Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 26. febrúar 2021

Heil og sæl! 

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum vel hrist eftir jarðskjálftakippi og færum ykkur það helsta sem hefur átt sér stað í utanríkisþjónustunni í vikunni. 

Við hefjum leik í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ávarpaði á þriðjudag. Í ávarpi sínu varaði ráðherra við því að heimsfaraldurinn væri notaður sem átylla til að skerða frelsi og borgaraleg réttindi. „Faraldurinn má ekki nota til að réttlæta skerðingar á frelsi og borgaralegum réttindum til langframa,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi sínu og bætti við að róa yrði að því öllum árum að tryggja þau gildi sem skiptu okkur svo miklu: frið og öryggi, réttarríkið og mannréttindi, þar á meðal réttindi kvenna, barna og LGBTI+ fólks.

Þetta er í fimmta sinn sem Guðlaugur Þór ávarpar mannréttindaráðið en hann var fyrstur íslenskra utanríkisráðherra til að sækja ráðherraviku mannréttindaráðsins árið 2017. Um fjarfund var að ræða að þessu sinni vegna heimsfaraldursins.

Guðlaugur Þór fagnaði sérstaklega ákvörðun Bandaríkjastjórnar að gerast aftur virkur þátttakandi í starfi mannréttindaráðsins eins og sjá má hér að neðan. 


Í tengslum við fundi mannréttindaráðs SÞ tók Guðlaugur Þór einnig þátt í fjarfundi ríkjabandalags um fjölþjóðasamvinnu (e. Alliance for Multilateralism). Í ávarpi sínu ítrekaði Guðlaugur Þór að alþjóðasamfélagið þyrfti að standa vörð um fjölþjóðakerfið og undirstrikaði mikilvægi þess að ríki tækju höndum saman í baráttunni við alheimsáskorarnir á borð við COVID-19 heimsfaraldurinn, loftslagsbreytingar og við að tryggja mannréttindi í tæknivæddum heimi. 

Vikan var annars nokkuð viðburðarík en á miðvikudag skalf Reykjanesskaginn upp á 5,7  þegar út kom skýrsla um ljósleiðaramál og ljósleiðaraþráða. Þar kemur meðal annars fram að starfshópur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra leggi til að hafinn verði formlegur undirbúningur útboðs á tveimur af þremur ljósleiðaraþráðum Atlantshafsbandalagsins á Íslandi í þágu samkeppni á fjarskiptamarkaði, þjóðaröryggis og varnarhagsmuna. Af þessu tilefni ritaði Guðlaugur Þór ásamt Haraldi Benediktssyni, alþingismanni og formanni starfshópsins, grein í Morgunblaðið um málið. 

Fleira var um að vera hjá ráðherra í vikunni. Á mánudag voru tvíhliða samskipti Íslands og Grænlands og niðurstöður skoðanakönnunar sem gefa til kynna að 90% Grænlendinga styðji aukna samvinnu við Ísland á meðal umræðuefna í opnunarávarpi Guðlaugs Þórs á rafrænum fundi Hringborðs norðurslóða - Arctic Circle. 

Á þessu vakti ráðherra sjálfur athygli á Facebook í dag:

 

Það er okkur hvatning að sjá að ný skoðanakönnun sýnir að 90% Grænlendinga vilja aukið samstarf við okkur Íslendinga....

Posted by Guðlaugur Þór Þórðarson on Friday, 26 February 2021

Þá flutti Guðlaugur Þór einnig ávarp á fjarfundi Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins í gær og sat fyrir svörum þar sem meðal annars var rætt viðskiptasamband Ísland við Bandaríkin og Bretland. Áhugasamir geta horft á fundinn hér en umræðunum stýrði Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Washington.

Sama dag sat ráðherra fjarfund með ráðherrum utanríkisviðskipta Bretlands, Noregs og Liechtenstein þar sem rætt var um stöðu og horfur í fríverslunarviðræðum þriggja síðarnefndu ríkjanna við Bretland en viðræðurnar hafa staðið yfir frá því í haust. Viðræður ganga vel og stefnt er að því að þeim ljúki svo fljótt sem auðið er svo að samningur geti tekið gildi á þessu ári

Gærdagurinn var raunar býsna annasamur en í gær opnaði ráðherra einnig fund Útflutnings- og markaðsráðs. Í ávarpi sínu undirstrikaði ráðherra mikilvægi undirbúningsvinnu undanfarinna mánaða við að koma útflutningsgreinunum aftur á skrið.

Í dag birtist svo frétt á vef okkar þar sem greint var frá því að opnað verði fyrir umsóknir um Þróunarfræ sem mun veita fyrirtækjum og einstaklingum forkönnunarstyrki til verkefna á sviði þróunarsamvinnu, einkum með tilliti til nýsköpunar á tímum COVID-19. Um þetta mál ritaði ráðhera grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Snúum okkur næst að starfi sendiskrifstofa okkar. 

Í Washington fundaði Bergdís Ellertsdóttir sendiherra á þriðjudag með þingkonunni Chellie Pingree sem hefur verið mikill stuðningsmaður Íslandsfrumvarpsins svokallaða og frummælandi þess á bandaríska þinginu. Á fimmtudag boðaði Bergdís svo norræna sendiherra í Washington á sinn fund til þess að ræða ýmis mál en einkum tengslamyndun við ný stjórnvöld í Washington.

Okkar fólk í Bandaríkjunum tók einnig þátt í grímunotkunarátaki Joe Bidens Bandaríkjaforseta:

Í tilefni af alþjóðlegum móðurmálsdegi UNESCO á dögunum fékk sendiráðið í París fastafulltrúa Benín, Írlands og Kólumbíu hjá stofnuninni til að spreyta sig á íslensku. Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, sagði einnig frá samstarfsverkefninu Samrómur og mikilvægi þess að tölvur og tæki skilji íslensku. Þema dagsins í ár er að hlúa að fjöltyngi til að stuðla að jöfnu aðgengi, bæði að námi og almennt innan samfélagsins. 

Á þriðjudag tók Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Osló, á móti sendiherra Norður-Makedóníu Serdjim Muhamed í embættisbústað Íslands á Bygdøy sem við það tilefni afhenti afrit trúnaðarbréfs síns sem sendiherra gagnvart Íslandi með aðsetur í Osló. 

Sendiráðið í Osló frumsýndi einnig nýja viðskiptahandbók sem var unnin í nánu samstarfi við norska sendiráðið í Reykjavík. Viðskiptahandbókin á að auðvelda íslenskum og norskum fyrirtækjum og einstaklingum að nálgast nytsamlegar upplýsingar á einum stað til að hefja rekstur í löndunum. Viðskiptahandbókin var kynnt á miðvikudag með móttöku í Reykjavík hjá Aud Lise Norheim sendiherra Noregs. Viðstaddur var Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra í gegnum fjarfundarbúnað.  Kynningin var einnig afar tilkomumikil á samfélagsmiðlum eins og sjá má hér:

 

Í Japan sér svo Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Tókýó, um landkynningu en hann var á dögunum í skemmtilegu innslagi á sjónvarpsstöðinni Nippon TV.

Þá bendum við að endingu á nýja færslu Brussel-vaktarinnar frá því í gær þar sem m.a. er fjallað um öryggis- og varnarmál og COVID-19.

Á dagskrá ráðherra í næstu viku er meðal annars alþjóðleg ráðstefna um plastmengun sem ríkisstjórn Íslands og Norræna ráðherranefndin standa fyrir og fundur norrænna utanríkisráðherra (N5).

Fleira var það ekki í bili.

Góða helgi!

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta