Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 14. febrúar 2019

Rauð viðvörun – föstudagspóstur!

Heil og sæl.

Við heilsum ykkur í sólskinsskapi á þessum illviðrisdegi til að kynna ykkur það helsta sem drifið hefur á daga utanríkisþjónustunnar undanfarinn hálfan mánuð.

Mánuðurinn byrjaði á tíðindum úr norrænu samvinnunni en Ísland lét af formennsku í henni nú um áramótin. 4. febrúar kom út skýrsla um stöðu Norðurlanda (State of the Nordic Region 2020) á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og tveimur dögum síðar kom út önnur skýrsla um störf Norrænu ráðherranefndarinnar og samantekt um formennskuár Íslands.

Fyrir skemmstu var tilkynnt að Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefði ákveðið flutninga forstöðumanna sendiskrifstofa í utanríkisþjónustunni sem taka gildi á komandi sumri. Breytingarnar snúa að sendiskrifstofunum í Stokkhólmi, Helsinki og Moskvu og fela ekki í sér skipan nýrra sendiherra heldur tilfærslu á þeim sem fyrir eru.

Íslensk stjórnvöld hafa uppi umtalsverðan viðbúnað vegna kórónaveirunnar COVID-19 og hefur utanríkisþjónustan tekið virkan þátt í þeirri vinnu. Fulltrúar hennar sitja í viðbragðshópi stjórnvalda og borgaraþjónusta á í daglegu samráði við borgaraþjónustur Norðurlandanna.

Utanríkisráðherra hefur verið á ferð um landið með þingflokki Sjálfstæðisflokksins undanfarna daga en ítarlega er sagt frá þessu ferðalagi á Facebook-síðu ráðherra, meðal annas í skemmtilegum myndböndum. Og talandi um myndbönd þá heimsótti ráðherra fyrirtækið Pure North Recycling í Hveragerði í upphafi mánaðar en þar er unnið mikilvægt frumkvöðlastarf á sviði plastendurvinnslu. Myndband úr heimsókninni vakti verðskuldaða athygli.

Sendiráð Íslands í Nýju-Delí opnaði fyrr í þessum mánuði fyrir móttöku umsókna um Schengen-vegabréfsáritanir til Íslands í þremur indverskum borgum. Samtals er því tekið við umsóknum í níu borgum í landinu. Í því sambandi má svo nefna að Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra í Washington, undirritaði á dögunum samkomulag við VFS-þjónustufyrirtækið um móttöku umsókna Schengen-áritana þar í landi.

Það var mikið um dýrðir í Felleshus, menningarmiðstöð norrænu sendiráðanna í Berlín, þegar sýningin „Hafið – Reflections of the Sea“ var opnuð þar í gærkvöld. Þar eru til sýnis listaverk á fjórða tug íslenskra listamanna sem á einn eða annan hátt eru tengd hafinu og vörur  frumkvöðla á sviði sjálfbærrar nýtingar sjávarafurða.

Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra afhenti í gær Sooronbay Jeenbekov, forseta Kirgistans, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands með aðsetur í Moskvu.

Þetta var ekki eina trúnaðarbréfsafhendingin því 12. febrúar afhenti Ingibjörg Davíðsdóttir forseta Grikklands, Prokopis Pavlopoulos, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Grikklandi með aðsetur í Ósló við hátíðlega athöfn í forsetahöllinni í Aþenu.

Fyrr í mánuðinum hafði okkar fólk í Ósló í nógu að snúast þegar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra kom í tveggja daga heimsókn vegna leiðtogafundar EFTA-ríkjanna í EES og tvíhliða fundar með norska forsætisráðherranum.

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Lundúnum, fór ásamt föruneyti til Humberside-svæðisins en þangað fer stór hluti þess íslenska sjávarafla sem seldur er til Bretlands. Stefán hitti þar stjórnmálamenn og forkólfa atvinnulífsins á svæðinu til að styrkja enn frekar gott samband Íslands við þennan mikilvæga útflutningsmarkað. Fiskifréttir fjölluðu um þessa heimsókn og viðræðurnar sem eru framundan við Breta með fróðlegu viðtali við Stefán.

Kristján Andri Stefánsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart OECD, tilkynnti um stuðning Íslands við ákall OECD til aðgerða vegna ofbeldis í nánum samböndum. Ákallið er afurð ráðstefnu sem stofnunin stóð fyrir um aðgerðir til þess að binda endi á heimilisofbeldi.

Sendiráð Íslands, í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands og Stockholm Design Event, stóð fyrir viðburði undir yfirskriftinni Design Diplomacy í tengslum við hönnunarviku í Stokkhólmi sem fór fram dagana 3.-9. febrúar.

Málefni hafsins skipa veigamikinn sess í starfi fastanefndarinnar í New York og á dögunum fór þar fram undirbúningsfundur vegna Hafráðstefnu SÞ um framkvæmd heimsmarkmiðs 14 í Lissabon sem fram fer í júní. Jón Erlingur Jónasson, skrifstofustjóri tvíhliða samstarfs og svæðisbundinna málefna, var á meðal þeirra sem tók þátt. Okkar fólk í fastanefndinni hefur annars ekki slegið slöku við eins og þessi yfirlitsfrétt um janúarmánuð sýnir glöggt.

Möguleikinn á að uppfæra fríverslunarsamning EFTA ríkjanna og Kanada var ræddur á fundi ríkjanna í Ottawa í gær. Harald Aspelund fastafulltrúi í Genf leiddi fundinn fyrir hönd EFTA ríkjanna. Harald tók fyrr í mánuðinum við formennsku Vesturlandahópsins í mannréttindaráðinu fyrir árið 2020 af Julian Braithwaite fastafulltrúa Breta og fjallgöngufélaga. Þá tók Harald nýverið þátt í sérstakri umræðu sem fram fór í Genf um réttinn til heilnæms umhverfis og mikilvægi þess að hann sé viðurkenndur alþjóðlega.

Átján framlagsríki sem styðja við bakið á UN Women komu saman í Helsinki 4. febrúar með Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastýru UN Women. Phumzile þakkaði Íslandi fyrir dyggan stuðning, hrósaði starfi landsnefndarinnar sem væri á heimsmælikvarða og fyrir framlag Íslands til að hvetja menn og drengi til að taka aukinn þátt í jafnréttismálum.

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra í Helsinki, bauð NB8-kollegum sínum í borginni til fundar þar sem Li Andersson menntamálaráðherra var sérstakur gestur.

Fyrsti fundur sameiginlegu EES nefndarinnar á nýju ári fór fram 6. febrúar en við það tækifæri voru 62 gerðir teknir upp í EES samninginn. Daginn áður fór fram fyrsti fundur fastanefndar EFTA á nýju ári en fundir hennar eru til undirbúnings fundum sameiginlegu EES nefndarinnar.

Í upphafi mánaðar kom Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA í heimsókn til Brussel og átti fund með fastanefnd og hitti auk þess fulltrúa fagráðuneytanna.

Sendiráð Íslands, í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands og Stockholm Design Event, stóð fyrir viðburði undir yfirskriftinni Design Diplomacy í tengslum við hönnunarviku í Stokkhólmi sem fór fram dagana 3.-9. febrúar.

Okkar fólk í sendiráðinu í Ottawa tók þátt í vetrarhátíð sem haldin var í Rideau Hall, embættisbústað kanadíska landstjórans, og bauð þar upp á ilmandi íslenska kjötsúpu. Sendiráðið fékk svo góða heimsókn í lok janúar frá nemendum við Washington-háskóla sem skipa svokallað Arctic Task Force 2020.

Nemendur við máladeild Menntaskólans í Reykjavík voru svo á ferðinni fyrir skemmstu og heimsóttu sendiráðið okkar í Kaupmannahöfn. Stutt er síðan máladeildin kom í utanríkisráðuneytið þannig að þessi hópur er orðinn gjörkunnugur starfsemi okkar.

Norræna félagið á Norður-Fjóni hélt upp á 75 ára afmæli sitt um mánaðamótin. Helga Hauksdóttir sendiherra hélt af því tilefni erindi um mikilvægi norrænnar samvinnu á sviði menntamála, rannsókna, vísinda, menningar og tungumála.

Þess var minnst í vikunni að 29 ár eru síðan Alþingi samþykkti þingsályktun um að viðurkenning ríkisstjórnarinnar frá 1922 á sjálfstæði lýðveldisins Litáens væri enn í fullu gildi. Með þessu varð Ísland fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Litáens frá Sovétríkjunum.

Eystrasaltsríkin verða einmitt í brennidepli í næstu viku því þá heimsækir utanríkisráðherra Lettland og Eistland. Að öðru leyti er dagskráin hefðbundin með ríkisstjórnarfundi á föstudag og öðru tilfallandi.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta