Hoppa yfir valmynd
04. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 4. júní 2021

Heil og sæl!

Það er ekki amalegt að fara inn í helgina með eitt stykki fríverslunarsamning í farteskinu. Ísland lauk sem sagt við gerð nýs fríverslunarsamnings við Bretland í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir að um tímamótasamning sé að ræða sem marki þáttaskil í samskiptum ríkjanna. Utanríkis- og viðskiptaráðherrar Íslands, Bretlands, Noregs og Liechtenstein komu saman til fjarfundar í dag og staðfestu formlega að samkomulag hafi náðst um framtíðarfríverslunarsamning.

„Nýr fríverslunarsamningur við Bretland hefur verið forgangsmál í ráðherratíð minni og mun skipta sköpum fyrir bæði íslensk fyrirtæki og neytendur. Ég hef lagt mikla áherslu á að tryggja gott framtíðarsamband við Bretland eftir útgönguna úr Evrópusambandinu og ég er sannfærður um að þessi samningur muni styrkja efnahags- og vinatengsl Íslands og Bretland um ókomna tíð,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Eðli máls samkvæmt hefur verið fjallað um samninginn víða í dag. Þar á meðal á mbl og Vísi en á Facebook-síðu Guðlaugs Þórs hefur hann tekið saman ýmsa áhugaverða punkta:

Á Stjórnarráðsvefnum hafa svo helstu þættir samningsins verið teknir saman á aðgengilegan hátt.

Vitaskuld er fríverslunarsamningurinn mál málanna í utanríkisþjónustunni í þessari viku en nóg annað hefur verið í gangi.

Á miðvikudag funduðu utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8) á fjarfundi og ræddu öryggisáskoranir í Evrópu og aðför að mannréttindum og frelsi í álfunni. 

Sama dag undirritaði Guðlaugur Þór samstarfssamninga við alþjóðlegu viðskiptaráðin á Íslandi á sviði utanríkisviðskipta á markaðssvæðum viðskiptaráðanna. Annars vegar var um að ræða samkomulag við alþjóða viðskiptaráðin sem starfa innan vébanda Viðskiptaráðs Íslands og hins vegar alþjóðlegu viðskiptaráðin hjá Félagi atvinnurekenda.

Á miðvikudag var einnig greint frá 500 milljóna viðbótarframlagi Íslands til alþjóðlegs samstarfs um bættan aðgang að bóluefnum við COVID-19 (COVAX). 

Á þriðjudag átti sér stað fjarfundur utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins. Þar var mikilvægi svæðisbundinnar samvinnu og lýðræðislegra gilda meginstefið í ávarpi Íslands. 

Sama dag tók Guðlaugur Þór þátt í fjarfundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins þar sem sterkari Atlantshafstengsl og aukið pólitískt samstarf voru leiðarstefið í drögum að tillögum sem Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins kynnti á fundinum og mun leggja fyrir í endanlegri mynd á leiðtogafundi bandalagsins 14. júní.

Fundur Martins Eyjólfssonar ráðuneytisstjóra með forseta Alþjóðabankans fór einnig fram á þriðjudag. 

Á mánudag var svo ráðherrafundur EFTA og einnig rafrænn viðskiptafundur Íslands og Slóvakíu.

Þessu næst ætlum við að snúa okkur að fjölbreyttri starfsemi sendiskrifstofa okkar.

Við hefjum leik í Lundúnum þar sem okkar fólk þar í borg átti stórleik á Instagram þegar Sturla Sigurjónsson sendiherra afhenti Elísabetu II Bretadrottningu trúnaðarbréf sitt í Buckingham-höll. Hægt er að sjá þá sögu (e. story) hér á Instagram-reikningi utanríkisþjónustunnar.

Á föstudaginn sögðum við svo frá því að Kristín A. Árnadóttir hefði tekið við stöðu fastafulltrúa Íslands í Vínarborg þann 1. maí síðastliðinn. 


Í Kaupmannahöfn kom listakonan Steinunn Þórarinsdóttir við í sendiráðinu og fundaði með sendiherra vegna tveggja sýninga sem settar verða upp í Danmörku síðsumars. 

Í Moskvu heimsótti Árni Þór Sigurðsson sendiherra Dúmuna, fulltrúadeild rússneska þingsins, og átti fund með Leonid Slutskyi, formanni utanríkismálanefndar.

Á Grænlandi fagnar aðalræðismaður Íslands í Nuuk, Þorbjörn Jónsson, sextugsafmæli!

Í Kampala hélt forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala Þórdís Sigurðardóttir ávarp á viðburði um verkefni og nálgun Íslands í Namayingo sem er sárafátækt hérað í austurhluta Úganda. 

Í Nýju Delí tók Kristín Eva Sigurðardóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Nýju Delí, við gjöf Landspítala, öndunarvélum, sem þarlend stjórnvöld þáðu fyrir skemmstu vegna alvarlegrar stöðu kórónuveirufaraldursin á Indlandi.



Í Osló hefur Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra og hennar fólk í sendiráðinu haft í nógu að snúast í vikunni. Á miðvikudag tók Ingibjörg á móti sendiherra Búlgaríu Veru Shatilovu-Micarovu í embættisbústað Íslands á Bygdøy. Á mánudag tók hún svo á sama stað á móti Ernu Solberg forsætisráðherra Noregs í hádegisverð. Þar tóku einnig þátt norrænir sendiherrar í Osló. Kosningar eru til norska Stórþingsins 13. september nk. og var aðalumræðuefni hádegisverðarins helstu mál í aðdraganda kosninganna í Noregi.

 

Segjum þetta gott í bili.

Bestu kveðjur og góða helgi!

upplýsingadeild


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta