Hoppa yfir valmynd
09. júlí 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 9. júlí 2021

Heil og sæl.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur verið á ferð og flugi undanfarna daga.

Í London í gær undirritaði Guðlaugur Þór fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning við Bretland sem að hans sögn markar nýtt upphaf í samskiptum ríkjanna. Fjallað var um undirritunina víða í fjölmiðlum, þar á meðal á RÚV og mbl.is.

„Bæði eru þetta mikil tímamót og gleðiefni. Við erum að tryggja hagsmuni í viðskiptum okkar við Breta og ég er sérstaklega ánægður með þetta, þar sem þetta hefur verið forgangsmál hjá mér frá því ég tók við utanríkisráðuneytinu,“ var haft eftir Guðlaugi Þór í Morgunblaðinu í dag.

Guðlaugur Þór brá sér einnig fram á ritvöllinn í tilefni af undirrituninni.

„Þegar Bretland gekk svo úr ESB, og þar með EES-samningnum, 31. janúar 2020 tók við aðlögunartímabil næstu tólf mánuði. Á þeim tíma gekk Ísland fyrst ríkja frá bráðabirgðafríverslunarsamningi við Bretland og loftferðasamningi sem tryggði áframhaldandi flugsamgöngur á milli ríkjanna,“ skrifaði ráðherra m.a. í Morgunblaðið.

Auk Guðlaugs Þórs undirrituðu samninginn Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, Iselin Nybø, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Ranil Jayawardena, ráðherra utanríkisviðskipta í Bretlandi.  Dominique Hasler og Iselin Nybø funduðu raunar einnig á Siglufirði í tilefni af upphafi formennsku Íslands í EFTA-ráðinu sem standa mun í eitt ár. Sá fundur markaði tímamót þar sem ráðherrarnir hittust í fyrsta sinn í eigin persónu eftir að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á. Á þeim fundi var einnig viðstaddur Guy Parmelin, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í Sviss, en hann er auk þess forseti landsins.

Héraðsmiðlarnir Trölli.is og Héðinsfjörður.is fjölluðu m.a. um fundinn sem fór afar vel fram.

Í vikunni tók ráðherra einnig þátt á ráðherrafundi Equal Rights Coalition (ERC), bandalagi ríkja sem vinna saman að því að tryggja að hinsegin fólk hvarvetna fái notið allra mannréttinda.

Þá voru ársskýrlur ráðherra birtar á mánudag vegna ársins 2020. Markmiðið með skýrslunum sem koma nú út í fjórða sinn er að auka gagnsæi um ráðstöfun og nýtingu fjármuna en þeim er einnig ætlað að vera grundvöllur fyrir umræðu um stefnumörkun og forgangsröðun hins opinbera.

Í gær fór fram viðburður á vegum á vegum íslenskra stjórnvalda og Þróunarmálaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) um kynjajafnrétti í opinberri stjórnsýslu. Þar flutti Guðlaugur Þór ávarp.„Við náum aðeins að efla skilvirkni og gagnsæi hins opinbera með aðkomu kvenna að allri ákvarðanatöku. Blessunarlega hefur mikill árangur náðst í þessum málum á Íslandi. Þann árangur má rekja til baráttu kvenna, brautryðjenda, sem komu jafnréttismálum og valdeflingu kvenna á dagskrá stjórnmálanna,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ræðu sinni.

Í dag flutti svo ráðherra sameiginlega yfirlýsingu fyrir hönd NB8-ríkjanna í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna varðandi mannréttindaástandið á átakasvæðum í austanverðri Úkraínu. Skýrsla mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttinda á átakasvæðum í austanverðri Úkraínu dregur upp dökka mynd af ástandinu þar. Í ræðunni fjallaði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra var sérstaklega fjallað um frelsissviptingar án dóms og laga, en þeir sem teknir eru höndum sæta slæmri og niðurlægjandi meðferð. 

Þá að starfsemi sendiskrifstofa okkar.

Í Strassborg hefur Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands í Evrópuráðinu, tekið upp mál í ráðinu er varða mismunum og árásir gegn hinsegin einstaklingum, sem eru því miður daglegt brauð í fjölda ríkja. „Við höfum verið minnt á slíkt í okkar heimshluta með nýrri löggjöf í Ungverjalandi sem beinist gegn hinsegin fólki og árásum gegn LGBTI-samfélaginu í Georgíu,“ segir í færslu frá Strassborg frá því gær.

Í Genf var Harald Aspelund, sendiherra í Genf og formaður vinnuhóps WTO um viðskipti og jafnrétti, gestur í vinnukvöldverði hjá sendiherra Bretlands á dögunum. Markmið boðsins var að ræða undirbúning fyrir ráðherrafund WTO í desember. Dr. Ngozi Okonjo-Iweala, framkvæmdastjóri WTO, var heiðursgetur í kvöldverðinum en hún hefur lagt áherslu á að ná árangri í jafnréttismálum á ráðherrafundinum. Pamela Coke-Hamilton, framkvæmdastjóri ITC, var einnig í kvöldverðinum, en ITC hefur unnið að málinu með Íslandi undanfarin ár.

Kristján Andri Stefánsson afhenti í vikunni þjóðhöfðingjum San Marínó trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands með aðsetur í Brussel. Afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í Palazzo Pubblica þar sem þjóðhöfðingjarnir (ít. Capitani reggenti) og þing San Marínó hafa aðsetur.


Í Kampala vakti Þórdís Sigurðardóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, athygli á Íslandsveginum svokallaða sem finna má í austurhluta Úganda.

Í Malaví var þjóðhátíðardegi landsins fagnað á mánudag, 6. júlí, og í Heimsljósi í dag, sögðum við frá spurningakeppni sem haldin var í Mangochi-héraði, samstarfshéraði Íslands, á dögunum.

Í Moskvu tók sendiherra Íslands, Árni Þór Sigurðsson, á móti Steingrími J. Sigfússyni, fráfarandi forseta Alþingis, sem var þar í opinberri heimsókn og heimsótti m.a íslensk fyrirtæki þar í landi. 

Á vettvangi aðalræðisskrifstofu okkar í New York fór fram viðburður á dögunum sem sneri að því hvernig best sé að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. 

Í Osló var kveðjustund en dagurinn í dag er síðasti vinnudagur Önnu Lindar Björnsdóttur viðskiptafulltrúa. Hún heldur nú á vit nýrra ævintýra á Íslandi.

 

Fleira var það ekki í bili.

Upplýsingadeild kveður að sinni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta