Hoppa yfir valmynd
05. júní 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 5. júní 2020

Heil og sæl!

Það var nóg um að vera í vikunni en eflaust kemur það ekki mikið á óvart að það er COVID-19 heimsfaraldurinn sem gengur í gegnum alla starfsemi utanríkisþjónustunnar þessi dægrin eins og rauður þráður.

Í dag var tilkynnt um hvernig skimun á landamærum verður háttað hér á landi. Að undanförnu hafa fjölmargar sendiskrifstofur og heimasendiherrar beitt sér fyrir því að þar sem landamæri eru að opna verði þau einnig opin Íslendingum og öðrum sem koma frá Íslandi. Staðan breytist dag frá degi.

Við byrjum á fundi ráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja frá því á þriðjudag með David Malpass, forseta alþjóðabankans þar sem viðbrögð og aðgerðir bankans við COVID-19 faraldrinum voru til umfjöllunar. Á fundinum ítrekaði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, mikilvægi þess að hagsmunir kvenna gleymist ekki í félagslegri og efnahagslegri uppbyggingu samfélaga eftir faraldurinn.

„Auk þess er aðkoma einkageirans ákaflega mikilvæg í allri uppbyggingu, með áherslu á nýsköpun og grænar lausnir,“ sagði ráðherra meðal annars á fjarfundinum.

Á miðvikudag tók ráðherra þátt í utanríkisráðherrafundi Norðurlanda, Eystrasaltsríkja og Visegrad-ríkja þar sem rætt var um afleiðingar COVID-19 heimsfaraldursins, efnahagsmál og þróunina í þeim efnum í Evrópu.

„Ljóst er að öryggisumhverfi Evrópu hefur tekið breytingum undanfarin ár. Kórónuveirufaraldurinn hefur bæði orðið til þess að styrkja böndin og efla samstarf þjóða, en einnig opnað augun fyrir því hvað væri hægt að gera betur,“ sagði Guðlaugur Þór.

Í gær funduðu svo norrænir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherrar um sameiginlega sýn þjóðanna til enduruppbyggingar í þróunarríkjum þegar heimsfaraldrinum linnir. Ráðherrarnir voru sammála um að leggja áherslu á þrennt, heilbrigðismál og styrkingu heilbrigðiskerfa, á græna og loftslagsvæna uppbyggingu, og á varðveislu framfara í jafnrétti kynjanna, undir yfirskriftinni „Build Back Better and Greener.“

Á fimmtudag dró til tíðinda en þá var Harald Aspelund, fastafulltrui Íslands í Genf, kjörinn formaður viðskiptarýni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Formennskan er eitt helsta ábyrgðarhlutverk aðildarríkja hennar en í gær stýrði Harald fjarfundi aðildarríkja stofnunarinnar um það hvernig skuli tryggja áframhaldandi starf hennar í ljósi COVID-19 faraldursins og hvernig viðskiptarýni stofnunarinnar geti haldið áfram.

Á miðvikudag sögðum við svo frá því að af hálfu utanríkisráðuneytisins hefði verið skrifað undir tvo nýja fjögurra ára samninga um stuðning Íslands við mannúðaraðstoð og neyðarviðbrögð. Samningarnir voru undirritaðir í Genf en um er að ræða samning við Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), um rúmlega 62 milljóna króna árlegt framlag, og samning við Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna (CERF), um 50 milljóna króna árlegt framlag.

Í vikunni var einnig vinnu við greiningu á tækifærum í Uppbyggingarsjóði EES fyrir íslenska aðila á sviði nýsköpunar, samkeppnishæfni, rannsókna, menntunar og menningar ýtt úr vör. Greiningunni er ætlað að varpa ljósi á reynslu íslenskra aðila af sjóðnum og hvaða ónýttu tækifæri gætu verið til staðar fyrir íslenska aðila með frekari þátttöku í verkefnum sjóðsins.

Og því næst ætlum við að líta út í heim.

Sendiráð okkar í Berlín hafði í nógu að snúast í vikunni. María Erla Marelsdóttir sendiherra tók þátt í opinni línu á Twitter á fimmtudag þar sem sendiherrar Norðurlandanna í Berlín svöruðu spurningum í beinni. Þemað var upplýsingasamfélagið, stafræn tækni og lausnir. Fjölmargar spurningar bárust m.a. um heilbrigðismál, ferðamál, menningu og menntun og skapaðist skemmtileg stemmning á myllumerkinu #NordicTownHall þar sem sendiherra greindi frá helstu áherslum Íslands.

Þar tók Elín R. Sigurðardóttir staðgengill sendiherra einnig þátt í ársfundi Uppbyggingarsjóðs EES í Póllandi sem í þetta skipti fór fram í netheimum. Uppbyggingarsjóðurinn skapar tækifæri fyrir íslenskar stofnanir, fyrirtæki og frjáls félagasamtök til samstarfs um verkefni í Póllandi t.d. á sviði jarðvarma, menntunar, jafnréttismála, menningar og lista.

Frá London barst svo nýr pistill á afmælisvef ráðuneytisins þar sem fjallað er um störf Péturs Benediktssonar, fyrsta sendifulltrúa Íslands í Bretlandi, í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar. 

Þar á bæ tók starfsmaður sendiráðsins, Erla Ylfa Óskarsdóttir sig til og ritaði grein á vefsíðu hugveitunnar Chatham House um baráttu Íslendinga við COVID-19.

Sendiráð Íslands í Washington efndi til ræðismannaráðstefnu fyrir ræðismenn Íslands í Bandaríkjunum í vikunni. Þá funduðu Bergdís Ellertsdóttir sendiherra og Una Jóhannsdóttir sendiráðunautur með aðstoðarráðherra fyrir viðskipta- og efnahagsmál í utanríkisráðuneytinu, Manishu Singh, ásamt starfmanni úr deild hennar, um afleiðingar COVID-19 heimsfaraldursins á efnhagsmál í heiminum og um næstu skref í samstarfi Íslands og Bandaríkjanna á sviði efnahagsmála. 

Í Rússlandi þakkaði Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra fyrir sig. Hún lætur nú af störfum sem sendiherra þar í landi eftir fjögurra ára dvöl en Árni Þór Sigurðsson mun koma í hennar stað.

Í New York ávarpaði Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, stjórnarfund UNDP og UNFPA fyrir hönd Norðurlandanna.

Á Facebook-síðu sendiráðs okkar í Lilongwe bárust svo þær fréttir að héraðsstjórnin í Mangochi, samstarfshéraði Íslendinga í Malaví, hefði fengið 300 útvarpstæki knúin sólarorku til þess að auka öryggi í upplýsingagjöf til íbúa 99 afskekktra hreppa á tímum COVID-19. Sérstaklega er haft í huga að réttar upplýsingar berist til íbúa um það hvernig best sé að forðast smit. Viðtækin eru hluti af þriggja ára samstarfsverkefni Íslendinga með Þjóðverjum um aukna notkun endurnýjanlegrar orku í Malaví.  Verkefnið á meðal annars að auka notkun á orkusparandi eldstæðum og auka útbreiðslu og notkun á sólarrafhlöðum til rafmagnsframleiðslu, bæði til einkanotkunar og notkunar í skólum, heilsugæslustöðvum og fyrirtækjum í héraðinu.

Á mánudaginn í næstu viku tekur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra þátt í fjarfundi EFTA-ráðherra en að öðru leyti er um hefðbundna dagskrá að ræða í næstu viku, svo sem þátttöku í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi.

Þá er alveg óhætt að mæla með skemmtilegri grein í New Yorker um baráttu Íslands gegn COVID-19. Ráðuneytinu bregður stuttlega fyrir í ítarlegri og skemmtilega skrifaðri grein blaðakonunnar Elizabeth Kolbert sem lesa má hér.

Við ljúkum þessari samantekt með því að minnast á nýjan þátt Utanríkisvarpsins þar sem rætt er við Davíð Loga Sigurðsson, deildarstjóra hjá Alþjóða og þróunarsamvinnuskrifstofu um mannréttindi og utanríkismál. Sérstaklega er rætt um setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, sem er eitt veigamesta hlutverk sem Ísland hefur gegnt á alþjóðavettvangi.

Bestu kveðjur,
upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta