Hoppa yfir valmynd
16. október 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 16. október 2020

 

Heil og sæl!

Við hefjum leik á frétt frá því í dag um miðannarýni þróunarsamvinnu Íslands af hálfu Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC). Heildarniðurstöður miðannarrýninnar eru mjög jákvæðar en DAC kemst að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi nú þegar komið til móts við níu af þrettán tillögum sem settar voru fram í jafningjarýninni fyrir þremur árum.

„Þessi stöðutaka sýnir að við erum á réttri leið og hún er okkur mikil hvatning. Þróunarsamvinna hefur fengið aukið vægi í ráðuneytinu á undanförnum árum og umtalsvert umbótastarf hefur orðið á því sviði. Endurskipulagning ráðuneytisins um síðustu áramót var liður í því starfi og rík áhersla er lögð á nánari útfærslu á þeirri stefnu sem samþykkt var af Alþingi á síðasta ári,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, af þessu tilefni.

Í gær undirritaði svo ráðherra ásamt Hildi Árnadóttur, stjórnarformanni Íslandsstofu, og Pétri G. Óskarssyni, framkvæmdastjóra Íslandsstofu, samkomulag utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu um stofnun þjónustuborðs atvinnulífsins. Því er ætlað að vera brú milli atvinnulífs og stjórnvalda þar sem fyrirtæki munu m.a. geta leitað sér upplýsinga um möguleika á stuðningi við atvinnuþróunarverkefni í þróunarlöndum og víðar, þar sem Ísland veitir fjárframlög, og sótt sérþekkingu, stuðning og leiðbeiningar um hvert annað er hægt að leita til að koma hugmyndum í framkvæmd.

„Um leið og kórónuveirufaraldurinn brast á setti ég stuðning við íslenskt atvinnulíf í algeran forgang. Stefnumótun okkar er nú farin að bera ávöxt með þeim nýmælum sem í dag verður hrint í framkvæmd. Ég bind vonir við að með þjónustuborði atvinnulífsins geti íslensk fyrirtæki látið meira að sér kveða í atvinnustarfsemi í þróunarríkjum og víðar, í samvinnu við heimafólk á hverjum stað,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Jafnframt hóf sérstök viðskiptavakt utanríkisráðuneytisins göngu sína en hún er liður í áherslu utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra að styðja við íslenskar útflutningsgreinar, ekki síst nú á tímum COVID-19. Meðfylgjandi myndband var birt í tengslum við þessi tíðindi, það var tekið upp þegar skýrslan Saman á útivelli kom út í sumar en viðskiptavaktin er einmitt ein tillagnanna sem skýrslan kveður á um. Eins og sjá má voru aðrar sóttvarnareglur í gildi þá í samfélaginu - í þá gömlu góðu daga.


Á miðvikudag mælti utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fyrir frumvarpi sínu um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, sendiherrafrumvarpinu svonefnda. Það gengur nú til annarrar umræðu og meðferðar utanríkismálanefndar. 

Sama dag ávarpaði Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, haustfund Hnattræna jafnréttissjóðsins þar sem mannréttindi hinsegin fólks voru til umræðu. Ísland var í gestgjafahlutverki í ár og bauð til fjarfundarins þar sem um fimmtíu meðlimir og fulltrúar styrktaraðila ásamt starfsliði sjóðsins tóku þátt. 

Þá sögðum við einnig frá fulltrúum Íslensku friðargæslunnar í dag sem nú eru við störf hjá fjölþjóðaliði Atlantshafsbandalagsins í öllum þremur Eystrasaltsríkjunum en að sögn utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra er aukin þátttaka Íslands í samstöðuaðgerðum á svæðinu fagnaðarefni.
 
Að venju var nóg um að vera hjá starfsfólki okkar úti á pósti.

Í Osló stóð starfsfólk okkar í stórræðum í dag en þessa dagana er unnið að því að flytja sendiráðið á nýja hæð í sama húsnæði. Fulltrúi tölvudeildar ráðuneytisins mætti á svæðið og aðstoðaði meðal annars við að flytja veglegan „server-skáp“ á milli hæða.

Við stóðum í stórræðum í dag en erum samt bara rétt að byrja. Nokkrar myndir frá flutningastússi sendiráðsins í dag....

Posted by Islands ambassade i Oslo / Sendiráð Íslands í Osló on Friday, 16 October 2020


Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, bauð Hannes Heimisson, sendiherra Íslands í Svíþjóð, velkominn til starfa á fundi í utanríkisráðuneyti Svíþjóðar. Á fundinum ræddu þau meðal annars margvísleg og náin tengsl Íslands og Svíþjóðar og fjölbreytt samstarfsverkefni.

