Hoppa yfir valmynd
23. október 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 23. október 2020

 

Heil og sæl!

Jörðin skalf hressilega í vikunni og áfram heldur baráttan við heimsfaraldur kórónuveirunnar en meira þarf til að stöðva útgáfu föstudagspóstins! Á tímum veirunnar heyra utanlandsferðir til undantekninga og það á einnig við um ferðir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem þó lét slag standa og ferðaðist til Færeyja og fundaði með Jenis av Rana, utanríkisráðhera Færeyja í Þórshöfn í dag.

Framkvæmd Hoyvíkursamningsins og efnahagsleg áhrif kórónuveirufaraldursins voru efst á baugi á fundi þeirra sem var jákvæður en sameiginleg afstaða til samningsins er að hann veiti fyrirtækjum og einstaklingum beggja landa veruleg tækifæri til framtíðar.

„Hoyvíkursamningurinn er áþreifanleg staðfesting á góðum og nánum samskiptum Íslands og Færeyja. Hann hefur reynst báðum þjóðum vel frá því að hann tók gildi 2006 og það var afar ánægjulegt að koma hingað til Færeyja og sjá það með eigin augum,“ sagði Guðlaugur Þór að fundi loknum.

Í tengslum við fundinn sóttu þeir Guðlaugur Þór og Jenis av Rana heim Sigert Patursson, bónda og formann færeysku bændasamtakanna, og skoðuðu sláturhúsið og kjötvinnsluna Krás í Hósvík, en ráðherra flutti einnig ræðu á Faroexpo kaupstefnunni sem haldin var í Runavík í dag. Kaupstefnan fer fram á tveggja ára fresti og að þessu sinni undir yfirskriftinni Brexit, tækifæri og áskoranir. Í erindi sínu lagði ráðherra áherslu á náin tengsl Íslands og Bretlands í fortíð, nútíð og framtíð, á sviði viðskipta, menningar og öryggismála. Hann áréttaði meðal annars að mikið væri í húfi fyrir Ísland að tryggja samfellu í samskiptum landanna þrátt fyrir útgöngu Bretlands úr ESB. Samningar um framtíðarsamskipti landanna stæðu yfir og væru langt komnir á mörgum sviðum.

Að því sögðu þá birtum við einnig frétt í dag þess efnis að Ísland hefði ásamt Noregi, Liechtenstein og Bretlandi, sammælst um að bráðabirgðasamningur um vöruviðskipti taki gildi hafi fríverslunarsamningur ekki verið undirritaður fyrir áramót svo óbreytt viðskiptakjör verði áfram tryggð. Góður gangur er í fríverslunarviðræðunum og er stefnt að því að ljúka þeim á tilsettum tíma.

Á þriðjudag tilkynnti Guðlaugur Þór um 80 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðar í Búrkína Fasó, Malí og Níger. Ríkin þrjú eru á svonefndu Mið-Sahelsvæði þar sem hungursneyð er yfirvofandi. Kórónuveirufaraldurinn sem nú geisar í heiminum hefur gert ástandið þar enn verra. Sérstök áheitaráðstefna Sameinuðu þjóðanna um Mið-Sahelsvæðið fór fram sama dag og í ræðu sem utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra flutti í gegnum fjarfundarbúnað lagði hann áherslu á að Ísland muni halda áfram málsvarastarfi á sviði mannréttinda og vakti auk þess athygli á hnignandi jafnrétti í þessum heimshluta, sem meðal annars mætti rekja til ytri áhrifa kórónuveirufaraldursins.

„Grípa þarf til víðtækra aðgerða á svæðinu. Stofnanir á sviði mannúðar, þróunarsamvinnu og friðarumleitana verða að ganga í takt og vinna saman, þannig bæta þær hver aðra upp. Viðbrögð okkar verða að vera í samræmi við alþjóðleg mannúðarlög og grundvallarþætti mannúðarstarfs,“ sagði hann ennfremur.

Sem endranær er ekki komið að tómum kofanum hjá sendiskrifstofum okkar um allan heim. 

Starfsfólk sendiráðs okkar í Osló á ávallt ás upp í erminni og þangað barst einstök fyrirspurn í vikunni. Það er réttast að gefa þeim orðið:

Við verðum bara að deila með ykkur ótrúlega skemmtilegu símtali sem sendiráðinu í Osló barst í morgun. Hingað hringdi...

Posted by Islands ambassade i Oslo / Sendiráð Íslands í Osló on Thursday, 22 October 2020

Á dögunum birtum við einnig kveðju frá Gunnari Snorra Gunnarssyni, sendiherra Íslands í Kína, þar sem hann sendi kínversku þjóðinni heillaóskir á þjóðhátíðardegi Alþýðulýðveldisins Kína þann 1. október síðastliðinn. Við mælum með því að fólki kíki á kveðjuna hér

Það er óhætt að segja að sendiráðið í Kína sé að leggja sitt af mörkum hvað landkynningu varðar en í gær sögðum við frá þátttöku Gunnars Snorra og Kristínu Arönku, sendiráðsfulltrúa, í sjónvarpsþætti á sjónvarpsstöðinni Hainan TV, sem er sjónvarpsstöð syðsta héraðs Kína. Í þættinum var fjallað um Ísland og starf sendiráðsins þar í landi en á meðal þess sem rætt var um voru L-in þrjú, landslag, lambakjöt og lopapeysur!

