrirtæki í heilbrigðisgeiranum kynntu vörur sínar og þjónustu.

Okkar fólk í Lundúnum ásamt fulltrúum Íslandsstofu létu sig ekki vanta á ferðakaupsstefnuna World Travel Market sem fram fór í borginni 4.-6. nóvember. Síðar í sömu viku stóð sendiráðið okkar í Stokkhólmi vaktina á Travel News Market fyrir hönd Íslandsstofu og kynnti land og þjóð fyrir áhugasömum aðilum úr ferðamálaiðnaðinum.

Í gær bauð Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra í Ósló, til móttöku í embættisbústaðnum í tilefni dags íslenskrar tungu. Barnabókahöfundurinn Áslaug Jónsdóttir og íslandsvinurinn og rithöfunduinn Mette Karlsvik héldu erindi um verkin sín.

Sendiráð Íslands í Tókýó, í samstarfi við einn stærsta bókaútgefanda Japans og útgáfufélagið Twin Engine, hélt á dögunum málstofu í Rikkyo-háskóla í Tókýó um íslenskar fornbókmenntir og áhrif þeirra á japanska myndasögu- og teiknimyndahefð.

Í gær fór fram kynning á skýrslu um stöðu norrænna feðra á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og UN Women í UN City í Kaupmannahöfn. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og faðir fimm barna, ræddi um stöðu íslenskra feðra, feðraorlof og staðalímyndir.

Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Washington, var gestur í morgunþætti ABC7-sjónvarpstöðvarinnar á dögunum þar sem hún ræddi um Ísland, utanríkismál, hlutverk diplómata í breyttum heimi og mikilvægi samstarfs.

Í vikunni greindi Heimsljós frá jákvæðum niðurstöðum óháðrar lokaúttektar á svæðaverkefni sem Ísland leiddi í jarðhitamálum í Austur-Afríku. Að venju er Heimsljós annars fullt af áhugaverðum fréttum um þróunar- og mannúðarmál.

Utanríkisráðherra situr ekki auðum höndum á næstunni frekar en vanalega. Í næstu viku sækir hann fundi EES-ráðsins í Brussel og fund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins. Í síðustu viku nóvember fer ráðherra til fundar við Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Svo heldur hann til Parísar þar sem þau framkvæmdastjóri UNESCO undirrita samkomulag sem kveður á um að Þekkingarmiðstöð þróunarlanda, sem hlotið hefur nafnið Gró, verður gerð að svokallaðri Category 2 miðstöð undir merkjum UNESCO. Í sömu viku sækir hann einnig fund í Helsinki á vegum finnsku formennskunnar í ESB sem ber yfirskriftina Clean and Global North.

Fleira er það ekki að sinni. Bestu kveðjur frá upplýsingadeild UTN!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta