Hoppa yfir valmynd
12. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 12. mars 2021

Heil og sæl.

Við hefjum þessa yfirferð á sérstakri umræðu sem fór fram á Alþingi í gær um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Í grein sinni í Morgunblaðinu sem rituð var af þessu tilefni fagnaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra umræðunni: 

„Gagnrýnin hugsun er undirstaða framfara og drifkraftur stjórnmálanna. Við megum aldrei taka neinu sem gefnu heldur verðum við sífellt að meta samtíma okkar og málefni líðandi stundar með gagnrýnum huga, spyrja spurninga og komast að niðurstöðu sem grundvallast á rökum. Þess vegna fagna ég því að í dag fer fram sérstök umræða á Alþingi um sannkallað grundvallarmálefni sem þó er of sjaldan rætt á þeim vettvangi: aðildina að Atlantshafsbandalaginu,“ sagði ráðherra meðal annars í grein sinni.

Eftir umræðuna í þinginu birti ráðherra svo myndskeið. Þar má meðal annars sjá brot úr ræðu hans á þinginu:  „Hvað með hernaðarógn, hryðjuverkaógn eða netógnir? Væri ábyrgt af íslenskum stjórnvöldum að segja: Líkur á slíkum árásum eru litlar. Við ætlum því að afsala okkur því alþjóðasamstarfi sem hefur verið trygging fyrir öryggi og vörnum lands og þjóðar í bráðum 72 ár. Mitt svar er nei.“ Myndskeiðið má sjá hér.

 

Sérstök umræða á Alþingi í dag um veru Íslands í NATO.

Posted by Guðlaugur Þór Þórðarson on Thursday, 11 March 2021

Þess ber að geta að norski flugherinn stendur nú vaktina í loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins á Íslandi.

Í gær fundaði Guðlaugur Þór með utanríkisráðherrum Norðurlanda og Bretlands þar sem öryggis- og alþjóðamál voru ofarlega á baugi. Þar stýrði ráðherra umræðum um norðurslóðamál. „Norðurslóðir eru til umræðu á nánast öllum fundum sem ég tek þátt í og þessi var engin undantekning. Eftir útgönguna úr Evrópusambandinu huga Bretar nú að norðurslóðum og þeim tækifærum og áskorunum sem búa í svæðinu. Formennskuáherslur Íslands í Norðurskautsráðinu eru mikilvægt innlegg í þá umræðu og því gott að geta hnykkt á þeim á þessum vettvangi,“ sagði Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna tóku einnig höndum saman á mánudag er þeir gáfu frá sér sameiginlega yfirlýsingu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna og áréttuðu skuldbindingar sínar gagnvart jafnrétti kynjanna. Í yfirlýsingunni biðla ráðherrarnir meðal annars til annarra leiðtoga á heimsvísu að hafa jafnréttismálin í öndvegi í uppbyggingunni eftir heimsfaraldurinn, að tryggja þátttöku kvenna í allri ákvarðanatöku og að tvöfalda viðleitni sína til að standa vörð um heilbrigði, réttindi og þarfir allra kvenna og stúlkna.

Þá lauk alþjóðlegri ráðstefnu um plastmengun á norðurslóðum í vikunni en hún var haldin á vegum ríkisstjórnar Íslands og norrænu ráðherranefndarinnar. Við upphaf ráðstefnunnar tilkynnti Guðlaugur Þór að Ísland væri nú komið í hóp ríkja sem berjast gegn svokölluðum drauganetum. Ísland er þar með komið í bandalag, Global Ghost Gear Initiative (GGGI), með 17 öðrum ríkjum, auk fjölda félagasamtaka og fyrirtækja, sem leita leiða til að takast á við vandann sem fylgir yfirgefnum og týndum veiðarfærum í hafinu, svokölluðum drauganetum.

Ráðherra tók einnig þátt í alþjóðlegum fjarfundi um sjálfbæra orku og heimsmarkmiðin á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Í ávarpi sínu Guðlaugur Þór grein fyrir reynslu Íslands af orkuskiptum og nýtingu sjálfbærrar orku í matvælaframleiðslu og sjávarútvegi. Þá kallaði hann  eftir auknum fjárfestingum á heimsvísu í hreinni orku.

Í gær voru 10 ár liðin frá því að einn stærsti jarðskjálfti mannkynssögunnar reið yfir Japan og sendi Guðlaugur Þór Japönum kveðju á Twitter.

Stofnun í Japan sem helguð er endurnýjanlegum orkugjöfum, Renewable Energy Institute, fór þess á leit við Stefán Lárus Stefánsson, sem var sendiherra Íslands í Japan 2008-2013 og upplifði skjálftann, að skrifa grein fyrir heimasíðu hennar. Nánar um það hér.

Til þess að minnast þeirra sem létust í jarðskjálftanum flaggaði sendiráð okkar í Tókyó í hálfa stöng.

 

#東北大震災から10年 が経ちました。震災により故郷を失い、未だに帰れない人々、仮設住宅に住むことを余儀なくされている方々がまだ多くいらっしゃいます。多くの命が失われました。この日を決して忘れぬように、駐日アイスランド大使館も、皆様とともに一早い復興を願い、弊大使館も半旗を掲げます。

Posted by Embassy of Iceland in Tokyo / 駐日アイスランド大使館 on Wednesday, 10 March 2021

En þessu næst ætlum við einmitt að líta til starfsemi sendiskrifstofa okkar. Þar kennir ýmissa grasa.

Við byrjum reyndar á Reykjanesskaga sem heldur áfram að skjálfa en hann hefur einnig sögulega tengingu við atburði síðari heimsstyrjaldarinnar eins og Hermann Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, bendir á á Twitter. 

 

Hægt er að lesa færslu sendiráðs Bandaríkjanna í Reykjavík hér og fréttaskýringu Kjarnans um sama mál hér. Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga voru einnig til umræðu í ráðuneytinu í vikunni þegar Páll Einarsson, prófessor emeritus og doktor í jarðeðlisfræði, flutti fyrirlestur fyrir erlenda sendiherra í Reykjavík. 

Í London var Sturla Sigurjónsson sendiherra afar sáttur enda fékk hann fyrri skammt sinn af bóluefni í vikunni.

Í Berlín efndu sendiráð Norðurlandanna til borgarafundar um jafnréttismál á Twitter undir myllumerkinu #NordicTownHall í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars. María Erla Marelsdóttir sendiherra stóð vaktina ásamt öflugri bakvarðasveit sendiráðsins og sérfræðinga á Íslandi í jafnréttismálum og svaraði fjölbreyttum spurningum um jafnrétti á Íslandi, m.a. fæðingarorlof, jafnlaunavottun, réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks og mikilvægar fyrirmyndir í baráttunni fyrir jafnrétti. Er þetta í þriðja skipti sem sendiráðin standa fyrir svipuðu átaki, en áður hefur verið gefinn kostur á að spyrja sendiherrana um stafræn málefni og loftslags- og umhverfismál. 

Nóg var um að vera hjá okkar fólki í Brussel í vikunni. Sendiráðið stóð fyrir vefviðburði á þriðjudag í samstarfi við Grænvang Íslandsstofu og EFTA helguðum nýsköpun og íslenskum tæknilausnum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Viðburðurinn var liður í formennskuáætlun Íslands í fastanefnd EFTA í EES-samstarfinu á fyrri hluta þessa árs og miðaði að því að setja íslensk sprotafyrirtæki og frumkvöðla í samhengi við Græna sáttmála ESB og stefnumið hans. 

Í upphafi vikunnar tók sendiráðið þátt í norrænum jafnréttisviðburði á alþjóðlega kvennadaginn 8. mars sem norrænu sendiráðin í Brussel stóðu fyrir. Viðburðurinn var helgaður þátttöku kvenna í stjórnmálum og hófst með opnunarávarpi Kristjáns Andra f.h. norrænu sendiherranna. Aðalerindi flutti sænski rithöfundurinn Marianne Hamilton en síðan fóru fram pallborðsumræður m.a. með þátttöku Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. 

Á þriðjudag fór einnig fram fundur EFTA ríkjanna með EFTA vinnuhópi ráðs Evrópusambandsins. Þar gerði Sesselja Sigurðardóttir, staðgengill sendiherra, grein fyrir áherslum EES-EFTA ríkjanna næstu mánuði í formennskutíð Íslands. 

Á miðvikudag fór svo fram fundur ráðgjafarnefndar EFTA með fastanefnd EFTA-ríkjanna. Í upphafi fundarins var Halldórs Grönvöld minnst en hann var þrívegis formaður ráðgjafarnefndarinnar og átti sæti í henni  í 20 ár samfleytt. Ísland er í formennsku fastanefndarinnar þetta misserið og kom því í hlut Kristjáns Andra að flytja nefndinni skýrslu fastanefndar um það sem efst hefur verið á baugi síðustu misserin og horfur framundan.

Þá vekjum við einnig athygli á nýrri færslu Brussel-vaktarinnar: Línur lagðar um stafræna þróun í Evrópu fram til 2030

Í Kína hefur starfsfólk sendiráðs okkar heldur ekki setið auðum höndum. Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra og William Freyr Huntingdon-Williams staðgengill sendiherra sóttu kynningarfund utanríkisráðuneytis Kína fyrir sendiherra Evrópuríkja vegna heimsóknar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) þangað til lands sem hafði það hlutverk að skoða uppruna kórónuveirunnar. Skrifstofustjórar og aðstoðarráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sátu fundinn ásamt prófessor Liang Wannian. Prófessorinn var aðalfulltrúi Kína vegna heimsóknar WHO, og kynnt hann afstöðu Kína og niðurstöður heimsóknarinnar.

Gunnar Snorri, William og Zhang Lin, ritari, funduðu einnig með fulltrúum utanríkisráðuneytis Kína á sviði Norðurslóðamála, en í fyrirsvari fyrir Kína var Gao Feng, sendiherra. Ýmis mál varðandi norðurslóðir voru rædd, m.a. samstarf og samskipti Íslands og Kína á þessu ári og 50 ára afmæli stjórnmálasambands ríkjanna. 

Þá bauð Gunnar Snorri framkvæmdastjóra og fulltrúum UN Women í Kína sem og Chao Sung, fjölmiðlakonu, til hádegisverðafundar. Tilefni fundarins var að ræða möguleika þess að sendiráðið héldi viðburð um stöðu kvenna í Kína, réttindi og þátttöku þeirra í samfélaginu. Ræddir voru ýmsir möguleikar, sem og sértæk viðfangsefni og hvernig slíkur viðburður gæti náð til sem flestra. Fundurinn var óbeint framhald af fundi WPL sem haldinn var í sendiráðinu í fyrra.

Í Genf var haldið upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna líkt og víðast hvar annars staðar. Í höfuðstöðvum WTO var haldinn fundur undir yfirskriftinni „Konur í forystu í heiminum á tímum COVID-19“. Í pallborði sátu framkvæmdastjóri WTO, Dr. Ngozi Okonjo-Iweala, og Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands ásamt fastafulltrúm Botswana og El Salvador sem öll þrjú stýra starfshópi innan WTO um jafnrétti kynjanna.

Í Moskvu heimsótti Árni Þór Sigurðsson sendiherra Dostojevskí-bókasafnið í Moskvu í tilefni af endurútgáfu á meistaraverki Dostojevskís, Karamazov-bræðurnir, í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur. Gerði hann stuttlega grein fyrir íslenskum þýðingum á verkum Fjodors Dostojevskís.

Aðalræðisskrifstofa Íslands í Winnipeg sendi nýjum sendiherra Kanada gagnvart Íslandi, Jeannette Menzies, hamingjuóskir af því tilefni. 

Í Noregi styttist svo í að flutt verði inn í endurbætt húsnæði sendiráðsins. Spennan er mikil, eins og sjá má:

 

🇮🇸 Allt að gerast🛠👏 Hlökkum til að flytja inn í endurbætt húsnæði sendiráðsins á vormánuðum👌 🇳🇴 Her skjer det ting🛠👏 Vi gleder oss til å flytte inn i ambassadens renoverte lokaler i vår👌

Posted by Islands ambassade i Oslo / Sendiráð Íslands í Osló on Thursday, 11 March 2021

 

Við segjum þetta gott í bili. Á dagskrá ráðherra í næstu viku eru m.a. óundirbúnar fyrirspurnir.

Góðar kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta