Hoppa yfir valmynd
30. október 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 30. október 2020

 

Heil og sæl.

Annasöm vika í utanríkisþjónustunni er nú brátt á enda.

Efnahagssamráð Íslands og Bandaríkjanna á þriðjudag bar hæst í vikunni. Þetta er í annað skipti sem slíkt samráð fer fram en ákveðið var að setja það á fót á fundi þeirra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Reykjavík í febrúar í fyrra. Upphaflega stóð til að halda fundinn í Washington í vor en út af heimsfaraldri kórónuveirunnar (lesist: sottlu) var ekki unnt að halda hann fyrr en í dag og þá í gegnum fjarfundarbúnað. Á fundinum var meðal annars rætt um um efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins, vegabréfsáritanir fyrir íslenska atvinnurekendur og fjárfesta, kerfisbundna skimun á erlendum fjárfestingum og vernd mikilvægra innviða. Þá var á fundinum undirritað sameiginlegt minnisblað um áframhaldandi samvinnu á ýmsum sviðum á þessum vettvangi og samráðið fest í sessi þannig að það verði eftirleiðis haldið árlega.

Á miðvikudag var stíf dagskrá hjá ráðherra en þá fóru fram þrír norrænir fundir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Guðlaugur Þór ræddi viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum, málefni þróunarsamvinnu og öryggis- og varnarmál á fundunum þremur sem fram fóru í tengslum við þing Norðurlandaráðs.

„Heimsfaraldurinn hefur sannarlega orðið til þess að samskipti og samráð Norðurlandanna hafa vaxið til muna og það er vel,“ sagði Guðlaugur Þór. „Við eigum gott samstarf og samráð á öllum stigum og deilum í megindráttum sýn á heimsmálin og það styrkir okkur svo, hvert fyrir sig, sem og heildina, að geta talað einu máli á vettvangi alþjóðastofnana. Það gerum við einmitt í mjög ríkum mæli," sagði ráðherra enn fremur.

Árlegur haustfundur EFTA fór svo fram á þriðjudag. Í ár er hálf öld liðin frá því að Ísland gekk í fríverslunarsamtökin og segir Guðlaugur Þór að aðildin að EFTA og EES hafi sjaldan skipt meira máli nú en þegar heimskreppa stendur yfir. Á fundinum voru horfur í alþjóðaviðskiptum, efnahagshorfur í skugga heimsfaraldurs og fríverslunarmál aðalumræðuefnin en fundurinn fór fram líkt og aðrir fundir í dag í gegnum fjarfundarbúnað vegna kórónuveirufaraldursins.

„Það var mikið gæfuspor fyrir Ísland að ganga í EFTA á sínum tíma, þær efnahagslegur framfarir sem orðið hafa hér á landi undanfarna fimm áratugi eiga tvímælalaust að verulegu leyti rætur að rekja til inngöngunnar í EFTA og síðan EES. Þetta skiptir ekki síst máli núna þegar við göngum í gegnum alvarlega efnahagskreppu vegna heimsfaraldurs. Við erum einfaldlega sterkari þegar við tökum höndum saman,“ sagði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Í vikunni tilkynnti utanríkisráðuneytið einnig um viðbótarframlag þess til mannúðaraðstoðar í þágu kvenna og stúlkna í Jemen. 40 milljóna króna styrkur var veittur Mannfjöldasjóði Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) sem er viðbót við áður veittan 25 milljóna króna styrk vegna þeirrar miklu neyðar sem konur og stúlkur búa við í þessu stríðshrjáða landi. Samkvæmt gögnum Sameinuðu þjóðanna deyja tólf konur dag hvern vegna skorts á fæðingarþjónustu og mæðravernd.

„Heimsfaraldur kórónuveirunnar og mikill fjárskortur hafa aukið á neyðina og UNFPA hefur þurft að draga úr kyn- og frjósemisþjónustu við konur og stúlkur á þessu ári. Í ljósi þeirra aðstæðna höfum við ákveðið að styðja enn frekar við verkefnið í Jemen,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson.

Flugsveit bandaríska flughersins hefur í þessum mánuði sinnt loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland. Flugsveitin kom til landsins frá Bretlandi með F15 orrustuþotur. Liðsmenn sveitarinnar tóku athyglisverðar mydir meðan á verkefninu stóð og þær má sjá hér.

Á vef Heimsljóss birtist frétt í gær þar sem fagnað var því byltingarkennda skrefi sem stigið var fyrir 20 árum þegar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun númer 1325 um konur, frið og öryggi. Fréttina má lesa hér en starfsfólk okkar víða um heim hélt einnig upp á áfangann með því að hlaupa 13,25 km af því tilefni.

 

Hvað sendiskrifstofur okkar varðar þá hefjum við leik á Brussel-vaktinni sem setur reglulega inn fréttir af stefnumótun hjá Evrópusambandinu og hagsmunagæslu af Íslands hálfu.

Að þessu sinni kemur fram að Evrópusambandið bindur vonir við að þangað til bóluefni verði komið í víðtæka dreifingu geti skyndipróf fyrir Covid-19 haft mikla þýðingu og kallar eftir því að aðildarríkin móti sér sýnatökustefnu og bólusetningarstefnu. Þá er sagt frá tilmælum um sóttvarnir og ferðatakmarkanir. Af öðrum málefnum má nefna að birt hafa verið drög að tilskipun um lágmarkslaun og framkvæmdastjórnin hefur kynnt verkáætlun sína fyrir 2021. Loks er farið í saumana á aðgerðum ESB sem beinast gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Nánar um þau mál hér, en við minnum einnig á að hægt er að gerast áskrifandi að vaktinni.

Í Osló tökum við upp þráðinn frá því í síðustu viku þar sem súrdeigsbrauð var á dagskrá. Og líkt og búið var að lofa deildi Harpa Ósk Einarsdóttir með þeim sem fylgjast vel með í Osló uppskrift sinni af súrdeigsbrauði.

Í Helsinki þakkaði Auðunn Atlason sendiherra Heikki Laaksonen, fráfarandi ræðismanni Íslands í Finnlandi, fyrir vel unnin störf í þágu utanríkisþjónustunnar.

Starfsfólk sendiráðs okkar í London fundaði hins vegar með ræðismönnum Íslands sem vinna auðvitað ómetanlegt starf og sýndu svo sannarlega úr hverju þeir eru gerðir þegar kórónuveirufaraldurinn skall á heimsbyggðina.

Í París voru jafnréttismál í breiðum skilningi til umræðu á fundi vinahóps Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnuar SÞ (UNESCO) sem vinnur að kynjajafnrétti innan stofnunarinnar og í verkefnum hennar. Unnur Orradóttir-Ramette, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá UNESCO, stjórnaði umræðum en hún er nýtekin við sem formaður vinahópsins ásamt fastafulltrúa Óman.

Sendiráð okkar í Lilongwe í Malaví opnaði á ný í vikunni eftir sex mánaða lokun vegna heimsfaraldursins Starfsfólk okkar stillti sér upp ímyndatöku og brosti sínu breiðasta þótt það sjáist ekki endilega á myndinni.

The Embassy is finally open again and fully staffed after 6 months closure due to COVID-19! We are ecstatic and smiling although you might not see it 😷😃

Posted by Embassy of Iceland in Lilongwe on Tuesday, 27 October 2020


Að lokum bendum við fólki á áhugavert sérblað um heimsmarkmið sem kom út með Fréttablaðinu í dag. Hægt er að nálgast það hér.

Upplýsingadeild þakkar fyrir að sinni.

Góða helgi!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta