Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 21. febrúar 2020

Heil og sæl.

Enn einn föstudagurinn er runninn upp – og þar með einn föstudagspóstur til.

Ferðalag Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra til Lettlands og Eistlands setti einna mestan svip á vikuna. Öryggis- og alþjóðamál, tvíhliða samskipti og málefni norðurslóða voru efst á baugi á fundi þeirra Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands, í Ríga á þriðjudag. Daginn eftir hittust þeir Urmas Reinsalu, utanríkisráðherra Eistlands, í Tallinn þar sem öryggis- og alþjóðamál (einkum netvarnir), tvíhliða samskipti, norðurslóðamál og þróunarsamvinna voru helstu umræðuefnin. Utanríkisráðherra sagði frá heimsóknunum í myndbandi á Facebook.

Vikan hófst á útgáfu skýrslunnar Ísland í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Niðurstaða hennar er að markmiðin sem lagt var upp með í tengslum við fulla aðild Íslands að mannréttindaráðinu hafi náðst í öllum aðalatriðum. Talsvert var fjallað um útkomu skýrslunnar í fjölmiðlum, meðal annars af fréttastjóra Stöðvar 2 og ritstjóra Fréttablaðsins.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins og sendiskrifstofurnar í Peking og París, í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið, sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, unnu í samstilltu átaki að heimflutningi íslenskrar fjölskyldu frá Wuhan í Kína í dag.

Á þriðjudaginn tók Harald Aspelund fastafulltrúi Íslands hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) upp á fundi í Genf að Evrópusambandsríkin legðu tolla á íslenskan fisk á meðan önnur ríki fengju tollfrjálsan aðgang fyrir sínar sjávarafurðir.

Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins átti fundi með yfirmönnum tveggja alþjóðastofnana í Vínarborg í vikunni, annars vegar aðalframkvæmdastjóra Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) og hins vegar aðalframkvæmdastjóra skrifstofu samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopnum (CTBTO).

Þórir Ibsen, sendiherra og Ögmundur Hrafn Magnússon, sérfræðingur á viðskiptaskrifstofu, kynntu nú í vikunni fyrir aðildarfélögum SA og Fiskifélaginu samningsmarkmið og fyrirkomulag samningaviðræðnanna við Bretland.

Síðastliðinn mánudag kom Andre Lanata hershöfðingi í heimsókn í utanríkisráðuneytið og fundaði með starfsfólki öryggis- og varnarmálaskrifstofu. Lanata er Supreme Allied Commander Transformation, annar tveggja æðstu yfirmanna herafla Atlantshafsbandalagsins, og er aðsetur hans í Norfolk.

Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra afhenti fyrr í þessum mánuði Bidhya Devi Bhandari, forseta Nepals, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Nepal með aðsetur í Nýju-Delí á Indlandi. Afhendingin fór fram í höfuðborginni Katmandú við hátíðlega athöfn.

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands gagnvart UNESCO, hefur tekið við stöðu annars tveggja formanna sérstaks vinnuhóps fastafulltrúa gagnvart UNESCO um jafnréttismál (Friends of Gender).

Á stjórnarfundi UN Women fyrir viku hvatti Inga Dóra Pétursdóttir, fulltrúi alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins, stjórnina til að auka áherslu á störf landsnefnda í bæði málefnastarfi og fjáröflun UN Women.

Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í Kampala, skrifaði nýverið undir viljayfirlýsingu fyrir hönd Háskóla Íslands og Jafnréttisskólans (GEST), sem er hluti af GRÓ - Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, um aukið samstarf milli Háskóla Íslands og Makerere-háskólans í Kampala, Úganda. Samstarfið nær til nemendaskipta, samvinnu um rannsóknir, útgáfu fræðigreina og margt fleira.

Á miðvikudag skrifuðu svo fulltrúar utanríkisþjónustunnar undir samkomulag við UNICEF í Úganda um stuðning við uppbyggingu á sviði vatns- og fráveitumála í skólum og heilsugæslustöðvum í Suður-Súdan.

Fyrir viku áttu norrænir sendiherrar í Úganda fund með Yoweri Musaveni, forseta Úganda, til að ræða innlend og svæðisbundin málefni. Kom í hlut sendiherra Íslands að fjalla um Austur-Afríkubandalagið (East African Community) og aukið samstarf og samruna Afríkuríkja.

Norrænir sendiherrar í Ósló, þar á meðal Ingibjörg Davíðsdóttir, hittust svo í vikunni í sænska sendiráðinu. Sérstakur gestur var varnarmálaráðherra Noregs, Frank Bakke-Jensen. Á fundinum var m.a. rætt um mikilvægi norrænnar samvinnu og varnarmál á norðurslóðum.

Og sendiherrar Norðurlanda í Japan hittust á dögunum í sendiráði Íslands í Tókýó á reglulegum samráðsfundi. Samráð sendiherranna er mikilvægur hluti af fjölbreyttu málefnasamstarfi Norðurlandanna í Japan eins og víða annars staðar.

Elín Flygenring, sendiherra Íslands í Tókýó, var fyrir skemmstu aðalfyrirlesari á ráðstefnu kvenleiðtoga sem haldin var af stærstu frétta- og upplýsingaveitu Japans, Nikkei Group. Elín tók svo þátt fyrir Íslands hönd í alþjóðlegu orkídeusýningunni Japan Grand Prix International Orchid and Flower Show 2020 sem fram fór dagana 13.-21. febrúar.

Fulltrúar sendiráðs Íslands í Moskvu funduðu með fulltrúum rússneska efnahagsþróunarráðuneytisins til að undirbúa fund um tvíhliða viðskipti sem haldinn verður í Reykjavík í næsta mánuði.

Í vikunni var opnuð ljósmyndasýning fyrir utan höfuðstöðvar UNESCO á eldfjallamyndum meðal annars myndir frá Lakagígum og Elliðaey. Af þessu tilefni bauð Kristján Andri Stefánsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands gagnvart UNESCO, til móttöku.

Í næstu viku hefst fyrsta fundalota ársins í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tekur þátt í ráðherravikunni 24.-25. febrúar. Á miðvikudaginn er stefnt að því að undirrita samstarfssamning stjórnvalda við Íslandsstofu og sama dag kveður hann Kitagawa, fráfarandi sendiherra Japans á Íslandi, með hádegisverði.

Vekjum loks athygli á ráðstefnunni Ný verkefni NATO - NATO Talks á mánudaginn þar sem á meðal frummælenda eru borgaralegir sérfræðingar sem starfað hafa á vegum Íslensku friðargæslunnar erlendis. Þá má minna á ráðstefnu Þjóðaröryggisráðs um fjölþáttaógnir (e. hybrid threats) í Hátíðasal Háskóla Íslands fimmtudaginn 27. febrúar frá kl. 13:00-17:00. Ráðstefnan fer fram á ensku og er opin öllum á meðan húsrúm leyfir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta