Föstudagspósturinn 6. ágúst 2021
Heil og sæl!
Við byrjum á því að biðjast afsökunar á messufalli í síðustu viku og færum ykkur fregnir af því helsta sem hefur drifið á daga utanríkisþjónustunnar síðastliðnar tvær vikur.
Snemma í síðustu viku var gengið frá samkomulagi milli Íslands og Bretlands sem gerir ungu fólki frá Íslandi, á aldrinum 18 til 30 ára, mögulegt að búa og starfa í Bretlandi í allt að tvö ár. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu samkomulagið í húsakynnum ráðuneytisins við Rauðarárstíg.
Guðlaugur Þór fagnaði samkomulaginu og sagði það afar mikilvægt. „Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að tryggja tækifæri ungs fólks til þess að búa, starfa og mennta sig í Bretlandi, sem sést meðal annars í þeirri staðreynd að Ísland er fyrsta ríkið á öllu Evrópska efnahagssvæðinu til að gera samning við Bretland um vinnudvöl ungs fólks frá því landið gekk úr Evrópusambandinu. Ég er sannfærður um að sterk tengsl ríkjanna muni styrkjast enn frekar með þessum samningi,“ sagði Guðlaugur Þór.
Áætlað er að nýja fyrirkomulagið taki gildi í byrjun árs 2022 að undangengnum nauðsynlegum lagabreytingum.
Guðlaugur Þór lýsti í síðustu viku yfir áhyggjum sínum af mannréttindaástandinu í Kúbu og biðlaði til stjórnvalda að leysa friðsæla mótmælendur úr haldi, að koma aftur á internet sambandi í landinu og tryggja fjölmiðlafrelsi.
Gravely concerned about violations of human rights and fundamental freedoms in #Cuba. I echo calls for the immediate release of peaceful protesters detained in Cuba, restoration of internet access, and media freedom.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) July 29, 2021
Í Heimsljósi var greint frá því að samstarf er nú hafið við Namayingo hérað í Úganda, en það hvílir á samstarfssamningi til þriggja ára og byggir á héraðsnálgun Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu. Í ræðu við tilefnið undirstrikaði Þórdís Sigurðardóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, vægi menntunar til að draga úr fátækt og stuðla að jafnrétti og valdeflingu.
Þann 27. júlí var tilkynnt að fyrirtækið Áveitan ehf. hefði hlotið tæplega þrjátíu milljóna króna styrk til uppbyggingar og atvinnusköpunar í Búrkína Fasó. Styrkurinn er veittur úr Samstarfssjóði við atvinnulífið um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið miðar að uppbyggingu og atvinnusköpun á landsvæði sem ABC barnahjálp hefur til umráða í vesturhluta Búrkína Fasó. Uppbyggingin felur meðal annars í sér aðgengi að vatni, ræktarlandi og byggingu íbúðarhúsnæðis.
Um mánaðarmótin hófu fjölmargir starfsmenn utanríkisþjónustunnar störf á nýjum stað en flutningar milli starfstöðva víða um heim er stór hluti af lífinu í utanríkisþjónustunni. Þórir Ibsen tók við starfi sendiherra Íslands í Peking af Gunnari Snorra Gunnarssyni sem kemur til starfa í ráðuneytinu í Reykjavík. Hlynur Guðjónsson var settur sendiherra í Ottawa en áður hafði hann gengt stöðu aðalræðismanns í New York. Við þeirri stöðu tók Nikulás Hannigan og forveri Hlyns í Ottawa, Pétur Ásgeirsson sendiherra, kemur til starfa í ráðuneytið. Þá leysir Matthías G. Pálsson Stefán Jón Hafstein af hólmi sem fastafulltrúi Íslands í Róm og kemur Stefán Jón til starfa í ráðuneytið. Hér heima í Reykjavík tók svo Nína Björk Jónsdóttir við sem forstöðumaður GRÓ, þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, eins og greint var frá á Vísi.
Í gær kom sendiherra Pakistan gagnvart Íslandi, Zaheer Pervaiz Khan, í kveðjuheimsókn til ráðherra en hann hefur gegnt starfinu síðastliðin þrjú ár, með aðsetur í Osló.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, þakkaði sendiherranum og pakistönskum stjórnvöldum sérstaklega fyrir það mikilvæga samstarf sem verið hefur vegna hins hörmulega slyss á K2 í byrjun febrúar, svo og við fund líkamsleifa á fjallinu nýlega.
Og þá að fréttum úr sendiskrifstofum okkar víða um heim:
Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, greindi frá fundi norrænu sendiráðanna í Washington með W. Sherman, aðstoðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í gær.
The #Nordics in #DC in conversation with W. Sherman @DeputySecState this afternoon. And our friend Mike Murphy @StateDept Thank you @DKambUSA for hosting this important meeting addressing issues of interest and concern to us all! pic.twitter.com/G274Djqueg
— Bergdís Ellertsdóttir (@BEllertsdottir) August 5, 2021
Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Japan, hefur staðið vaktina á Ólympíuleikunum sem nú fara fram í Tókýó.
Got my my accreditation 😁 - on my way to see Guðni Valur Guðnason our very own mountain of a man 🇮🇸 in discus throwing🥏! Go for it Guðni!! Áfram Ísland🇮🇸🇮🇸!! #Tokyo2020 #Iceland @MFAIceland #アイスランド の円盤投げで出場するグズニ選手の試合を応援しにいくことが出来ます!🇮🇸🥏📣 pic.twitter.com/cV0gnavTkD
— Stefan H Johannesson (@stefanhaukurj) July 30, 2021
Á sunnudaginn lýkur Ólympíuleikunum og við það tækifæri ætlar Stefán Haukur að sýna okkur bakvið tjöldin á leikunum á Instagram síðu utanríkisþjónustunnar. Ekki missa af því!
Við endum þennan föstudagspóst á því að fagna fjölbreytileikanum en Hinsegin dagar hafa staðið yfir alla vikuna og ná hámarki sínu um helgina þó ekkert verði af gleðigöngunni í Reykjavík í ár sökum farsóttarinnar. Ráðherra skrifaði í Fréttablaðið að þessu tilefni og óhætt er að segja að þar sé að finna gott veganesti inn í helgina: „Því fjölbreytni er styrkur og allir litir regnbogans eiga að fá að ljóma.“
Gleðilega hinsegin helgi!