Í Brussel sat Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu ráðherrafund ESB sem formennskuríki Evrópusambandsins stóðu fyrir um gervigreind og stafræna þjónustu. Kristján Andri sat fundinn fyrir hönd fjármálaráðherra. Þar áréttaði hann hann mikilvægi stafrænnar starfsskrár fyrir íslenska ríkið. Hann sagði frá verkefnum Íslands sem miða að því styrkja stafræna innviði og tryggja stafræna þjónustu, sem og stofnun nefndar um framtíðarsýn í málaflokknum. Þá lagði hann einnig áherslu á nauðsyn þess að viðmótin séu á því tungumáli sem fólkið notar – þar á meðal íslensku. 

Í París tilkynnti sendiráðið okkar um nýjan alþjóðlegan meistara í jafnrétti kynjanna en það er engin önnur er Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París.

Þá tók starfsfólk sendiráðs okkar í Washington þátt í fjarviðburði um plastmengun í heiminum ásamt öðrum norrænum sendiráðum þar í borg en viðburðurinn var samvinnuverkefni sendiráðanna og The Ocean Foundation. Hægt er að sjá umræðurnar hér.

1. október síðastliðinn hélt Alþýðulýðveldið Kína upp á þjóðhátíðardag sinn og af því tilefni sendi sendiherra Ísland í Kína, Gunnar Snorri Gunnarsson, kínversku þjóðinni heillaóskir á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo og þar birti sendiherrann kveðju sína. Segja má að kveðjan hafi náð nokkru flugi en tæplega hálf milljón manns hafa horft á kveðju sendiherrans. Er Gunnar Snorri líklega þar með orðinn vinsælasta samfélagsmiðlastjarna íslensku utanríkisþjónustunnar. 

Í Genf var nóg um að vera í vikunni. Septemberlotu mannréttindaráðsins er nú lokið en sem fyrr tekur Ísland virkan þátt í starfinu sem og í samstarfi við Norðurlöndin og Balta en hópurinn flutti sameiginlega á þriðja tug ræðna. Í lotunni átti sér stað mikilvæg umræða um áríðandi stöðu mála í Hvíta-Rússlandi, Venesúela, Sýrlandi og fleirum ríkjum, sem og um mannréttindi á tímum COVID-19 og fleiri mál.

Á mánudag átti Ísland einnig samráðsfund með Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) um starf Íslands og stuðning þess. UNHCR er ein af áherslustofnunum Íslands í mannúðarmálum og því mikilvægt að stjórnvöld eigi sæti við borðið þar sem ákveðinn er stuðningur við þau sem orðið hafa að flýja heimili sín víða um heim vegna stríðsátaka, náttúruhamfara eða
af öðrum ástæðum, til dæmis með matvælaaðstoð, húsaskjóli eða heilbrigðisþjónustu.

Í gær tók Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands í Genf, þátt í fundi hóps ríkja undir forystu sendiherra Hollands og Maldív-eyja sem hafa það að markmiði að breikka hóp þeirra ríkja sem taka þátt í starfi mannréttindaráðs og sækjast eftir aðild að ráðinu, með sérstaka áherslu á smáríki. 

Þá hittist Fríverslunarnefnd EFTA-ríkjanna og Singapúr einnig á fjarfundi í gær en það var Katrín Einarsdóttir, varafastafulltrúi Íslands, sem stýrði fundi fríverslunarnefndarinnar fyrir hönd allra EFTA ríkjanna.

Við endum þessa yfirferð á að vekja athygli á nýjasta pistlinum á afmælisvefnum okkar þar sem skyggnst er inn í störf utanríkisþjónustunnar árið 1940. Fjölmargir Íslendingar urðu innlyksa á Norðurlöndunum í kjölfar hernáms Þjóðverja á Danmörku og Noregi og nýstofnuð íslensk utanríkisþjónusta fékk í hendurnar það veglega borgaraþjónustuverkefni að koma á þriðja hundrað Íslendinga heim til Íslands með strandferðaskipinu Esju. Siglt var frá Petsamó, sem þá var í Finnlandi, en í gær voru nákvæmlega 80 ár frá því að Esja sigldi inn í Reykjavíkurhöfn.

Í næstu viku tekur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra þátt í hringborðsumræðum og áheitaráðstefnu vegna svonefnds Mið-Sahelssvæðis (Búrkína Fasó, Malí og Níger) og ráðstefnunni How to Invest in Iceland. Af hefðbundnum þingsstörfum má nefna að hann tekur þátt í óundirbúnum fyrirspurnum á mánudag og kemur fyrir þingnefndir. Undir lok vikunnar heldur ráðherra svo til Færeyja. 

Við segjum þetta gott bili.

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta