Hoppa yfir valmynd
11. september 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 11. september

Heil og sæl!

Mannréttindi og lýðræði á tímum COVID-19 voru efst á baugi í vikunni sem er að líða. Málefnin voru umfjöllunarefni sameiginlegrar greinar allra utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Norðurlandanna sem birt var í dag á öllum Norðurlöndum.

Í greininni kom fram að mikilvægi þess að standa vörð um mannréttindi og lýðræði hefði aldrei verið meira en einmitt núna þegar teikn eru á lofti um að COVID-19-heimsfaraldurinn hafi stuðlað að afar neikvæðri þróun í þeim efnum og að hætta sé á vaxandi ófjöfnuði í heiminum sem gerir stöðu þeirra sem nú þegar eiga mjög undir högg að sækja enn verri.

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifaði undir greinina fyrir Íslands hönd en Norðurlöndin stóðu í dag einnig fyrir umræðufundi um lýðræði og mannréttindi á tímum COVID-19.

Innlegg ráðherra á fjarfundinum má lesa í heild sinni hér en á meðal þess sem ráðherra gerði að umtalsefni eru þær áhyggjur sem Sameinuðu þjóðirnar hafa af þeirri miklu aukningu á kynbundnu ofbeldi, sér í lagi heima fyrir, á tímum faraldursins þar sem útgöngubann var sett á um víða veröld.

„Í stuttu máli er svar mitt við þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir þetta: Við þurfum að stórauka viðleitni okkar til þess að standa vörð um og styrkja mannréttindi. Varast þarf hið viðvarandi tómarúm sem myndast hefur í baráttunni gegn veirunni,“ sagði Guðlaugur Þór í lauslegri þýðingu.

Á miðvikudag lauk tveggja daga fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Tallin þar sem ástandið í Hvíta-Rússlandi var í brennidepli. Í yfirlýsingu fundarins var tilræðið við rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní fordæmt. Fundurinn var sá fyrsti sem ráðherrar NB8-ríkjanna áttu með sér augliti til auglits á þessu ári vegna kórónuveiru-faraldursins. Ríkin átta hafa sýnt samstöðu í gagnrýni sinni á framkvæmd kostninganna þar í ágúst sl. og harkaleg viðbrögð stjórnvalda við víðtækum mótmælum í kjölfarið. Í sameiginlegri yfirlýsingu ítrekuðu ráðherrarnir fyrri yfirlýsingu frá 11. ágúst og skoruðu á stjórnvöld í Minsk að leysa pólitíska andstæðinga tafarlaust úr haldi. María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu, fór fyrir íslensku sendinefndinni þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, átti ekki heimangengt. 

Færum okkur nú að starfsemi sendiskrifstofa okkar. Þar var nóg um að vera eins og alltaf.

Í Kaupmannahöfn bauð rithöfundurinn Andri Snær Magnason til útgáfuhófs í tilefni útgáfu bókar sinnar Um tímann og vatnið (d. Tiden og vandet) sem er nú fáanleg í danskri þýðingu. Hófið fór fram um borð í skipinu Activ. „[Þ]að verður að teljast viðeigandi þar sem m.a. er hægt að lesa um ævintýri höfundarins um borð í þessu fallega og sérstaka skipi í bókinni,“ sagði m.a. í færslu sendiráðsins í Kaupmannahöfn. Fulltrúar þess létu sig ekki vanta en skipið er þrigga mastra íshafsseglskip, smíðað 1951, og liggur við landfestar við Norðurbryggju, þar sem sendiráðið er staðsett. 

Í Finnlandi tók Sauli Niinistö, forseti Finnlands, á móti Auðuni Atlasyni, en fundur þeirra var framhald af afhendingu trúnaðarbréfs Auðuns sem fór fram með rafrænum hætti í júlí. Auðunn er fyrsti sendiherrann sem Niinistö tekur á móti eftir að gripið var til harðra gegn COVID í Finnlandi í mars sl.

Í Þýskalandi heimsótti María Erla Marelsdóttir sendiherra hansaborgina Hamborg og sambandslandið Slésvík-Holtsetaland í norðurhluta Þýskalands í liðinni viku. Markmið heimsóknanna var að efla tengsl og styrkja samstarf við stjórnvöld og fyrirtæki. Orkumál og sjálfbærir orkugjafar, samstarf á sviði vetnismála, nýsköpun, bláa hagkerfið, mennta- og menningartengsl voru í brennidepli á báðum stöðum. 

Í Hamborg fundaði sendiherra með Almut Möller sem fer með Evrópu- og alþjóðamál og Michael Westhagemann sem fer með efnahags- og nýsköpun í ríkisstjórn Hamborgar og heimsótti íslensk fyrirtæki með starfsemi í Hamborg, sem og bókmenntahúsið í Hamborg. Í Kiel fundaði sendiherra með Daniel Günther forsætisráðherra Schleswig-Holstein og heimsótti Christian-Albrecht háskólann þar sem hún m.a. fundaði með lektor í íslensku og prófessor í Norðurlandafræðum. 

Í Vín var spilling og umhverfisskaði til umræðu á fundi efnahags- og umhverfisvíddar ÖSE. Að sögn Guðna Bragasonar, fastafulltrúa Íslands hjá ÖSE, gera ný lög frá Alþingi íslenskum yfirvöldum auðveldara að berjast á móti peningaþvætti og fjármögun hryðjuverka. Sagði Guðni landlæga spillingu vera mikinn skaðvald fyrir umhverfið og að nauðsynlegt væri að að berjast gegn henni með tiltækum ráðum, eins og lagasetningu og nýrri tækni. Spilling og umhverfisafbrot væru sama sama eðlis á landi sem og í hafi, og minntist hann einnig á starf Íslands í baráttu gegn ólöglegum fisveiðum. Sagðist Guðni styðja áherslur hinnar albönsku formennsku ÖSE að þessu innan efnahags- og umhverfisvíddarinnar.  

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Belgíu, afhenti Filippusi Belgíukonungi trúnaðarbréf sitt við hátíðlega athöfn í konungshöllinni í Brussel í gær. Ræddu þeir að athöfninni lokinni um vinsamleg samskipti ríkjanna fyrr og síðar, söguleg tengsl þeirra, samstarf á sviði menningar og vísinda og mögulega vaxtabrodda í viðskiptum þeirra á milli.

Starfsfólk sendiráðs okkar í Moskvu sendi svo Bela Petrovna Karamzina, sem varð 85 ára í gær, árnaðaróskir og bestu þakkir fyrir ómetanlegt starf hennar við sendiráðið þar sem hún starfaði í 40 ár en við starfslok sín hlaut Bela fálkaorðuna.

Þá var Inga Dóra Pétursdóttir formlega boðin velkomin til starfa í Lilongwe þar sem hún er nú forstöðumaður sendiráðs Íslands í Malaví. 

Á vettvangi Heimsljóss bar hæst tilraunaverkefni íslenska fyrirtækisins Atmonia í Kamerún en þar vinnur fyrirtækið ásamt innlendum samstarfsaðila að framleiðslu á nituráburði með umhverfisvænum hætti. Atmonia hlaut á dögunum tveggja milljóna króna forkönnunarstyrk frá utanríkisráðuneytinu til að kanna sjálfbæra framleiðslu á nituráburði en það hefur verið að þróa tækni sem býr til síkan áburð úr vatni, lofti og rafmagni.

Á dagskrá ráðherra í næstu viku er meðal annars fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna (N5). Fundurinn fer fram á Borgundarhólmi. Þá er alþjóðlegi jafnlaunadagurinn einnig á dagskrá næstkomandi föstudag. Dagurinn er haldinn af alþjóðasamtökum um launajafnrétti (EPIC) sem Ísland á aðild að en í tilefni hans er boðið til rafræns málþings undir yfirskriftinni Ákall til aðgerða.

Ekki var það meira að sinni.

Bestu kveðjur,

upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta