Hoppa yfir valmynd
19. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 19. mars 2021

Heil og sæl!

Við byrjum á blaðamannafundi sem fór fram hér á Rauðarárstíg í dag þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók við tillögum nefndar þingmanna úr öllum flokkum sem hann hafði falið að endurskoða stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Guðlaugur Þór ritaði jafnframt grein í Morgunblaðið um þessa mikilvægu stefnumörkun í málefnum norðurslóða í sem lesa má hér. Á grundvelli tillagna nefndarinnar mun utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra leggja fram á næstunni tillögu til þingsályktunar um nýja norðurslóðastefnu.

„Málefni norðurslóða eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu og það er tímabært að uppfæra norðurslóðastefnuna. Hún þarf að miða að því að gæta íslenskra hagsmuna í víðu samhengi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Skemmst er frá því að segja að örfáum klukkustundum eftir að blaðamannafundinum lauk hófst eldgos í Geldingadal á Reykjanesskaga. Óvíst er hvort orsakasamhengi er þarna á milli en að undanförnu hafa einhvers konar jarðhræringar hafist í kjölfar blaðamannafunda utanríkis- og þróunarsamvinnu ráðherra. 24. febrúar hófst jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga, einmitt þegar blaðamannafundur um ljósleiðaramál stóð yfir í utanríkisráðuneytinu. Nokkrum dögum síðar varð svonefnds óróapúls vart í fyrsta sinn nánast á sama augnabliki og utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra flutti ávarp á blaðamannafundi í Hörpu vegna formlegrar opnunar Heimstorgs Íslandsstofu.  

Aftur að viðburðum vikunnar. Þá fór einnig fram síðasti fundur embættismannanefndar Norðurskautsráðsins undir íslenskri formennsku. Fundurinn var haldinn á Hilton Nordica í Reykjavík dagana 16. til 18. mars, en Rússland tekur formlega við keflinu á ráðherrafundi í Reykjavík í maí. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ávarpaði fundargesti sem flestallir tóku þátt um fjarfundabúnað. 

Ráðherra flutti einnig ávarp á alþjóðlegum ráðherrafundi á vegum Sameinuðu þjóðanna í gær um framgang og árangur við að ná heimsmarkmiði sex, sem snýst um að tryggja aðgengi allra að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Hann ávarpaði fundinn fyrir hönd vinahóps yfir tuttugu ríkja sem vinnur gegn eyðimerkurmyndun, landeyðingu og áhrifum þurrka. 

Guðlaugur Þór tók svo einnig þátt í hringborðsumræðum á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna og áréttaði þar mikilvægi jafnar þátttöku kynjanna í stjórnmálum og atvinnulífi.


 „Við verðum að hafa í huga að jafnrétti kynjanna er til hagsbóta fyrir alla og leiðir til aukinnar hagsældar fyrir samfélagið í heild,“ sagði ráðherra í máli sínu.

Þá tók Guðlaugur Þór þátt í rafrænum viðskiptafundi Íslands og Tékklands í gær þar sem tækninýjungar frá ríkjunum tveimur á sviði umhverfis- og loftslagsmála voru kynntar. Hugmyndin að viðskiptafundinum var upphaflega rædd á símafundi ráðherranna í desember síðastliðnum í tengslum við gagnkvæman áhuga þeirra á að hvetja til aukinna viðskipta á milli ríkjanna.

Þessu næst lítum við á starfsemi sendirskrifstofa okkar í vikunni.

Fyrir sléttri viku afhenti Unnur Orradóttir-Ramette Joan Enric Vives i Sicília erkibiskupi og co-prins Andorra, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Andorra með aðsetur í París. Þá átti hún fundi með Mariu Ubach Font utanríkisráðherra, Landry Riba, aðstoðarráðherra Evrópumála, Marc Galabert Macià, aðstoðarráðherra nýsköpunar og fjölþættingar atvinnulífs og Marc Pons, framkvæmdastjóra nýsköpunarmiðstöðvar Andorra. 

Þá bárust þær fregnir frá Parísarborg í vikunni að hinn ástralski Mathias Cormann hafi verið útnefndur til að gegna stöðu framkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París. Sendiráð Íslands þar í borg er einnig fastanefnd gagnvart stofnuninni og hefur tekið virkan þátt í valferlinu síðustu mánuði. 

Á þriðjudag afhenti Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Danmörku, Rumen Radev, forseta Búlgaríu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Búlgaríu með aðsetur í Kaupmannahöfn. Afhendingin fór fram í forsetahöllinni í Sófíu.

Í Genf voru fluttar tvær sögulegar yfirlýsingar um slæma stöðu mannréttinda í Egyptalandi og Rússlandi í mannréttindaráðinu. Ísland studdi báðar yfirlýsingar.

Í Helsinki fór fram vefráðstefna fyrr í vikunni sem skipulögð var af Icelandair og SMAL (e. Association of Finnish Travel Industry) þar sem rætt var um stöðu og horfur í ferðamálum fyrir komandi sumar. Auðunn Atlason sendiherra ávarpaði gesti og hélt kynningu um stöðuna á Íslandi í dag, dag m.a. um áhrif kórónufaraldursins, jarðskjálfta og mögulegs eldgoss á ferðaþjónustuna. Hátt í 60 fulltrúar ferðaskrifstofa sem selja ferðir til Íslands sóttu viðburðinn og létu vel af. Kynntar voru m.a nýjungar á ferðamannastöðunum, aukin sveigjanleiki á miðabókunum og fleiri áfangastaði á Grænlandi. Icelandair stefnir á að hefja beina flugið á ný milli landanna í maí.

Í dag fór svo fram önnur ráðstefna um norðurslóðir á vegum norrænna sendiráða í og gagnvart Vilníus og þar voru þeir Friðrik Jónsson og Tómas Orri Ragnarsson frá skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar voru á meðal  ræðumanna. 

Hlynur Guðjónsson aðalræðismaður Íslands í New York stakk niður penna í vikunni ásamt fleirum þar sem skrifað var um þau tækifæri sem eru til staðar í fasteignatækniiðnaði. Greinina má lesa hér.

Í Ottawa tók Pétur Ásgeirsson sendiherra þátt í vefráðstefnu undir yfirskriftinni "All things Icelandic". Samtalið við hann má sjá hér.

Tökur á færeysku þáttaröðinni TROM hófust í vikunni. Þetta er fyrsta þáttaröð af þessu tagi fyrir sjónvarp sem gerð er í Færeyjum og auk heimamanna koma m.a. að verkefninu Íslendingar, Danir og Norðmenn. Af um fimmtíu manna hópi telur íslenski hlutinn um helming, flestir á vegum Truenorth. Á myndinni má sjá nokkra glaðbeitta íslenska þátttakendur ásamt aðalræðismanni sem tekin var í dag á tökustað á Kongabrúnni. Ef vel er að gáð má greina íslenska fánann í baksýn við hún á aðalræðisskrifstofu Íslands.

 

Í dag hófust tökur á færeysku þáttaröðinni TROM sem samin er af Torfinn Jákupsson og byggð á glæpa- og spennusögum...

Posted by Aðalkonsulát Íslands í Føroyum / Aðalræðisskrifstofa Íslands í Færeyjum on Monday, 15 March 2021


Við ljúkum yfirferðinni á að óska Já-fólkinu eftir Gísla Darra Halldórsson til hamingju með tilnefninguna til Óskarsverðlaunanna. Lagið Husavik úr kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga hlaut einnig tilnefningu. Ljóst er að Húsvíkingar lifa í draumaheimi þessa dagana en þeir Húsvíkingar sem starfa á fjórðu hæð utanríkisráðuneytisins hreinlega ærðust af fögnuði þegar tilkynnt var um tíðindin í upphafi vikunnar. Nóg um það.Góða helgi!

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta