Hoppa yfir valmynd
07. mars 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur - á laugardegi 7. mars 2020

Heil og sæl.

Kórónaveiran er ofarlega í huga margra þessa stundina og hvað utanríkisþjónustuna varðar þá liggur sá bolti að stórum hluta til hjá borgaraþjónustunni sem tekur þeim málum föstum og yfirveguðum tökum. Við bendum á að allar helstu og nýjustu upplýsingar er að finna á vef landlæknis hverju sinni. Utanríkisþjónustan fylgist vel með viðbrögðum annarra ríkja og alþjóðastofnana sem margar hafa gripið til þess að aflýsa stærri fundum sem voru á dagskrá á næstu vikum. Hefðbundin störf utanríkisþjónustunnar eru þó að mestu með óbreyttu sniði.

Segja má að vikan hafi farið af stað með látum því á mánudag voru drög að frumvarpi til breytinga á lögum um utanríkisþjónustu birt í samráðsgátt stjórnvalda og gerði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra grein fyrir markmiðum sínum hvað þetta varðar í Morgunblaðinu sama dag. Breytingarnar miða að því að koma á fastari skipan við val á sendiherrum til framtíðar með því að setja þak á fjölda sendiherra, afnema almenna undanþágu frá auglýsingaskyldu og lögfesta sérstakar hæfniskröfur. Þá eru sérstökum sendiherraskipunum sett takmörk, sveigjanleiki utanríkisþjónustunnar aukinn og tækifærum fyrir yngra fólk fjölgað.

Guðlaugur Þór ræddi einnig skýrslu ráðuneytisins um Ísland í mannréttindaráðinu í utanríkismálanefnd, á Alþingi  og á Morgunvakt Rásar 1 í vikunni. Skýrslan hlaut góðar viðtökur á Alþingi og er þar mikill stuðningur við áframhaldandi virka þátttöku Íslands á vettvangi ráðsins. Fundalota mannréttindaráðsins sem stendur einmitt yfir í Genf þessa dagana og nýverið var formennsku Íslands í Vesturlandahópnum hleypt af stokkunum en hópurinn á með sér gott samráð um málefni ráðsins.

Þá var nokkuð fjallað um málefni unga fólksins í vikunni. Guðlaugur Þór flutti ávarp um mikilvægi alþjóðlegs samstarfs fyrir framtíð ungs fólks á ráðstefnunni Planet Youth í vikunni. Meginviðfangsefni ráðstefnunnar eru lýðheilsa ungmenna sem einnig var til umfjöllunar í Vín í vikunni.  Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði einnig frá þátttöku forsætisráðherra og tveggja fulltrúa ungmennaráðs heimsmarkmiðanna á ráðherrafundi um heimsmarkmiðin síðasta sumar í pallborði UNICEF sem fram fór í síðustu viku.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York var annars mikið rætt um jafnréttismál og í skýrslu UNICEF, UNWomen og Plan International var farið yfir framfarir undanfarinna 25 ára og þær áskoranir sem enn eru fyrir hendi í jafnréttisbaráttunni. Jafnréttismálin voru raunar víða til umfjöllunar í aðdraganda alþjóðlegs baráttudags kvenna sem er á sunnudag, 8. mars. Forsætisráðherrar Norðurlandanna birtu grein á CNN og fjallað var um góðan árangur Norðurlanda í stórblaðinu Figaro í vikunni þar sem vitnað var í Kristján Andra Stefánsson, sendiherra í París. Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra í Washington, tók þátt í málstofu Women & Politics Institute í American University ásamt sendiherrum Óman, Rúanda og Afganistan, og Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í Kampala tók þátt í hátíðarhöldum heimamanna af þessu tilefni. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í London, flutti erindi um hnitmiðaðar aðgerðir Íslands í jafnréttismálum á kvennadagsfundi Women Leaders Association. Þær aðgerðir voru einnig til umræðu í pallborðsumræðum um konur í stjórnmálum á árlegri ráðstefnu CEPS í Brussel þar sem fulltrúi upplýsingadeildar ráðuneytisins tók þátt.

