Hoppa yfir valmynd
22. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 22. maí 2020

Heil og sæl!

Upplýsingadeild heilsar ykkur á fallegum og heitum föstudegi.

Starfsemi utanríkisþjónustunnar er hægt og bítandi að færast í eðlilegra horf. Eins og gengur og gerist á tímum COVID-19 fara flestir fundir enn fram með aðstoð fjarfundabúnaðar. Nú er hins vegar aftur orðið fjölmennara í ráðuneytinu. Þegar faraldurinn stóð sem hæst á landinu var lunginn af starfsfólki í heimavinnu en nú, þegar faraldurinn er í rénum og verkefnum tengdum honum fækkar, er fleirum fært að mæta til þess að sinna hefðbundnari störfum í utanríkisþjónustunni og takast á við verkefni sem setið hafa á hakanum.

Í vikunni bar hæst utanríkisráðherrafund Eystrasaltsráðsins sem haldinn var á þriðjudag í gegnum fjarfundabúnað. Ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, sóttu utanríkisráðherrar Rússlands, Póllands, Þýskalands, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, auk fulltrúa Evrópusambandsins, fundinn. Á fundinum ítrekaði ráðherra mikilvægi svæðisbundinnar samvinnu og lýðræðislegra gildi. 

„Markviss og náin svæðisbundin samvinna hefur hvað eftir annað sannað gildi sitt. Eystrasaltsráðið byggir á traustum grunni og er mikilvægur vettvangur umræðu meðal ríkja sem oft hafa ólíkar áherslur. Það á ekki síst við á tímum heimsfaraldurs. Saman hafa ríkin náð góðum árangri í mikilvægum málaflokkum á borð við baráttuna gegn mansali, almannavarnir og barnavernd,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn og lýsti jafnframt ánægju sinni með samkomulag um endurbætur á starfsháttum Eystrasaltsráðsins en þær breytingar miða að því að gera það skilvirkara og sveigjanlegra auk þess að stuðla að auknu og reglubundnara samstarfi Eystrasaltsráðsins við aðrar svæðisbundnar stofnanir.

Undanfarna daga hefur ráðherra einnig átt tvíhliða fundi með kollegum sínum í Króatíu, Grænlandi og Kanada. Þá ræddi hann einnig við varnarmálaráðherra Norðurhópsins á fjarfundi. Þann 11. maí átti ráðherra símafund með Francois-Philippe Champagne, utanríkisráðherra Kanada. Þar var COVID-19 faraldurinn til umræðu og samstarf landanna á Norðurslóðum. Ráðherra átti einnig símafund með Ane Lone Bagger ráðherra mennta-, menningar- og utanríkismála grænlensku heimastjórnarinnar á mánudaginn sl. Þau ræddu stöðu mála vegna kórónaveirunnar og ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um að taka Grænland og Færeyjar af lista þeirra landa sem skilgreind eru sem há-áhættusvæði. Á þriðjudag átti ráðherra svo fund með Gordan Grlić Radman, utanríkisráðherra Króatíu, og ræddu þeir m.a. markaðsaðgengi fyrir íslenskar sjávarútvegsafurðir á evrópskan markað, milliríkjaviðskipti með landbúnaðarafurðir og skipasmíðar. Á fjarfundi varnarmálaráðherra Norðurhópsins á miðvikudag var svo rætt um áhrif COVID-19 faraldursins á öryggi og varnir í Norður-Evróp og upplýsingaóreiðumál.

Sendiherrar og starfsfólk okkar á sendiskrifstofum úti í heimi voru áberandi í Bítinu á Bylgunni í vikunni. Á mánudag sagði Elín Flygenring, sendiherra Íslands í Japan frá stöðunni vegna COVID-19 þar í landi. Á þriðjudag fór Gunnar Snorri Gunnarsson yfir gang mála í Kína og á miðvikudag var komið að Ágústi Flygenring, sendiráðunauti í Rússland til þess að ræða málin þar í landi. Sendiskrifstofur okkar hafa eins og endranær í nógu að snúast og undirbúa þessa dagana einnig utankjörfundaratkvæðagreiðslu vegna forsetakosninga 2020. Hefst hún 25. maí.

Á mánudag fór svo fastanefnd okkar í Brussel ítarlega yfir sviðið hvað stefnumótun hjá Evrópusambandinu varðar og hagsmnagæslu af Íslands hálfu. Að þessu sinni var fjallað um hvað taki nú við þegar farsóttin af völdum COVID-19 er í rénum. Þar með talið hvernig endurvekja eigi ferðalög á milli landa og ferðaþjónustu. Ærið og verðugt verkefni og óhætt að mæla með þessari yfirferð.

Áhrif COVID-19 á norðurslóðir voru svo rædd á samnefndri ráðstefnu í vikunni stýrðri af Wilson Center og US Naval War College frá Newport, Rhode Island. Fulltrúar okkar voru sendifulltrúarnir Hreinn Pálsson, frá Washington, og Friðrik Jónsson sem fylgdist með frá Rauðarárstígnum. Tóku þeir þátt undir dagskrárliðnum „International Arctic Governance“.

Fleira var það ekki í bili.

Góða helgi!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta