Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 12. febrúar 2021

Heil og sæl.

Við færum ykkur hér það helsta sem hefur verið á dagskrá í utanríkisþjónustunni í vikunni.

Í gær var þeirra tímamóta minnst að 30 ár væru liðin frá því að Ísland viðurkenndi fyrst ríkja sjálfstæði Litáens eftir lok kalda stríðsins. Af því tilefni færði Inga Minelgaité, kjörræðismaður Litáens á Íslandi, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, blóm og þakkir, hér í utanríkisráðuneytinu.

„Íslendingar eru stoltir af hlutverki sínu í sjálfstæðisbaráttu Litáens. Hugrekki og staðfesta Litáa á umbrotatímum undir lok kalda stríðsins voru þau gildi sem vörðuðu leið þjóðarinnar í átt til frelsis og lýðræðis,“ sagði Guðlaugur Þór af þessu tilefni.

Fjallað var um þessi tímamót í fjölmiðlum í gær, meðal annars á RÚV og á vef Morgunblaðsins.

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra svaraði einnig kveðju Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litáens, með hlýjum orðum í garð litaísku þjóðarinnar.

Þá ræddi Guðlaugur Þór um þetta mál í Síðdegisútvarpinu á RÚV í gær. Þar voru annars málefni þróunarsamvinnu efst á baugi. Ráðherra ritaði grein í Fréttblaðið sem kom út í gær sem skrifuð var í tilefni fræðsluátaksins „Þróunarsamvinna ber ávöxt“ sem er á vegum félagasamtaka er starfa í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu, í samstarfi við utanríkisráðuneytið. 

Þessu tengt var fræðsluþátturinn Stóra myndin: COVID og heimsbyggðin sýnd á RÚV í vikunni. Myndin fjallar um áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar víða um heim og nutu þáttastjórnendur RÚV aðstoðar sérfræðinga í þróunarsamvinnu sem þekkja stöðuna á viðkvæmum svæðum af eigin raun.

Guðlaugur Þór var einnig til viðtals á RÚV og mbl.is í gær eftir að fréttir bárust af því að sádiarabíska baráttukonan Loujain al-Hathloul var látin laus úr fangelsi.

Við gefum ráðherra orðið:

Í gær bárust þær gleðifréttir að sádiarabíska baráttukonan Loujain al-Hathloul hefði verið látin laus úr fangelsi....

Posted by Guðlaugur Þór Þórðarson on Thursday, 11 February 2021


Guðlaugur Þór hélt áfram að rifja upp ráðherratíð sína og í nýjasta myndskeiðinu er fjallað um grannríkjasamstarf Íslands en af því tilefni ritaði hann einnig grein í Morgunblaðið.

 

Þessu til viðbótar tók Guðlaugur Þór þátt í fjarmálstofu um loftslagsmál, Hanalys 2021, með öðrum utanríkisráðherrum Norðurlandanna.„Við eigum sameiginlega framtíðarsýn um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Það felur í sér að tryggja að áherslur einkageirans og fjárfesta verði á grænar og hreinar fjárfestingar og að atvinnulífið taki ábyrgð á grænum umbreytingum hagkerfa okkar,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi sínu.

Jafnframt tók ráðherra þátt í sérstökum viðburði um samskipti Íslands og Bandaríkjanna sem samtökin Meridian International Center í Washington DC stóðu fyrir í dag. Lagði ráðherra áherslu á einstakt samband Íslands og Bandaríkjanna sem grundvallaðist á sameiginlegum gildum og hagsmunum og ætti rætur í tvíhliða öryggis- og varnarsamstarf ríkjanna.

Þá sló Guðlaugur Þór einnig á létta strengi á Facebook-síðu sinni og brá sér aftur til fortíðar. Um þetta athæfi er óþarfi að hafa mörg orð enda segir myndin hér að neðan meira en mörg orð.

Aftur til fortíðar! Finnst líklegt að ég sé eini utanríkisráðherrann sem hef pissað í ræsið fyrir framan Sparisjóð...

Posted by Guðlaugur Þór Þórðarson on Tuesday, 9 February 2021

Í dag sögðum við svo einnig frá því að íslensk stjórnvöld hefðu að beiðni Atlantshafsbandalagsins tekið að sér að aðstoða aðgerðastjórn bandalagsins í Kósóvó (KFOR) við stjórn neðra loftrýmis í landinu. Aðstoð Íslands felst í að leggja mat á að flugmálayfirvöld í Kósóvó fylgi alþjóðlega viðurkenndum stöðlum fyrir flugsamgöngur og er framkvæmd þeirrar aðstoðar í höndum  Samgöngustofu. 

Þessu næst ætlum við að líta til sendiskrifstofa okkar. 

Í Genf leiðir Ísland í fyrsta sinn kjarnahóp ríkja til að leggja fram ályktun fyrir mannréttindaráðið um mannréttindaástandið í Íran en ályktunin hefur það að markmiði að tryggja áframhaldandi starf sérstaks fulltrúa ráðsins um stöðu mannréttinda í landinu. Harald Aspelund fastafulltrúi kynnti ályktunina fyrir ráðinu á fjarfundi í gær en er Ísland þar í fyrirsvari fyrir Bretland, Norður-Makedóníu og Móldóvu sem leggja ályktunina fram saman.

Í Brussel hélt Kristján Andri Stefánsson sendiherra erindi á þriðjudag á árlegri málstofu EFTA um evrópska efnahagssvæðið, en Ísland fer með formennsku í fastanefnd EFTA á fyrri hluta ársins. Tilgangur málstofunnar var að veita sérfræðingum, innan og utan Evrópusambandsins, þekkingu og skilning á EES-samningnum, og hvernig samningurinn veitir Íslandi, Liechtenstein og Noregi aðild að innri markaðnum.

Á miðvikudag tók Kristján Andri svo þátt í hátíðarmálþingi Orators, félags laganema við lagadeild Háskóla Íslands, um Ísland og Evrópusamstarfið. Í erindi sínu lagði hann áherslu á þýðingu EES-samstarfsins og gerði grein fyrir á hvaða hátt virk þátttaka og öflug hagsmunagæsla getur skipt sköpum í EES-samstarfinu. 

Í Kaupmannahöfn vakti sendiráðið athygli á skemmtilegu verki sem nefnist Corona - Black Hole Sun og prýðir gafl Norðurbryggju þar sem sendiráðið er til húsa. Verkið er eitt meginverk sýningarinnar Copenhagen Light Festival sem nú stendur yfir.

Þessa dagana prýðir verkið Corona - Black Hole Sun gafl Norðurbryggju og sendiráðsins, en verkið er eitt meginverk sýningarinnar Copenhagen Light Festival, sem hófst þann 5.febrúar og stendur til 27. febrúar.

Posted by Islands Ambassade i København / Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn on Sunday, 7 February 2021

Í Berlín ræddi María Erla Marelsdóttir sendiherra á hádegisfundi MEERI PAS/Polen og Orkustofnunar um uppbyggingu á sviði orku og jarmvarma í Póllandi sem býr yfir lághitasvæðum. Pólland er umdæmisríki sendiráðs Íslands í Berlín.

Í Heimsljósi var í vikunni meðal annars sagt frá því að utanríkisráðuneytið hefur samið við Íslenskar Orkurannsóknir (ÍSOR) um hýsingu og rekstur Jarðhitaskólans. Einnig var sagt frá framlagi ráðuneytisins til UNESCO um stuðning við skapandi greinar og menningarstarf í Beirút, höfuðborg Líbanons.

„Sköpun, menning og listir skipta hvert samfélag miklu máli. Við erum sannfærð um að þetta framlag, fimmtán milljónir íslenskra króna, hjálpi Beirútbúum við að endurlífga menningarlífið með þjálfun og endurbótum eftir sprenginguna miklu í ágúst,“sagði Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París en hún er jafnframt fastafulltrúi Íslands hjá UNESCO.

Heimsljós vakti líka athygli á nýhafinni neyðarsöfnun Rauða krossins á Ísland vegna COVID ástandsins í Malaví sem er annað tveggja samstarfslanda Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu.

Á dagskrá ráðherra í næstu viku er meðal annars kynning á Grænlandsskýrslu fyrir utanríkismálanefnd Alþingis, fundur varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins og þátttaka á fundi Grænlensk-íslenska viðskiptaráðsins.

Fleira var það ekki í bili.

Góða helgi!

Upplýsingdeild


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta