Föstudagspósturinn 7. maí 2021
Heil og sæl.
Segja má að utanríkismálin hafi yfirtekið störf Alþingis í gær þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra flutti þinginu tvær viðamiklar skýrslur. Ráðherra mælti fyrst fyrir skýrslu sinni um EES-samninginn áður en umræða um skýrslu utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um utanríkis- og alþjóðamál fór fram. Umræðan á þinginu var yfirgripsmikil en um leið bæði uppbyggileg og málefnaleg.
Fjallað var um skýrslu ráðherra í fjölmiðlum eftir rafræna dreifingu hennar til þingmanna á mánudag. Fréttablaðið birti m.a. frétt af afkomu ráðuneytisins fyrir árið 2020 sem var jákvæð sem nemur 1,2 milljörðum króna samkvæmt bráðabirgðauppgjöri.
Morgunblaðið gerði svo aukin varnarumsvif við Ísland að umræðuefni í blaðinu á þriðjudag.
Annars hefur verið nóg um að vera á dagskrá ráðherra að undanförnu. Á fimmtudag minntist Guðlaugur Þór þess að sjötíu ár væri liðin frá undirritun varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna.
„Varnarsamstarfið við Bandaríkin er ásamt aðildinni að Atlantshafsbandalaginu meginstoð í öryggi og vörnum Íslands. Það byggir á þeim trausta grunni sem lagður var með varnarsamningnum fyrir sjötíu árum og hefur reynst okkur Íslendingum einkar farsælt,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Þau Guðlaugur Þór og Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri öryggis og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, tóku svo þátt í vefráðstefnu sem Varðberg efndi til í tilefni 70 ára afmælisins.
Þann sama dag hófst einnig hjólreiðaátakið í utanríkisþjónustunni og svo virðist sem skrifstofa tvíhliða samstarfs og svæðisbundinna málefna sé í forystunni.
Á þriðjudag birtust svo fréttir þess efnis að Ísland væri ekki lengur á lista ESB um útflutningshömlur bóluefna.
„Ég átti meðal annars fund með viðskiptaframkvæmdastjóra Evrópusambandsins á föstudag. Í kjölfarið tilkynnti Ursula von der Leyen að niðurstaðan væri sú að við færum af þessum lista. Samkvæmt þeim heimildum sem við höfum fengið í morgun þá hefur það verið gert,“ sagði Guðlaugur Þór við Morgunblaðið.
Á mánudag hittust utanríkisráðherrar Norðurlanda á fjarfundi þar sem rætt var um væntanlegan ráðherrafund Norðurskautsráðsins. Á fundinum gerði Guðlaugur Þór meðal annars grein fyrir undirbúningi ráðherrafundar Norðurskautsráðsins sem fram fer á Íslandi 20. maí næstkomandi. Vonir standa til að sérstök yfirlýsing, svokölluð Reykjavíkuryfirlýsing, verði samþykkt á fundinum, auk stefnu ráðsins til næstu tíu ára.
Sama dag birtist frétt á vef ráðuneytisins um fund ráðherra með sendiherra Póllands á Íslandi, Gerard Pokruszyński, sem átti sér stað fyrir helgi. Á fundinum undirstrikaði Guðlaugur Þór að að smitskömmun í garð Pólverja á Íslandi væri ólíðandi.
Þá að sendiskrifstofum okkar.
Í Genf ávarpaði Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands, aðalsamninganefnd WTO fyrir hönd formanna vinnuhóps WTO um jafnréttismál í viðskiptum í vikunni.
Borgarstjóri Strassborgar tók vel á móti Ragnhildi Arnljótsdóttur, fastafulltrúa Íslands hjá Evrópuráðinu, þar sem rætt var um undirbúning formennsku Íslands í Evrópuráðinu sem hefst í nóvember 2022. Einnig var rætt um þau tækifæri sem eru til staðar til að kynna íslenska list, hönnun og framleiðslu á Alsace svæðinu á næstu árum en áhugi á öllu íslensku er áberandi á svæðinu.
Í síðustu viku afhenti Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Moskvu, Kassym-Jomart Tokayev forseta Kasakstan trúnaðarbréf sitt sem sendiherra í Kasakstan með aðsetur í Moskvu. Athöfnin fór fram í forsetahöllinni í Nur-Sultan (áður Astana), höfuðborg landsins
Í Osló er nú farin af stað kynning á ræðismönnum Íslands í Noregi en þeir eru átta talsins. Í dag kynnti sendiráðið við til leiks Kim Fordyce Lingjærde sem hefur verið aðalræðismaður Íslands í Bergen frá árinu 2012.
Þá vakti aðalræðisskrifstofa okkar í Færeyjum athygli á umfjöllun um Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, í færeyska miðlinum Portal.
Í París ræddi Unnur Orradóttir-Ramette sendiherra við Ivan Ivanisevic, sendiherra Svartfjallalands gagnvart Frakklandi, um ýmsa samstarfsmöguleika.
Discussed numerous ways of possible collaboration with @i_ivanisevic Ambassador of Montenegro to France, #UNESCO and more. 🇮🇸 proud to be the first country to recognise independence of 🇲🇪 in 2006. So many common challenges and opportunities pic.twitter.com/w1UqrgQ8rZ
— Unnur Orradottir (@UOrradottir) May 5, 2021
Í Washington fékk Bergdís Ellertsdóttir sendiherra tækifæri til þess að tala um íslenska náttúru, menningu og sögu á viðburði Fullbright-stofnunarinnar.
Í Tókýó átti Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra svo fund með norrænum starfssystkynum sínum í Japan með Marukawa Tamayo, ráðherra sem fer með málefni Ólympíuleikanna og Ólympíumót fatlaðra.
Í Malaví fór fram Rakarastofuviðburður í Chowe.
Í Kampala heimsótti James William Ssebaggala biskup yfir Mukono-sókn sendiráð Íslands í Kampala og afhenti Þórdísi Sigurðardóttur forstöðumanni sendiráðsins sérstakt þakklætisskjal fyrir stuðning stjórnvalda á Íslandi við íbúa Buikwe héraðs. Í skjalinu er einkum og sér í lagi þakkað fyrir 22 kirkjurekna skóla sem reistir voru fyrir íslenskt þróunarfé. Þeir eiga að auka gæði í menntun barna í fiskiþorpum héraðsins. Á myndinni eru Þórdís og Ssebaggala með þakklætisskjalið innrammað fyrir framan sendiráðið.
Við segjum þetta gott í bili.
Góðar kveðjur frá upplýsingadeild.