Í fjórða skiptið í röð lækkaði innleiðingarhalli Íslands samkvæmt frammistöðumati Eftirlitsstofnunar EFTA sem er til marks um þá miklu áherslu sem hefur verið lögð á bætta framkvæmd EES-samningsins. Hagsmunagæsla á vettvangi EES er viðvarandi verkefni eins og stjórnmálafræðinemar fengu að heyra um þegar þeir heimsóttu sendiráð Íslands í Brussel í vikunni. Það var raunar nóg um að vera í Brussel en í fjarveru dómsmálaráðherra sat Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands í Brussel, fund innanríkis- og dómsmálaráðherra ESB og Schengen-ríkja utan ESB þar sem fjallað var um ástandandið á landamærum Evrópusambandsins og Tyrklands. Lilja Borg Viðarsdóttir var fulltrúi dómsmálaráðuneytisins. Á fundinum lögðu ráðherrarnir áherslu á samstöðu og festu í starfi aðildarríkjanna, en af hálfu framkvæmdastjórnarinnar var einnig undirstrikað að halda yrði áfram þreifingum gagnvart Tyrkjum í því skyni að finna diplómatíska lausn á ástandinu. 

Á Norðurlöndum var nóg um að vera. Í Osló tók Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra þátt í undirritunarathöfn um breytingar á stofnsamþykkt Norræna fjárfestingarbankans (NIB). Markmið Norræna fjárfestingabankans er að stuðla að velmegun og sjálfbærni á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu var á dagskrá sænska þingsins í síðustu viku þar sem Jón Erlingur Jónasson, skrifstofustjóri tvíhliða og svæðisbundinna málefna, fór yfir helstu áherslur. Yfirskrift íslensku formennskunnar er „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“ og vísar til þess að meginviðfangsefni ráðsins krefjist samvinnu yfir landamærin og að starf ráðsins hefur frá upphafi snúist öðru fremur um að tryggja sjálfbæra þróun á svæðinu. Þá tekur sendiráðið í Kaupmannahöfn nú þátt í undirbúningi fundar um viðskiptaumhverfi og tækifæri á Íslandi sem fram fer í Arctic Institut 17. mars nk. og er skráning á fundinn opin öllum.

Í Moskvu opnaði Berlind Ásgeirsdóttir sendiherra sýningu Reinars Foreman, ungs íslensks málara í Fine Art Gallery, Winzaod í Moskvu. Reinar er yngsti málarinn sem opnar sýningu í galleríinu en í ræðu sinni minntist Berglind á mikilvægi menningarskipta landanna. Á fimmtudaginn sagði Berglind svo sendiherrum norðurskautslandanna auk fulltrúa Rússlands um norðurskautsmál frá formennskuáherslum Íslands í Norðurskautsráðinu.

Á fimmtudaginn skrifaði Unnur Orradóttir Ramette fyrir hönd Íslands undir samning í sendiráðinu í Kampala við fræðimanninn og ráðgjafann Dr. Godfrey Kawooya Kubiriza um grunnkönnun á stækkun fiskimarkaðarins í Panyimur við Albertsvatn. Kubiriza á að meta áhrif stækkunarinnar á lífsviðurværi fólks en hann hefur áður unnið fyrir íslenska sendiráðið í Úganda að verkefnum í fiskimálum. Á mánudag verður síðan formleg opnun nýja fiskmarkaðarins en upphaflega lögðu Íslendingar fram fjármagn í markaðinn árið 2013. Þúsundir sölumanna, einkum kvenna, stunda viðskipti með fisk á markaðinum tvo daga í vikunni sem seldur er innanlands og til nágrannaríkja. Það verður væntanlega sagt frá opnunarhátíðinni í Heimsljósi í næstu viku.

Í vikunni var einnig greint frá því að Creditinfo Group hf. hafi hlotið 23 milljóna króna styrk frá utanríkisráðuneytinu til verkefnis fyrirtækisins í Vestur-Afríku sem snýst um að vinna lánshæfismat fyrir smáfyrirtæki og einyrkja í því skyni að bæta aðgengi þeirra að lánsfé. Styrkurinn er veittur úr samstarfssjóði atvinnulífsins um heimsmarkmiðin sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kom á fót. Hlutverk sjóðsins er að hvetja til þátttöku og framlags atvinnulífsins til þróunarsamvinnu.

Í næstu viku mun Guðlaugur Þór taka á móti varnarmálaráðherra Noregs áður en hann heldur til Bandaríkjanna til að ræða viðskiptatengsl ríkjanna við þingmenn og ráðamenn þar vestra. 

Allra bestu helgarkveðjur frá upplýsingadeild utanríkisráðuneytisins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta