Hoppa yfir valmynd
23. desember 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur á Þorláksmessu

Heil og sæl! 

Við heilsum ykkur í þetta sinn á Þorláksmessu með hátíð ljóss og friðar handan við hornið og rifjum upp það helsta sem hefur gerst í utanríkisþjónustunni á þessum síðustu dögum fyrir jól.

Við byrjun á tollamálum! Í síðustu viku óskaði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra eftir því við Evrópusambandið að tollasamningur Íslands og ESB um landbúnaðarvörur verði endurskoðaður en úttekt á hagsmunum Íslands sýnir að forsendur samningsins hafa breyst og ójafnvægi er á milli samningsaðila, íslenskum útflytjendum í óhag. Markmið tollasamningsins frá 2015 er að skapa tækifæri til aukinna viðskipta milli Íslands og ESB en hann hvílir á þeirri forsendu að jafnvægi sé á milli samningsaðila. Úttektin var unnin í nánu samráði við hagsmunaaðila, forsvarsmenn bænda og afurðastöðva, verslunar og þjónustu, verkalýðshreyfinguna og samtök neytenda. Í henni kemur fram að nýting íslenskra útflytjenda á kvótum til ESB sé í flestum tilfellum lítil eða engin á meðan tollkvótar til innflutnings frá ESB hafa nær allir verið fullnýttir og umtalsvert magn flutt inn utan kvóta. 

Evrópusambandinu hefur verið tilkynnt um þessa ákvörðun og verður allt kapp lagt á að hefja og ljúka viðræðum eins fljótt og kostur er. Slíkar viðræður munu ekki hafa áhrif á núgildandi samning sem heldur gildi sínu þar til nýr samningur tekur við. Mbl.is, Vísir og RÚV fjölluðu m.a. um málið sem fór víða en í samtali við RÚV sagði Guðlaugur Þór m.a.:  „Við erum fyrst og fremst að reyna að fá hérna jöfnuð af þessum augljósu ástæðum sem ég hér nefndi. En bara svona út af umræðunni þá eru við áfram að fara flytja inn hefðbundna landbúnaðarvörur og neysluvenjur okkar hafa breyst mjög mikið og það er enginn að fara að taka parmesan af borðum Íslendinga svo það sé bara sagt,“ segir Guðlaugur. 

Í síðustu viku var einnig undirritaður loftferðasamningur milli Íslands og Bretlands en með honum voru flugsamgöngur tryggðar á milli ríkjanna eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. „Fluggeirinn skiptir íslenskt efnahagslíf höfuðmáli og í því sambandi gegna flugsamgöngur við Bretland lykilhlutverki, bæði hvað varðar vöruflutninga og ferðalög fólks. Undirritunin í dag markar því tímamót því þar með helst loftbrúin á milli ríkjanna áfram opin og greið,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson meðal annars en af sama tilefni átti ráðherra einnig fjarfund með Robert Courts, ráðherra flug- og siglingamála og almannaöryggis í bresku ríkisstjórninni í gær. 

Alþingi samþykkti einnig frumvarp ráðherra til laga um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands sem er betur þekkt sem sendiherrafrumvarpið. Um það sagði ráðherra: „Þegar ég kom í ráðuneytið var fjórði hver diplómati sendiherra og allar líkur á því að við höfum átt heimsmet í fjölda sendiherra miðað við höfðatölu. Þeir tímar eru nú liðnir að ráðherrar geti skipað eftir eigin geðþótta sendiherra sem síðan sitja í stöðum sínum starfsævina á enda,“ sagði Guðlaugur Þór m.a. í innslagi á Facebook sem sjá má hér.

Hitt og þetta hefur einnig verið á dagskrá ráðhera að undanförnu. 

14. desember undirritaði Guðlaugur Þór nýjan rammasamning við UN Women um stuðning Íslands við samtökin og gildir samningurinn til ársloka 2023. Samningurinn veitir heildræna umgjörð utan um samstarf Íslands og stofnunarinnar og styður við jafnréttismál í þróunarsamvinnu.

16. desember fundaði ráðherra með utanríkisráðherra Tékklands, Tomáš Petříček, þar sem samskipti ríkjanna, norðurslóðarmál, samstarf á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og EES-samningurinn voru helstu umræðuefnin

18. desember ákvað Guðlaugur Þór að framlengja til næstu fjögurra ára samstarfssamning við orkusjóð Alþjóðabankans (ESMAP) en Ísland fjármagnar stöðu jarðhitasérfræðings hjá sjóðnum. Sjóðurinn kemur að mótun og undirbúningi verkefna á sviði endurnýjanlegrar orku í þróunarríkjum, sem síðar koma til fjármögnunar hjá bankanum og fleiri aðilum. Jafnframt er sjóðurinn mikilvægt þekkingarsetur um endurnýjanlega orku.

Sama dag tók ráðherra þátt í fundi NB8-ríkjanna en þar voru þróun mála á alþjóðavettvangi og í Evrópu og aukið mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið efst á baugi.

Nú á mánudag tók Guðlaugur Þór svo þátt í fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Kanada þar sem rætt var um samskipti Kanada og Norðurlandanna og mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið. Góður samhljómur var í máli norrænu ráðherranna og kanadíska ráðherrans, François-Philippe Champagne og lögðu allir áherslu á að ríkin sex deildu mjög afstöðu til helstu álitaefna samtímans og gætu unnið enn betur saman í framtíðinni.

Fjórði fundur sameiginlegu nefndar Íslands og Kína á grundvelli fríverslunarsamnings landanna fór einnig fram í síðustu viku en það voru Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu og Chen Ning skrifstofustjóri í kínverska alþjóðaefnahagsráðuneytinu sem stýrðu fjarfundinum í sameiningu. Á fundinum var farið almennt yfir viðskipti milli landanna, efnahagsástand á tímum kórónuveirufaraldurs og hvernig Ísland og Kína geta eflt samvinnu ríkjanna þegar honum lýkur, ekki síst á sviði ferðaþjónustu.

Þá undirritaði utanríkisráðuneytið og Fulbright stofnunin á Íslandi á dögunum samning um áframhaldandi styrki fyrir fræðimenn á sviði málefna norðurslóða.
„Samningurinn við Fullbright hefur reynst afar mikilvægur til að efla samstarf Íslands og Bandaríkjanna á norðurslóðum. Framúrskarandi bandarískt fræðafólk hefur átt kost á að dvelja eina önn á Íslandi og færa íslensku fræðasamfélagi nýja þekkingu og sýn á viðfangsefnið. Þó það sé í sjálfu sér dýrmætt þá er langtíma samstarfið og samböndin sem hafa orðið til fyrir tilstuðlan styrkjanna enn dýrmætari,“ sagði Guðlaugur Þór um málið.

Á vettvangi heimasendiherra stóð svo Sigríður Snævarr sendiherra fyrir fjarhádegisverði i með norrænum starfsystkinum sínum í Malasíu, kjörræðismanni Íslands í Kuala Lumpur og Má Guðmundssyni, fyrrverandi seðlabankastjóra, sem flutti framsögu.

Lítum nú til sendiskrifstofa okkar úti í heimi sem margar hverjar eru í jólaskapi þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn sem setur auðvitað ýmsar hefðir (og ferðir) úr skorðum.

Berlín er þar engin undantekning. Bókin Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson er fyrir marga órjúfanlegur hluti af aðventunni. Sendiráðið í Berlín hefur, í samstarfi við Skriðuklaustur, um árabil staðið fyrir viðburði í byrjun desember, þar sem hinn kunni þýski leikari Matthias Scherwenikas les valda kafla úr bókinni, og komast færri að sem vilja. Að þessu sinni las Matthias alla bókina (!) og hefur upplesturinn færður í netheima. Hægt er að nálgast upptökuna hér.

Sendiráðið í Berlín, sem jafnframt er sendiráð gagnvart Póllandi og Króatíu, tók í síðustu viku einnig þátt í ársfundi Uppbyggingarsjóðs EES þar í landi. Sjóðurinn er fjármagnaður af Íslandi, Liechtenstein og Noregi og hefur að markmiði að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan EES og efla tvíhliða samstarf milli EFTA ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins. Verkefni sem íslenskir aðilar koma að í Króatíu eru aðallega á sviði jafnréttismála og orku- og jarðhitamála.  Á núverandi fjármögnunartímabili er lögð áhersla á tvíhliða verkefni milli viðkomandi ríkja og hvers og eins EES-EFTA ríkis og tók sendiráðið einnig þátt í fundi með pólskum stjórnvöldum um verkefni þar í landi. 

Í París var þess minnst þann 14. desember sl. að 60 ár væru liðin frá því að stofnsáttmáli Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) var undirritaður, en Ísland var meðal stofnríkja. Markmið stofnunarinnar er að stuðla að varanlegum hagvexti, háu atvinnustigi, almennri efnahagsþróun og þróun heimsviðskipta. Innan OECD starfar þróunarsamvinnunefnd (DAC) sem Ísland er aðili að, en nefndin er samstarfsvettvangur OECD ríkja sem veita þróunaraðstoð.

Okkar fólk í París birti svo einnig þessa fínu mynd og óskaði gleðilegra jóla.

Þá er einnig vert að vekja athygli á færslu Brussel-vaktarinnar þar sem segir m.a. frá metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum.

Í Finnlandi afhenti Auðunn Atlason á dögunum trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Lettlandi með aðsetur í Helsinki. Athöfnin var í formi rafræns fundar með Egils Levits forseta Lettlands og er þetta í fyrsta skipti sem sendiherra erlends ríkis afhendir trúnaðarbréf með þeim hætti. Þar fór einnig fram áhugavert málþing sem finnska þjóðskjalasafnið stóð fyrir um stuðning Íslands við Finnland í vetrarstríðinu. Nánar um það hér.

Í Noregi hefur sendiráðið verið duglegt að kynna til leiks íslensku jólasveinana (eins og svo mörg önnur sendiráð raunar). Það er aftur á móti enginn jólasveinn sem stýrir norska kvennalandsliðinu í handknattleik, heldur Íslendingurinn Þórir Hergeirsson, og að sjálfsögðu fékk liðið kveðju frá sendiráðinu. 

Starfsfólk sendiráðs okkar í Osló sendi einnig skemmtilega jólakveðju á Faceboo:

Kæru Íslendingar og Íslandsvinir❤️ 🇮🇸 Með jólamynd af starfsmönnum sendiráðsins í Osló sendum við hátíðarkveðjur og...

Posted by Islands ambassade i Oslo / Sendiráð Íslands í Osló on Friday, 18 December 2020

Á lokafundi samninganefndar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) fyrir 2020 sem fram fór í Genf í síðustu viku er hefðbundið að farið sé yfir árið og árangri fagnað og áskoranir ræddar. Ríkjum var þar auðvitað tíðrætt um áhrif COVID-19 sem hefur haft gríðarleg áhrif á alþjóðaviðskipti. Nokkur fjöldi ríkja fagnaði hins vegar þeim árangri sem náðst hefur m.a. fyrir tilstilli Íslands að nú hafi tekið til starfa sérstakur vinnuhópur um viðskipti og jafnrétti. Mikilvægt sé að byggja alþjóðaviðskipti aftur upp og aukið jafnrétti geti þar stuðlað að bæði bættum mannréttindum og auknum viðskiptum. Fyrir áhugasama má lesa meira um hópinn hér.

Þá var Ísland í hópi nokkurra aðildarríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), sem minntust þess á fastaráðsfundi stofnunarinnar 17. desember að tvö ár væru liðin frá því að ríkin settu af stað rannsókn á alvarlegum mannréttindabrotum gagnvart LGBTI-fólki og formælendum þess í Tsjetsjeníu-lýðveldinu í Rússneska sambandsríkinu innan ramma Moskvu-aðferðarinnar svokölluðu hjá ÖSE.

Að endingu vekjum við svo athygli á skemmtilegri jólakveðju  Atlantshafsbandalagsins í ár sem tekin var upp hér á landi. Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar (og vélmenni sveitarinnar) er þar aðalhlutverki en sveitin hefur um árabil tekið þátt í verkefnum undir merkjum Atlantshafsbandalagsins, meðal annars á sviði þjálfunar í sprengjueyðingu á átakasvæðum. Þá sér sveitin um alþjóðlega æfingu sprengjusérfræðinga, Northern Challenge, sem fer fram hér á landi árlega en Atlantshafsbandalagið er bakhjarl hennar.

 

Upplýsingadeild færir ykkur bestu óskir um gleðileg jól og farsældar á nýju ári!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta