Föstudagspósturinn 13. nóvember
Heil og sæl.
Við heilsum ykkur á föstudeginum þrettánda, daginn eftir mikla rússíbanareið íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem mistókst að komast á þriðja stórmótið í röð. Upplýsingadeild viðurkennir, líkt og utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í gær, að hún var ansi spennt fyrir leiknum, sem fór því miður ekki á okkar veg. En líkt og landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sagði í gær markar leikurinn engin endalok. „Það er stutt í næstu undankeppni,“ sagði Aron Einar.
Við vorum saman á útivelli í gær en samnefnd skýrsla var m.a. til umræðu á fjölsóttum fundi Guðlaugs Þórs um viðskiptamál og stuðning við atvinnulífið sem einnig fór fram í gær.
Fundurinn var haldinn í samvinnu við Íslandsstofu og Samtök atvinnulífsins, en auk Guðlaugs Þórs tóku Bergþóra Halldórsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins til máls. Á annað hundrað þátttakenda skráðu sig til fundarins, sem var haldinn á Teams.
Á fundinum var fjallað um nýjungar sem utanríkisráðuneytið hefur ráðist í til stuðnings við íslenskt atvinnulíf, einkum á tímum Covid-19. Aðgerðirnar grundvallast á skýrslunni Saman á útivelli.
„Á tímum sem þessum er mikilvægt að snúa bökum saman. Við í utanríkisráðuneytinu gerum lítið upp á eigin spýtur heldur eigum við í virkri samvinnu við önnur ráðuneyti og atvinnulífið. Samstarf við fyrirtækin í landinu skiptir okkur í utanríkisráðuneytinu öllu máli þegar kemur að næstu skrefum í þróun og framkvæmd á utanríkisviðskiptastefnu Íslands,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn.
Þetta er ekki eini fjölsótti fundurinn sem Guðlaugur Þór hefur staðið fyrir í vikunni því í hádeginu á miðvikudag efndi hann til opins fyrirspurnatíma í beinu vefstreymi á Facebook.
Ég þakka góðar viðtökur á óundirbúnum fyrirspurnatíma hér á síðunni minni í dag en þegar þetta er skrifað hafa rúmlega...
Posted by Guðlaugur Þór Þórðarson on Wednesday, 11 November 2020
Þá tók ráðherra einnig þátt í reglulegum fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópuþingsins í vikunni.
Í ávarpi sínu lýsti utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ánægju með samstarf Íslands og ESB á vettvangi EES og lagði áherslu á virka þátttöku Alþingis í rekstri samningsins. Guðlaugur Þór ræddi einnig skilyrði fyrir viðskipti með fisk og landbúnaðarvörur á innri markaðnum, reynsluna af landbúnaðarsamningnum frá 2015, áhrif þess að Bretland dragi sig út úr honum við útgöngu úr Evrópusambandinu og framtíðarviðræður við Bretland.
Í vikunni kom skýrsla Björns Bjarnasonar um norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála út í íslenskri þýðingu og af því tilefni ritaði ráðherra grein í Fréttablaðið.
Þar segir meðal annars: „Öryggisumhverfi okkar hefur gjörbreyst síðastliðinn áratug. Þannig þýða loftslagsbreytingar og fjölþáttaógnir á borð við netárásir og upplýsingaóreiðu að sá stöðugleiki sem við höfum búið við er ekki lengur sjálfsagður. Við eigum allt okkar undir því að verjast þessum ógnum, og það getum við ekki ein. Í þessu samhengi hafði ég frumkvæði að því að Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra og alþingismanni, skyldi á vettvangi norrænnar samvinnu falið að gera nýjar tillögur um hvernig Norðurlöndin gætu aukið samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála, með sérstakri áherslu á ofangreindar ógnir.“
Fleiri voru með pennann á lofti en utanríkisráðherrar Norðurlandannan rituðu sameiginlega grein í Fréttablaðið um Norðurslóðir og þær áskoranir sem blasa við á því svæði.
„Alþjóðlegur áhugi á norðurslóðum fer vaxandi vegna áhrifa loftslagsbreytinga og mögulegra efnahagstækifæra á svæðinu. Jafnframt hefur aukin spenna á alþjóðavettvangi sett mark sitt á öryggisumhverfið. Nú þegar blikur eru á lofti viljum við undirstrika að það er ekkert lögfræðilegt tómarúm á norðurslóðum. Málefni svæðisins lúta alþjóðalögum og þar gildir hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Nauðsynlegt stofnanaverk er til staðar, með Norðurskautsráðið í öndvegi, og við teljum ekki þörf á neinum nýjum stofnunum,“ sagði meðal annars í greininni.
Í vikunni fór fram heimsþing kvenleiðtoga, Reykjavík Global Forum - Women Leaders. Miðpunktur þingsins var í Hörpu, þar sem m.a. var rætt við ráðherra (og sjá má að neðan) en að megninu til var um fjarviðburði að ræða.
Okkar konur í sendiráðum Íslands um allan heim sendu góða kveðju á þingið í afar fínu myndskeiði sem sjá má hér að neðan, en þess ber að geta að helmingur sendiherra í tvíhliða sendiráðum Íslands eru konur.
Þá tók Estrid Brekkan, prótokollsstjóri, þátt í árlegri athöfn í Fossvogskirkjugarði til að minnast stríðslokadags fyrri heimsstyrjaldarinnar.
En að vanda var ýmislegt um að vera í sendiskrifstofum okkar.
Við hefjum leik í Tókýó en þar sögðum við frá opnun nýrrar skrifstofu heilbrigðistæknifyrirtækisins Össurar. Með opnun í Tókýó hefur Össur opnað eina sína stærstu starfsstöð í Asíu en mikill áhugi er í Japan á lausnum Össurar og hefur fyrirtækið verið mjög sýnilegt í aðdraganda Paralympics sem eiga að fara fram sumarið 2021. Í tilefni af opnunni opnuðu Elín Flygenring, sendiherra og Shoko Nireki framkvæmdastjóri Össur Japan hefbundna sake tunnu (kagamibiraki), viðstöddum gestum til mikillar ánægju.
Í Kína hefur starfsfólk sendiskrifstofu okkar í Peking staðið í ströngu en á dögunum sótti það i hina árlegu innflutningskaupstefnu CIIE (China International Import Expo) í Shanghai á dögunum. Ferðin var einnig nýtt til þess að sækja ráðstefnur um netverslun, sjálfbærni og viðskipta- og efnahagsmál, funda með kínverskum yfirvöldum um norðurslóðamál, og funda með kínverskum fyrirtækjum og einstaklingum úr kínversku viðskiptalífi með tengsl við Ísland. Jafnframt hitti starfsfólkið fyrir nokkra íslenska námsmenn í borginni.
Á meðal þess sem vakti sérstaka athygli var fundur með með forseta flugfélagsins Juneyao Air, Zhao Hong Liang, sem lýsti yfir áframhaldandi áhuga á flugi til Íslands þegar aðstæður vegna heimsfaraldursins leyfa en um þetta var einnig fjallað á forsíðu Morgunblaðsins í dag.
Við færum okkur nú yfir Kyrrahafið og á vesturströnd Bandaríkjanna en á miðvikudag fór fram fundur sem viðskiptaráð Norðurlanda í New York efndu til þar sem rætt var um aðgerðir sem hrinda þarf í framkvæmd í kjölfar Covid-19 á næstu tíu árum til þess að uppfylla megi heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
„Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru nú sem endranær leiðarljós okkar út úr þessari krísu og varða leið okkar að sjálfbærni og efnahagsbata“, sagði Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, m.a. í pallborðsumræðum. Á fundinum sagði Hlynur Guðjónsson, aðalræðismaður og viðskiptafulltrúi Íslands í New York, Norðurlöndin hvetja til fjölþjóðlegrar samvinnu sem væri tækið til þess að takast á við hnattrænar áskoranir og að standa þyrfti vörð um mannréttindi, sem ættu undir högg að sækja, lýðræði og réttarríkið. Upptöku af fundinum má nálgast hér.
Í sendiráðinu í Washington fór fram viðburður í tengslum við heimsþing kvenleiðtoga þar sem sóttvarnir voru í hávegum hafðar en m.a. var rætt um leiðir til þess að fjölga konum í stjórnunarstöðum. Þar á bæ hélt einnig kynning á ræðismönnum Íslands í Bandaríkjunum áfram en að þessu sinni var komið að því að kynna Matthías Eggertson til leiks.
Við förum svo ekki ýkja langt en Brian Bowman, borgarstjóri í Winnipeg, sendi Guðmundi Árna Stefánssyni, aðalræðismanni Íslands þar í borg, skemmtilega kveðju á Facebook sem sjá má hér.
Í Genf hefur samninganefnd WTO um ríkisstyrki í sjávarútvegi fundað reglulega til að freista þess að ljúka samningi um afnám ríkisstyrkja til ósjálfbærra fiskveiða fyrir lok þessa árs. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fela WTO að ná samningum um hvernig tryggja megi að ríkisstyrkir stuðli ekki að ósjálfbærri nýtingu fiskistofna. Katrín Einarsdóttir, varafastafulltrúi og Matthías G. Pálsson, sérlegur erindreki um málefni hafsins eru fulltrúar Íslands í samninganefndinni.
Þá bárust jákvæðar fréttir frá London þar sem farþegar frá Íslandi þurfa nú ekki lengur (frá og með morgundeginum) að fara í hálfsmánaðar sóttkví við komuna til Bretlands.
„Frekari einangrun landsins eykur á þær efnahagsþrengingar sem við göngum nú í gegnum, góð samskipti og greiðar samgöngur eru hins vegar leiðin út úr þeim,“ sagði ráðherra m.a. á Facebook-síðu sinni.
Á móti kemur hefur ríkisstjórn Grænlands í samvinnu við dönsk yfirvöld ákveðið að hætta að fljúga á milli Grænlands og Íslands en ákvörðunin gildir að öllu óbreyttu til 31. janúar 2021. Er ákvörðunin tekin vegna aukinnar smithættu í öðrum löndum. „Þessu er því ekki beint gegn Íslandi, enda hafa tölur heima verið mjög á niðurleið," sagði aftur á móti á Facebook-síðu aðalræðisskrifstofu Íslands í Nuuk.
Í Osló hefur sendiráð Íslands flust tímabundið á milli hæða en eins og sjá má á meðfylgjandi myndum standa miklar framkvæmdir yfir. Sendiráðið áætlar að geta opnað á ný á 8. hæð á vormánuðum.
Gleðilegan föstudaginn þréttanda 2020!🥳 Það gengur mikið á í húsnæði sendiráðsins þessa dagana eins og sjá má á...
Posted by Islands ambassade i Oslo / Sendiráð Íslands í Osló on Friday, 13 November 2020
Í Finnlandi fékk sendiráð okkar góða heimsókn frá Ísey Skyr en í ár eru 10 ár síðan íslenska skyrið var s[l]ett á markað í Finnlandi. Í dag er skyr í yfir 2.000 verslunum um allt Finnland. Þar á bæ var einnig haldinn „Reykjavík Satellite“ viðburður í tengslum við heimsþing kvenleiðtoga, þar sem fjallað var um jafnrétti kynjanna.
Í því samhengi birtum við hér einnig hvetjandi orð frá sendiskrifstofu okkar í Malaví.
🇲🇼🌍🇮🇸 REYKJAVIK GLOBAL FORUM WOMEN LEADERS #PowerTogether “It’s time! Women will not be sidelined anymore” 📣 Rich,...
Posted by Embassy of Iceland in Lilongwe on Tuesday, 10 November 2020
Við endum þessa yfirferð á sögumola á fortíðarfimmtudegi (e. Throwback Thursday) þar sem opinber heimsókn utanríkisráðherra Kína frá 1995 var rifjuð upp.
#ThrowbackThursday 📷 Mynd frá opinberri heimsókn utanríkisráðherra Kína 🇨🇳 árið 1995. Á myndinni má sjá nokkra núverandi...
Posted by Utanríkisráðuneytið - utanríkisþjónusta Íslands on Thursday, 12 November 2020
Góða helgi,
upplýsingadeild