Í Berlín tekur menningarlífið sér ekki hlé þrátt fyrir kófið en síðastliðinn þriðjudag var frumsýning í Felleshus, menningarmiðstöð norrænu sendiráðanna á mynd sem  þýski sjónvarps- og veðurfréttamaðurinn Benjamin Stöwe og myndatökumaðurinn Lucas Radermacher gerðu fyrir sjónvarpstöðina ZDF. Um er að ræða 15 stutta morgunþætti um Ísland sem birtust í þýska sjónvarpinu sumarið og veturinn 2019, sem hafa nú verið klipptir saman í eina 55 mínútna langa mynd um Ísland. María Erla Marelsdóttir sendiherra var viðstödd eina af þremur sýningum eins og sjá má í meðfylgjandi stiklu en sjónvarpsstöðin tók einnig viðtal við sendherra.

Hér er hægt að nálgast myndina sjálfa í sarpi sjónvarpsstöðvarinnar ZDF sem verður þar næsta árið.

Sendiráð Íslands í Berlín óskaði einnig þeim Víkingi Ólafssyni píanóleikara og Hildi Guðnadóttur tónskáldi til hamingju með verðskulduð verðlaun Opus Klassik, sem eru þekktustu tónlistarverðlaun Þýskalands í flokki klassískrar tónlistar. María Erla Marelsdóttir sendiherra var viðstödd verðlaunaafhendinguna sem fór fram í einu virtasta tónlistarhúsi Berlínar Konzerthaus, en sendiráðið og Konzerthaus hafa átt farsælt samstarf um árabil við að kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk


Í dag lauk fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins sem fór fram í gegnum öruggan fjarfundarbúnað. Hermann Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, tók þátt í fundinum í fjarveru utanríkisráðherra en á fundinum voru meðal ananrs málefni öryggisráðsályktunar 1325 um konur, frið og öryggi til umfjöllunar og þess minnst að 20 ár eru liðin frá samþykkt ályktunarinnar í SÞ.

Þátttaka kvenna í friðaferli og staða þeirra í ófriði er mikilvægt viðfangsefni í starfi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Það á ekki síst við um viðleitni stofnunarinnar, til að koma á friði víðsvegar í austurhuta ÖSE-svæðisins, þar sem langvarandi deilur og ófriður halda samfélögum í heljargreipum. Líkt og fyrr segir eru 20 ár síðan ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi var samþykkt og var þess minnst í vikunni á fundum fastaráðsins og öryggissamvinnuvettvangsins hjá ÖSE. Ísland gerðist aðili að ályktunum af þessu tilefni.

Í dag lauk einnig þriðju samningalotu EFTA ríkjanna við Chile um uppfærslu fríverslunarsamnings frá 2004 en það var Sveinn K. Einarsson úr fastanefnd Íslands í Genf sem sat fundinn fyrir Íslands hönd. 

Á þriðjudag stýrði Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, fundi sem fastanefnd Íslands, fastanefnd Rúanda og mannréttindasamtökin Universal Rights Group héldu sameiginlega um samspil mannréttinda og nýrrar stafrænnar tækni, og hvernig megi fremur stuðla að jafnrétti og gegn mismunun. Málstofan var hluti af hinu svokallaða Glion samtali þar sem fulltrúar aðildarríkja SÞ, sérfræðingar og frjáls félagasamtök koma saman, bæði í New York og Genf, til að ræða málefni á sviði mannréttinda. 

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Kampala tók  í gær á móti erkibiskupi Úganda, Dr.Stephen Kaziimba Mugalu og ræddi við hann um verkefni sendiráðsins þar í landi, þ.á.m. á sviði vatns- og salernismála.

Þá þökkum við sendiráði okkar í Washington fyrir athyglisverða kynningu á gangi mála í Bandaríkjunum fyrir komandi forsetakosningar. Vissulega spennandi vikur framundan á þeim bænum!

Við endum þessa yfirferð á frétt úr Heimsljósi þar sem vakin er athygli á 75 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna. Rúmlega tvö hundruð byggingar um alla Evrópu verða lýstar upp með bláum lit á morgun, laugardaginn 24. október, til að minnast stórafmælisins. UNRIC, upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu, á frumkvæðið að átakinu „Turn Europe UN Blue“ en á morgun verða 75 ár liðin frá því stofnsáttmáli samtakanna gekk formlega í gildi árið 1945.

Harpa, Háskóli Íslands, Höfði, Dómkirkjan í Reykjavík og Akureyrarkirkja verða lýst bláa litnum á morgun sem og brúin yfir Eyrarsund, dómkirkjan í Stokkhólmi, Ráðhúsið og FN-byen í Kaupmannahöfn og háskólinn í Trömsö svo dæmi séu tekin frá Norðurlöndum. 

Að sögn Árna Snævarr upplýsingafulltrúa Sameinuðu þjóðanna hjá UNRIC hefur ljósblái liturinn verið einkennislitur Sameinuðu þjóðanna frá því allsherjarþingið lagði blessun sína yfir fána samtakanna 20. október 1947. Blár varð fyrir valinu sem „andstæðan við rauðan, lit átaka,” segir hann.

Í  næstu viku tekur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra þátt í ráðherrafundi EFTA, sem er 50 ára í ár. Á miðvikudag tekur hann þátt í ráðherrafundum sem haldnir eru í tengslum við þing Norðurlandaráðs.

Við segjum þetta gott í bili.

Góða helgi!

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta